Fræðimaður Gabor Maté mun um helgina flytja ávörp í Hörpu.
Fræðimaður Gabor Maté mun um helgina flytja ávörp í Hörpu. — Ljósmynd/Wikipedia
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Kanadíski læknirinn Gabor Maté mun næstkomandi sunnudag halda fyrirlestra á sviði ávanabindingar í Silfurbergi í Hörpu í Reykjavík.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Kanadíski læknirinn Gabor Maté mun næstkomandi sunnudag halda fyrirlestra á sviði ávanabindingar í Silfurbergi í Hörpu í Reykjavík.

Maté er einkum þekktur fyrir rannsóknir sínar á fíkn og þær meðferðir sem hann beitir, en einnig fyrir athuganir á athyglisbresti, þroska og hegðun barna og orsökum og meðferð streitu.

„Ég hef mikla reynslu af því að vinna með heilbrigðisvandamál á borð við fíkn og hef gefið út fjölmörg fræðirit því tengd auk þess sem ég hef sinnt kennslu á því sviði,“ segir Maté í samtali við Morgunblaðið og bendir á að hann sæki reynslu sína víða. Þannig vann Maté meðal annars um árabil á heilsugæslustöð í miðborg Vancouver þar sem hann kynntist og sinnti fjölmörgum einstaklingum sem lent höfðu í klóm ávana- og fíkniefna. Margir þeirra voru einnig haldnir alvarlegum sjúkdómum á borð við geðsjúkdóma.

Æskan geymir ástæðu fíknar

„Flestir líta svo á að fíkn sé annað hvort bein afleiðing af röngum eða slæmum ákvörðunum einstaklings eða að um sé að ræða einhvers konar sjúkleika í heila,“ segir Maté og heldur áfram: „Þegar fólk ánetjast einhverju er það vanalega að flýja tilfinningasársauka. Fyrsta spurningin er því ekki: Af hverju fíkn? heldur: Af hverju sársauki? Og sársaukinn stafar af einhverju sem átti sér stað í æsku,“ segir hann og bætir við að fíkn eigi því uppruna sinn í áfalli í æsku.

Aðspurður segir Maté þá fíkn sem hann talar um ekki einungis tengjast notkun viðkomandi á vímuefnum á borð við áfengi og fíkniefni. Fíknin getur, að hans sögn, einnig komið fram sem spila-, matar- og kynlífsfíkn eða kaupfíkn. „Öll fíkn, hvort sem hún tengist efnum eða hegðun viðkomandi, er tilraun til að flýja andlega vanlíðan og streitu. Til að skilja ástæðuna þurfum við að skoða líf viðkomandi og hvað henti hann í æsku,“ segir hann.

Þétt og mikil dagskrá

Dagskráin í Hörpu hefst klukkan 10 með stuttri kynningu á starfi og verkum Maté. Að því loknu hefst fyrsti fyrirlestur hans af þremur og mun sá taka til fíknar og stríðsins gegn fíkniefnum. Að loknu hádegishléi hefst annar fyrirlestur hans sem fjallar um tengsl áfalla í æsku við geðsjúkdóma og fíkn. Lokafyrirlestur Maté verður um skaðaminnkandi aðgerðir fyrir einstaklinga með alvarlegan vímuefnavanda, en öllum fyrirlestrum lýkur með umræðum og spurningum úr sal.

„Ég á von á því að fulltrúar frá Rauða krossinum mæti, heilbrigðisstarfsfólk og einstaklingar sem sjálfir glíma við fíknivanda,“ segir Maté en nálgast má frekari upplýsingar um viðburðinn og Gabor Maté á heimasíðu Hörpu.