[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vítor Hugo Alvarenga Maisfutebol twitter.com/valvarenga Það er mikill munur á portúgalska byrjunarliðinu á heimsmeistaramótinu 2014 og því liði sem búist er við að teflt verði fram á Evrópumótinu.

Vítor Hugo Alvarenga

Maisfutebol

twitter.com/valvarenga

Það er mikill munur á portúgalska byrjunarliðinu á heimsmeistaramótinu 2014 og því liði sem búist er við að teflt verði fram á Evrópumótinu. Fernando Santos tók við af Paulo Bento eftir fyrsta leik undankeppninnar og undirbýr öðruvísi leikskipulag fyrir mótið.

Allt saman tengist það Cristiano Ronaldo og skorti Portúgals á almennilegum framherjum. Ronaldo er í aðalhlutverki frammi en vill ekki vera í miðri framlínunni, umkringdur mótherjum. Santos átti erfitt með þetta vandamál í undankeppninni og lét reyna á lausn sem líklegt er að verði notuð í Frakklandi.

Búist er við því að Portúgal fari úr sínu hefðbundna 4-3-3 leikkerfi yfir í sveigjanlegt 4-4-2 kerfi. Þá mun Nani styðja Ronaldo í fremstu línu, en með leyfi til þess að draga sig til vinstri. Ronaldo fær frelsi til þess að staðsetja sig hvar sem honum sýnist og verður laus við þá ábyrgð að verjast á vinstri kanti Portúgals.

Leikskipulag Santos krefst leikskilnings og þols af miðjumönnunum. Á aðlögunartímabilinu voru Danny, Bernardo Silva og Fabio Coentrao mikilvægir þar, en þeir eru úr leik á EM vegna meiðsla. Hinn reyndi Tiago, sem var lykilmaður í undankeppninni, var skilinn eftir heima eftir þrálát meiðsli á tímabilinu og þeir Miguel Veloso og Raul Meireles, lykilmenn á síðasta HM, eru ekki hluti af liðinu.

Joao Moutinho úr Monaco er helsti varnarsinnaði miðjumaðurinn, þrátt fyrir meiðsli á tímabilinu, og gæti haft William Carvalho úr Sporting sér við hlið. Danilo Pereira úr Porto spilaði fleiri leiki í undankeppninni en Carvalho en þjálfarinn gæti valið Carvalho vegna tengsla við Joao Mário, sem er líklegastur til þess að fá stöðu á hægri kantinum.

Eins og hjá Sporting

Sporting notar sama 4-4-2 leikkerfi, þar sem Joao Mário, klár leikmaður sem getur bæði varist og teygt út spilið á köntunum, spilar sem falskur hægri kantmaður. Hann mun örugglega gera hið sama fyrir Portúgal og verður André Gomes úr Valencia á vinstri kantinum. Adrien Silva úr Sporting og Renato Sanches, sem er á leið til Bayern München og er rísandi stjarna portúgalskrar knattspyrnu, verða varamenn.

Rui Patrício heldur sæti sínu sem aðalmarkvörður liðsins, fram yfir Anthony Lopes og Eduardo. Vierinha úr Wolfsburg er líklegur til þess að vera hægri bakvörðurinn og Eliseu úr Benfica mun reyna að fylla í skarð hins meidda Coentrao vinstra megin, en þó eru Cédric og Raphael Guerreiro einnig valkostir. Pepe og Bruno Alves gætu myndað miðvarðaparið en endurkoma Ricardo Carvalho, leikmanns Monaco, hefur sett þrýsting á þá. José Fonte er fjórði möguleikinn í hjarta varnarinnar.

Þetta 4-4-2 leikkerfi er byggt fyrir Ronaldo og Nani í framlínunni. Aðrir sóknarmöguleikar eru hinn snöggi og tæknilega góði Rafa, sem getur spilað bæði vinstra megin eða í miðjunni. Ricardo Quaresma er aðallega vængmaður og lítur ekki út fyrir að passa í kerfið, en hann hentar betur í 4-3-3 leikkerfi. Éder, eini framherjinn, gæti verið gott vopn af bekknum.

Líklegt byrjunarlið : Rui Patrício – Vieirinha, Pepe, Bruno Alves, Eliseu – Joao Mário, William Carvalho, Joao Moutinho, André Gomes – Nani, Cristiano Ronaldo.