Sjúkraflug Njáll sem er í forystu Hjartans í Vatnsmýrinni hefur sett sjúkraflugið fram með myndrænum hætti.
Sjúkraflug Njáll sem er í forystu Hjartans í Vatnsmýrinni hefur sett sjúkraflugið fram með myndrænum hætti. — Kort/Njáll Trausti Friðbertsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árni Grétar Finnsson agf@mbl.

Árni Grétar Finnsson

agf@mbl.is

Njáll Trausti Friðbertsson, bæjarfulltrúi á Akureyri og annar af formönnum Hjartans í Vatnsmýrinni, segir að umræðan í kringum Reykjavíkurflugvöll hafi knúið hann til þess að setja fram með myndrænum hætti mikinn mun á sjúkraflutningi Mýflugs og þyrlum Landhelgisgæslunnar. „Þarna er hægt að sjá þetta á einni mynd. Þetta er árið 2015 og niðri í horninu má sjá 645 flug hjá Mýflugi en 110 hjá þyrlum Landhelgisgæslunnar. Þannig að hlutfallið er 83 á móti 17,“ segir Njáll. Helmingurinn af öllu sjúkraflugi hér á landi flokkast undir svonefnt F1- og F2-flug, en þá er átt við að sjúklingurinn sé í lífsógn.

Hann bendir á að myndin sýni mikinn mun á annars vegar austari hluta landsins og hins vegar vestari hluta þess. „Mér sýnist vera 10 manns í þyrlum í austurhluta landsins. Þyrlurnar eru aðallega í næsta nágrenni við höfuðborgina á Suðvestur- og Suðurlandi,“ segir Njáll, en hver blár kall á myndinni stendur fyrir einstakling sem hefur verið fluttur með sjúkraflugi. Þeir rauðu tákna þá sem þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa sótt. „Flest slík tilvik eru á hálendinu, en í horninu vinstra megin má finna 25 tilfelli þar sem sótt hefur verið út á sjó,“ útskýrir Njáll.

Fjölgun um 11% milli ára

„Aukningin hefur verið yfir helming á sjúkraflutningum á lofti á Íslandi síðasta áratuginn. Vöxturinn á milli ára fyrstu fimm mánuðina núna og í fyrra er 11%. Það er stöðugur vöxtur í gangi,“ segir Njáll.

Aðspurður út í þann mikla fjölda sem flýgur frá Reykjavík útskýrir hann að þar sé um að ræða sjúkraflutninga á fólki til síns heima sem hafa þegar fengið viðeigandi meðferð. „Yfirleitt er verið að flytja fólkið í sína heimabyggð eftir að það nær ákveðnum bata í Reykjavík.“

Neyðarbrautinni lokað innan 16 vikna

• Ráðuneytið virðir niðurstöðu Hæstaréttar • Samtökin Hjartað í Vatnsmýrinni vilja að Alþingi grípi inn í Erla María Markúsdóttir

Lára Halla Sigurðardóttir

Þorsteinn Ásgrímsson

„Niðurstaða Hæstaréttar í málinu liggur fyrir. Hún er afgerandi, sýnist mér. Ráðuneytið mun að sjálfsögðu virða niðurstöðu Hæstaréttar,“ segir Ólöf Nordal innanríkisráðherra um niðurstöðu Hæstaréttar, sem staðfesti í gær dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að ríkinu væri skylt að loka norðaustur-/suðvesturflugbrautinni á Reykjavíkurflugvelli. Brautinni, sem stundum er nefnd neyðarbraut, ber að loka innan 16 vikna. Með dómnum var dómur héraðsdóms frá í mars á þessu ári staðfestur að mestu leyti. Fimm dómarar Hæstaréttar dæmdu málið. Reykjavíkurborg hafði höfðað mál á hendur innanríkisráðuneytinu vegna ákvörðunar ráðherra um að neita að loka NA-SV brautinni. Héraðsdómur hafði komist að þeirri niðurstöðu að Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, hefði verið heimilt að gera samkomulag við borgina árið 2013 og láta af hendi landsvæði sem er í eigu ríkisins og brautin er á.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, er mjög ánægður með niðurstöðu Hæstaréttar og segist hafa búist við að hún yrði á þennan veg. „Mér finnst hún skýr og þetta er fullnaðarsigur í málinu. Meginniðurstaðan er að þessir samningar halda og brautinni verður lokað,“ segir Dagur.

