[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Daniel Taylor The Guardian Twitter.com/Dtguardian Dagarnir, þegar Roy Hodgson stillti liði sínu upp í formfast 4-4-2 leikkerfi með svo litlu flæði að Gary Lineker spurði hvort England væri að spila fótbolta ,,frá miðöldum,“, heyra fortíðinni til.

Daniel Taylor

The Guardian

Twitter.com/Dtguardian

Dagarnir, þegar Roy Hodgson stillti liði sínu upp í formfast 4-4-2 leikkerfi með svo litlu flæði að Gary Lineker spurði hvort England væri að spila fótbolta ,,frá miðöldum,“, heyra fortíðinni til.

Enska landslið Hodgsons, á fjórða ári í þjálfaratíð hans, er orðið að frekar flottu liði. Liðinu er annaðhvort stillt upp í djarft 4-3-3 kerfi eða í tígul á miðjunni sem var mjög árangursríkur þegar liðið vann 3:2 sigur á Þjóðverjum eftir að hafa verið 2:0 undir. Liðið sýndi í þeim leik að það gæti verið óttalaust og valdið usla í varnarlínum mótherjans með Harry Kane, Jamie Vardy og Dele Alli.

Hvað á að gera við Rooney?

Og hvað með Wayne Rooney? Það er sennilega helsta vandamálið fyrir Hodgson, að Kane og Vardy voru markahæstu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili með 49 mörk, jafnmörg og Manchester United skoraði samtals.

Kane og Vardy eru bestir saman sem framherjapar og það er einn möguleiki að láta Rooney spila efst á tígli miðjunnar. Það er hins vegar sú staða sem Dele Alli er sterkastur í. Hodgson er mjög hliðhollur Rooney, fyrirliða Englands og markahæsta leikmanni í sögu liðsins, en það er engin augljós lausn til á því að halda honum í liðinu og að troða á sama tíma bestu leikmönnum síðasta tímabils í byrjunarliðið.

Miðverðirnir áhyggjuefnið

Englendingar eru sterkir í sókn en liðið virðist skorta jafnvægi, þar sem vörnin er mun berskjaldaðri. Joe Hart hefur fest sig í sessi sem aðalmarkvörður en helsta áhyggjuefni Hodgsons eru miðverðirnir. Chris Smalling hefur tekið miklum framförum en hann er enn mistækur. Frammistaða Gary Cahills á síðasta tímabili var mjög sveiflukennd og varamaður þeirra, John Stones, hefur verið í lægð nýlega, rétt fyrir mót. Í ljósi þessa vekur það vissulega spurningar að Hodgson skuli taka þá áhættu að velja aðeins þrjá miðverði en Eric Dier gæti, ef nauðsynlegt væri, fært sig af miðjunni og tekið sér stöðu í vörninni til bráðabirgða.

Fimm frá Tottenham?

Kyle Walker og Danny Rose eru líklegastir til að fylla bakvarðastöðurnar í liði með sterkum Tottenham Hotspur keim, en byrjunarliðið gæti innihaldið allt að fimm leikmenn frá White Hart Lane. Dier er mjög líklegur til að spila sem varnartengiliður, en Hodgson er mikill aðdáandi Jack Wilshere og þessi miðjumaður Arsenal gæti leikið stórt hlutverk, svo lengi sem heilsan leyfir, þrátt fyrir að hann væri aðeins einu sinni í byrjunarliði Arsenal á tímabilinu sökum meiðslavandræða.

Lið Hodgsons mun ekki vera með hefðbundna kantmenn en framherjarnir hafa frelsi til þess að draga sig út á kantana, og bakverðir liðsins munu sækja djarft.

Líklegt byrjunarlið : Hart – Walker, Smalling, Cahill, Rose – Dier – Henderson, Alli – Rooney – Kane, Vardy.