Leikarar Hörðuri Bent Víðisson, Helga Steffensen og Gígja Hólmgeirsdóttir verða á Brúðubílnum í sumar.
Leikarar Hörðuri Bent Víðisson, Helga Steffensen og Gígja Hólmgeirsdóttir verða á Brúðubílnum í sumar. — Morgunblaðið/Ófeigur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það dylst engum að sumarið er komið því Brúðubíllinn er kominn á fulla ferð og slær ekki af fyrr en í sumarlok. Óþekktarormar er nýtt leikrit sem var frumsýnt í vikunni og verður sýnt út júnímánuð.

Það dylst engum að sumarið er komið því Brúðubíllinn er kominn á fulla ferð og slær ekki af fyrr en í sumarlok. Óþekktarormar er nýtt leikrit sem var frumsýnt í vikunni og verður sýnt út júnímánuð. Að vanda verður Helga Steffensen í aðalhlutverki en með henni eru bílstjórinn Gígja Hólmgeirsdóttir og Hörður Bent Víðisson sem fer í leiklistarnám til Bandaríkjanna, í Los Angeles, í haust.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

Þessi sýning er samansafn af alveg ógurlega miklum óþekktarormum. Einn er t.d. Gutti og við syngjum Guttavísur eftir Stefán Jónsson. Mér er það mikið í mun að börnin þekki þessar gömlu vísur. Uglan mætir líka en hún á afmæli. Hún er ógurlega geðill, þó hún eigi afmæli þá heldur hún áfram að vera geðill. Dýrin færa henni gjafir og hún nennir ekkert að sinna þeim, segir þeim að setja þær í póstkassann. En svo rankar hún við sér þessi elska og sér fínu gjafirnar og syngur með þeim og allir eru góðir,“ segir Helga Steffensen glaðlega um sýninguna Óþekktarorma sem Brúðubíllinn sýnir í júní.

Boðskapurinn um að allir eigi að vera vinir er í forgunni. Það sama er upp á teningnum í öðru leikriti sem verður sýnt í júlí.

Í sýningunni koma fleiri persónur eins og t.d. óþekktarormurinn sjálfur og kynnir sýningarinnar er enginn annar en Lilli sem hvert mannsbarn þekkir.

Í brúðuleikhúsinu segir Helga mikilvægt að sýningarnar séu hnitmiðaðar og atriðin stutt því hún er fyrir þau allra yngstu sem eru að kynnast leikhúsinu oft í fyrsta skipti. Helgu þykir mikilvægt að sú upplifun sé góð og segir brúðuna sniðna inn í það hlutverk.

„Brúðan höfðar svo sterkt til barnanna. Hún er vinur þeirra,“ segir Helga sem hefur stjórnað leikhúsi Brúðubílsins í 34 ár af einstakri gleði. Hún er höfundur verksins, býr til brúðurnar og leikmyndina. Sigrún Edda Björnsdóttir er leikstjóri sýningarinnar og hafa þær Helga sett saman fjölda sýninga í árabil.

Galdur þegar gulu vestin birtast í halarófu

„Þetta er alveg yndislegt enda sæki ég í þetta aftur og aftur. Það eru galdrar þegar börnin byrja að koma. Þegar maður sér lítil gul vesti koma í halarófu úr öllum áttum er það algjör draumur. Það er svo gaman að leika fyrir yngstu börnin því þau eru svo einlæg og móttækileg. Þarna er galdurinn,“ segir Gígja Hólmgeirsdóttir bílstjóri Brúðubílsins í ár.

Hún hefur starfað í Brúðubílnum í fimm ár. Hún er einnig brúðuleikari og bregður sér inn í bíl og sinnir því hlutverki með Helgu og Herði Bent Víðissyni. Síðustu tvö ár hefur hún keyrt bílinn, sett upp leikmyndina og segja má að hún sé í raun eins og tæknimaður í leikhúsi. Áður lék hún stóru brúðurnar sem bregða á leik fyrir utan bílinn. Gígja, eins og fleiri Íslendingar, kynntist Lilla í Brúðuleikhúsinu á unga aldri. Hún segir hann vera í miklu uppáhaldi og ber óttablandna lotningu fyrir honum.

Þróað mig sem leikara

„Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á leiklist og fannst spennandi að fá tækifæri til að vera með Brúðubílnum sem ég hef fylgst með alveg frá því ég var lítill,“ segir Hörður Bent Víðisson sem fer með hlutverk stóru brúðanna í leiksýningunni og bregður sér í nokkur ólík gervi.

Þetta er þriðja sumarið sem hann er með Brúðubílnum.

Hann viðurkennir að það hafi komið sér töluvert á óvart hversu krefjandi hlutverkin eru. Persónurnar sem hann leikur eru allar ólíkar og líkamlegar hreyfingar greina á milli þeirra. Hann notar ekki röddina því búið er að taka upp það sem brúðurnar segja í leikritinu.

„Þessi þrjú sumur í Brúðubílnum hafa þróað mig mikið sem leikara,“ segir Hörður. Hann segist einnig búa vel að því að vera í ágætu formi en hann er í parkour-hópnum Flowon sem tók þátt í Ísland got talent. Hópurinn kemur reglulega saman og æfir en um leið og Hörður kynntist parkour hætti hann í fimleikum sem hann hafði stundað um árabil.

Leiklistin á hug hans allan en hann hefur einnig leikið með Götuleikhúsinu í Kópavogi og var á leiklistabraut í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Í ágúst heldur hann út til Los Angeles í leiklistaskólann Stella Adler í þriggja ára nám.

„Þetta hefur verið draumur minn frá því ég man eftir mér að fara út og mennta mig í leiklist. Ég veit að þetta er mikil áskorun að fara einn út og bjarga sér en ég hlakka til,“ segir Hörður og bætir við: „Ég ætla að gera það sem ég hef áhuga á. Mér finnst það vera tilgangur lífsins.“

Allar sýningar Brúðubílsins eru ókeypis. Hægt er að sjá sumardagskrána á vefnum brudubillinn.is og einnig á facebook-síðunni undir Brúðubíllinn brúðuleikhús.