Uppbygging hefjist í Vatnsmýrinni eftir 11 ára baráttu

Niðurstaða Hæstaréttar þýðir meðal annars að Valsmenn hf., sem hafa fengið framkvæmdaleyfi og hafið framkvæmdir á Hlíðarendasvæðinu, geta haldið áfram með framkvæmdir sínar án þess að eiga á hættu að uppbygging þar skarist við aðflug að neyðarbrautinni.

„Þetta hefur verið 11 ára barátta og nú ætti ekki að vera neitt í veginum fyrir því að uppbygging í Vatnsmýrinni hefjist,“ segir Brynjar Harðarson, formaður Valsmanna hf. Hæstiréttur breytti dómi héraðsdóms að því leyti að ríkinu bæri að loka brautinni innan 16 vikna frá uppkvaðningu þessa dóms, en áður hafði verið miðað við 16 vikur frá uppkvaðningu héraðsdóms, sem var í mars á þessu ári. Brynjar segir þetta ekki breyta miklu fyrir framkvæmdirnar. Til að byrja með verði unnið að sökklum sem nái 4-5 metra ofan í jörðina. Mögulega tefji þetta að hægt sé að setja byggingakrana í fulla hæð en Brynjar segir það ekki munu tefja framkvæmdir.

Brynjar segist gera ráð fyrir því að næsta sumar verði framkvæmdir komnar langt á tveimur reitum á Hlíðarendasvæðinu, eftir 18 mánuði verði fyrstu íbúðirnar tilbúnar og í framhaldinu muni fyrstu íbúarnir flytja inn.

Spurður hvort hann telji þetta þýða að flugvellinum verði lokað segir Brynjar að í raun sé málið líka sigur fyrir stuðningsmenn flugvallarins. Segir hann að nú geti menn farið að snúa sér að því að þróa og þroska völlinn. Niðurstaða Hæstaréttar kalli hins vegar ekki á að völlurinn sé færður. „Hann verður í fullri notkun eins og undanfarin ár,“ segir Brynjar.

Alþingi grípi til lagasetningar

Samtökin Hjartað í Vatnsmýrinni telja að ekki komi til álita að loka flugvellinum fyrir fullt og allt. „Þetta eflir okkur frekar í afstöðunni að taka þennan slag,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, annar af formönnum samtakanna Hjartans í Vatnsmýrinni. „Við munum halda áfram ótrauð í baráttunni fyrir Reykjavíkurflugvelli í núverandi mynd og teljum að ekkert hafi breyst með tilliti til mikilvægis flugvallarins, hvort sem litið er til sjúkraflutninga eða almannaflugs í landinu.“

Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur sem samþykkt var árið 2013 er áætlað að loka norður-suður flugbrautinni árið 2024. „Ef það gengur eftir eru nýtingarhlutföll vallarins hrunin. Það er því áhyggjuefni að núverandi meirihluti í borginni stefnir á að loka flugvellinum fyrir fullt og allt,“ segir Njáll. Samtökin hvetji því til inngrips Alþingis. „Það er orðið óhjákvæmilegt að Alþingi grípi til lagasetningar sem tryggi framtíð sjúkraflugs og almannaflugs til að forða óbætanlegu tjóni sem hefur áhrif á öryggi allrar þjóðarinnar.“

Flugfélagið Mýflug sinnir nær öllu sjúkraflugi innan Íslands samkvæmt samningi við heilbrigðisráðuneytið og segir Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs, að lokun neyðarbrautarinnar sé fyrst og fremst sorgleg.

„Auðvitað er það öryggismál að þessari braut sé lokað.“ Leifur telur að lokunin muni fyrr eða síðar hafa afleiðingar. „Það er sorglegt að það sé ekki meiri skilningur hjá þeim sem ráða málunum á að þörf sé á þessari braut.“ Leifur segir að Mýflug muni áfram sinna þeim verkefnum sem því verði gert að sinna. „Þegar ekki má lenda lengur á þessari braut þurfa menn að laga sig að því.“