Chema R. Bravo
Panenka
twitter.com/Chemaerrebravo
Á síðustu tveimur árum hefur þjálfarinn Vicente del Bosque lagt áherslu á hugtakið „slétt umskipti“. Eftir dapurlega tilraun til að verja heimsmeistaratitil sinn í Brasilíu fyrir tveimur árum hafa Spánverjar gengið í gegnum óvissutímabil og fótboltinn sem þeir hafa spilað hefur á köflum verið leiðinlegur og fyrirsjáanlegur. Það er undarlegt fyrir lið sem mætir til Frakklands með það fyrir augum að vinna Evrópumeistaratitilinn í þriðja sinn í röð að menn efist um það.
Del Bosque talar um „umskipti“ en skilaboð hans virðist ófullnægjandi: Hvar eiga umskiptin að vera? Spænska liðið verður að endurnýja sig eða deyja en þjálfarinn hefur ekki skilgreint hvernig liðið eigi að ná vopnum sínum á ný.
Evrópumeistarar 2008, heimsmeistarar 2010, Evrópumeistarar 2012 en gleymum ekki að Spánverjar hafa þróast frá því að spila beinskeyttan fótbolta í það að vera fyrirsjáanlegri. Báðir leikstílarnir koma frá sömu hugmyndafræði en með mismunandi nálgun.
Xavi og Alonso farnir
Nú hefur Del Bosque ekki til staðar lengur tvo mikla snillinga inni á vellinum, þá Xavi Hernández og Xabi Alonso. Geta Spánverjar leikið sama leik án þeirra? Del Bosque telur svo vera en spænska liðið spilar eins það hafi rætur í fortíðinni og þjálfaranum finnst hann standa á tímamótum.Er hann að halda sig við þá formúlu sem virkaði svo vel og finna leikmenn til að fylla í skörðin eða er hann að færast frá því að láta lið sitt spila með stuttum sendingum þar sem hreyfingin á mönnum er góð, liðið er fljótt að vinna boltann, halda honum í sínum röðum og spila af miklum hraða eins og Spánverjum er í blóð borið?
En hvaða miðjumenn geta betrumbætt lið Del Bosque? Thiago og Cesc Fàbregas? Eða kannski Koke? Del Bosque hefur aldrei verið sterkur í taktíkinni. Velgengni hans hefur byggst á getu hans til að stýra landsliðinu sem er fullt af stjörnum og að geta mótað sterkt hugarfar á meðal leikmanna á mótum þar sem þeir vita hvað þeir eru færir um.
Efasemdirnar til staðar
Þessi leið til að stjórna liðinu virkaði vel á þessum árangursríkum árum en er í hættu. Hann verður að sýna að keppnin í Brasilíu hafi ekki verið byrjunin á hnignun liðsins. Efasemdirnar eru til staðar. Í markinu hefur David de Gea sannað sig sem toppmarkmaður í ensku úrvalsdeildinni en hann á ekki öruggt sæti í liðinu ennþá, þar sem Iker Casillas er enn til staðar. Á hinn bóginn eru efasemdir um formið á lykilleikmönnum eins og Ramos, Fábregas og Pedro og að auki er sama gamla vandamálið; sóknarleikurinn. Del Bosque hefur aldrei byggt upp fljótandi og samfelldan sóknarleik. Spánverjar hafa oftast sýnt sitt besta án framherja, með Fábregas sem „falska níu,“ og án ekta kantmanns. Morata hefur komið fram sem betri lausn en Aduriz eða Costa, sem komst ekki í EM-hópinn. En það væri rangt að einblína bara á veikleika Spánverja því að styrkleikinn er svo sannarlega til staðar. Þetta er reynt lið, mjög samkeppnishæft og með skýr markmið.Líklegt byrjunarlið : Casillas – Juanfran, Ramos, Piqué, Alba – Busquets, Iniesta, Fábregas – Silva, Morata, Nolito.