Meirihlutinn í skóla- og frístundaráði Reykjavíkur ákvað í fyrradag að rétt væri að stytta viðveru barna á frístundaheimilum borgarinnar um heilt kortér. Frá og með næsta hausti skal loka heimilunum á slaginu kl. 17.00. Með þessum aðgerðum er ætlunin að spara fjórar milljónir króna á þessu ári og ellefu milljónir á næsta ári.
Fjárhagsstaða borgarinnar er að sönnu skelfileg, þökk sé áralangri óstjórn vinstriflokkanna, og það munar um hverja krónu. Engu að síður virkar það sem argasta öfugmælavísa þegar hagrætt er í grunnþjónustu við börn um upphæð sem nemur um 15 milljónum króna á tveimur árum, á sama tíma og rúmlega tífaldri þeirri upphæð er sólundað í þrengingu við Grensásveg. Þá þrengingu bað enginn um og enginn hefur nokkurn minnsta áhuga henni á svo vitað sé, utan meirihlutans í borgarstjórn, sem sá gullið tækifæri til að sóa skattfé í gæluverkefni.
Því miður eru engin teikn á lofti um að þessi afstaða til málefna borgarinnar taki breytingum með núverandi flokka, Samfylkingu, VG, Pírata og Bjarta framtíð, við stjórnvölinn. Rusli verður leyft að safnast upp, veggjakrot fær að vaða uppi um alla veggi, snjór er ekki ruddur, götur eru ekki lagaðar og börn fá mat sem uppfyllir ekki lágmarkskröfur. Í ofanálag bætist nú við að börn og foreldrar sem áður gátu treyst á vissa þjónustu frá borginni munu ekki geta það lengur. En það skiptir engu máli. Áfram verður forgangsraðað í þágu gæluverkefnanna.