[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Philippe Auclair France Football Twitter.

Philippe Auclair

France Football

Twitter.com/PhilippeAuclair

Í ljósi fjarveru Karim Benzema, sem hefur verið álitinn óæskileg persóna sökum mögulegrar hlutdeildar í kúgunarmálinu alræmda, og hins sorglega hvarfs fórnarlambsins Mathieu Valbuena, neyðist Didier Deschamps til þess að gera það sem margir höfðu vonast til frá upphafi. Það er, að treysta ungu mönnunum, sérstaklega í framlínunni.

Það kæmi ekki á óvart að sjá þá Anthony Martial, Antoine Griezmann og Kingsley Coman leika saman á mótinu, jafnvel þótt annað hvort André-Pierre Gignac eða Olivier Giroud verði valdir til þess að leika í stöðu framherja.

4-3-3 nýtir styrkleika Frakka

Frakkar hafa iðulega reitt sig á frjálst og flæðandi 4-3-3 leikkerfi með áherslu á skyndisóknir síðustu átján mánuði, níu af síðustu tólf leikjum síðan 1. janúar 2015, og það er ólíklegt að þeir snúi aftur til 4-2-3-1 og 4-4-2 demantsins sem Deschamps prófaði í fyrra í leikjum gegn Albaníu, sem var algjör hörmung, og Portúgal þar sem Pogba lék í holunni á milli sóknar og miðju í ósannfærandi 1:0 sigri. Þetta 4-3-3 leikkerfi nýtir ótvíræða styrkleika Frakklands, sem eru fyrst og fremst ein kraftmesta miðja í Evrópu með Pogba, N‘Golo Kanté og Blaise Matuidi, og ógnvænleg samsetning hraða og tækni á köntunum, til hliðar við stóran og sterkan framherja. Lassana Diarra meiddist reyndar og verður ekki með en Morgan Schneiderlin kom í hópinn í staðinn. Frá þessu sjónarhorni er erfitt að sjá hver getur staðið í vegi fyrir franska liðinu sem er á heimavelli. Þeir voru ekki svo slæmir síðustu tvö skipti sem þeir voru gestgjafar á stórmóti, er það nokkuð?

Vandamálin eru í vörninni

Vandamál Deschamps leynast annars staðar, þá helst í vörninni sem, í ljósi meiðsla Kurt Zouma og Raphaël Varane, en sá síðarnefndi er eftirlætisleikmaður þjálfarans, skortir sannan varnarjaxl. Auk þess sem Mamadou Sakho er ekki með þó hann sé laus úr banninu. Laurent Koscielny, verður væntanlega í hjarta varnarinnar og líkast til verður Eliaquim Mangala frá Manchester City við hlið hans.

Allt bendir til þess að hinn 35 ára gamli Patrice Évra og hinn 33 ára gamli Bacary Sagna verði bakverðir liðsins, sem segir margt um skortinn á valkostum í þessum stöðum. Christophe Jallet? Lucas Digne?

Sýnir Deschamps dirfsku?

Ég held nú síður. Frakkland skoraði níu mörk í síðustu fjórum leikjum áður en undirbúningurinn fyrir EM hófst fyrir alvöru, en liðið fékk einnig á sig sex mörk, þrátt fyrir að Deschamps hafi teflt fram sínum sterkustu varnarmönnum í hvert sinn. Skynsamur maður í eðli sínu, en ,,vatnsberi“ Erics Cantona gæti þurft að sýna meiri dirfsku sem þjálfari en nokkurn tímann sem leikmaður. Hann er fullfær til þess, eins og hann sýndi þegar hann leiddi Monaco til úrslita í Meistaradeild Evrópu árið 2004, og honum gæti tekist það á endanum. En vegurinn verður ekki greiðfær.

Líklegt byrjunarlið : Lloris – Sagna, Mangala, Koscielny, Évra – Kanté, Pogba, Matuidi – Martial, Giroud, Griezmann.