Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
Tveir ungir tónlistarmenn hlutu í gær styrki úr styrktarsjóði Halldórs Hansen við hátíðlega athöfn í Salnum. Styrki hlutu Heiðdís Hanna Sigurðardóttir sópran og Steinar Logi Helgason kirkjutónlistarmaður, en bæði luku bakkalárnámi frá Listháskóla Íslands í vor. Ekki er hægt að sækja um styrk í sjóðinn heldur velur sjóðsstjórnin styrkþega sem náð hafa framúrskarandi árangri á sínu sviði og hljóta styrkþegar í ár að launum 750 þúsund krónur hvor.
Viðburðaríkt ár að baki
„Þetta kom mér ánægjulega á óvart. Það er skemmtilegt og líka mikil virðing sem felst í því að fá þessa viðurkenningu,“ segir Heiðdís Hanna Sigurðardóttir söngkona. Hún lauk framhaldsprófi í söng frá Tónlistarskóla Garðabæjar vorið 2011 og stundaði í framhaldinu nám á bakkalárstigi við Tónlistarháskólann í Freiburg, Þýskalandi, í þrjú ár. Sl. haust hóf hún nám í LHÍ og lauk þaðan bakkalárnámi í vor. Í janúar sl. söng Heiðdís Hanna á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands, en hún var einn fjögurra sigurvegara í einleikarakeppni SÍ og LHÍ. Í mars sl. var Heiðdís Hanna staðgengill Þóru Einarsdóttur í óperunni Don Giovanni sem sett var upp af Íslensku óperunni snemma árs 2016.„Það er því viðburðaríkt ár að baki og þessi styrkveiting er eins og punkturinn yfir i-ið,“ segir Heiðdís Hanna og tekur fram að styrkurinn komi í góðar þarfir. „Stór hluti styrksins mun fara í skólagjöld, en í haust byrja ég í tveggja ára mastersnámi í sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi sem kallast NAIP við LHÍ. Auk þess sem ég mun sennilega nýta hluta styrksins til að sækja einkatíma eða masterklassa erlendis,“ segir Heiðdís Hanna sem í sumar mun koma fram á tónleikaröðinni Pearls of Icelandic Song í Kaldalóni Hörpu.
Hefur fengið að blómstra
„Ég er afar þakklátur fyrir að hugsað sé svona fallega til manns. Það hafa verið ótrúleg forréttindi að fá að læra við Listaháskólann þar sem gæði kennslunnar eru mikil og maður hefur fengið að blómstra,“ segir Steinar Logi Helgason. Hann útskrifaðist með kirkjuorganistapróf úr Tónskóla þjóðkirkjunnar vorið 2013 og hóf þá um haustið nám í kirkjutónlist á bakkalárstigi við Listaháskólann sem hann lauk í vor.Aðspurður segist Steinar Logi vera á leið til Danmerkur síðla sumars til frekara náms í kirkjutónlist við Konunglega tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn. „Styrkurinn er eyrnamerktur húsaleigu í Kaupmannahöfn,“ segir Steinar Logi, sem áður hefur hlotið styrki úr Nýsköpunarsjóði námsmanna og Halldórs Hansen sjóðnum vegna rannsóknarvinnu undir handleiðslu Hróðmars I. Sigurbjörnssonar á tónlist Þorkels Sigurbjörnssonar og Jóns Nordal. Í tengslum við þá vinnu hefur hann haldið fyrirlesta á Sumartónleikum í Skálholti og á Hugarflugi, rannsóknarráðstefnu LHÍ. „Í byrjun júlí mun ég taka þátt í Sumartónleikum í Skálholti þar sem LHÍ verður með tónleikadagskrá til heiðurs Jóni Nordal í tilefni níræðisafmælis hans.“
Steinar Logi er stofnandi og stjórnandi Kammerkórs tónlistardeildar LHÍ. „Í gegnum námið hefur kórstjórn verið í fókus hjá mér. Sú hugmynd kviknaði meðal nemenda að stofna kór sem gæti flutt krefjandi kórtónlist,“ segir Steinar Logi og bendir á að kórinn hafi verið nemendum í tónsmíðanámi hvatning til að semja fyrir kór.
„Ég vona að kórinn starfi áfram og nýr stjórnandi finnist, því það er ómetanlegt að flytjendur og tónskáld geti átt listrænt samtal,“ segir Steinar Logi og hrósar stjórnendum LHÍ í hástert fyrir hversu jákvætt tekið er í hugmyndir nemenda og þeim þannig leyft að blómstra. „Þetta er svo langt frá því að vera sjálfsagt og ég efast um að tekið hefði verið jafnvel í stofnun kammerkórsins í ýmsum menntastofnunum erlendis.“
Steinar Logi var einn af starfandi organistum í Langholtskirkju í vetur ásamt því að stjórna Kór Langholtskirkju, en hann hlaut sína kórþjálfun í Hamrahlíðarkórnum undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. „Þegar Jónsi [Jón Stefánsson] lenti í slysinu og féll síðan frá, vorum við nokkur sem leystum af sem organistar í kirkjunni. Það var dýrmæt reynsla fyrir mig að fá að stjórna Kór Langholtskirkju. Jónsi var búinn að byggja upp afskaplega flott starf í kirkjunni og mikil forréttindi að fá að kynnast því starfi og fá að vinna með öllu því hæfileikafólki sem tekur þátt í tónlistarlífinu þar. “
Úthlutað úr sjóðnum í 11. sinn
Styrktarsjóður Halldórs Hansen var stofnaður 11. desember 2002 og starfar undir væng Listaháskóla Íslands.Halldór var barnalæknir og lét eftir sig mikið tónlistarsafn með m.a. um 10.000 þúsund hljómplötum, sem hann ánafnaði Listaháskóla Íslands í erfðaskrá ásamt öðrum eigum sínum sem skyldu renna í sérstakan sjóð í hans nafni.
Í skipulagsskrá stjórnar sjóðsins kemur fram að meginmarkmið hans séu að styrkja uppbyggingu og styðja við tónlistarsafn LHÍ. Auk þess veitir sjóðurinn árlega styrki til tónlistarnema, sem hafa lokið fyrsta háskólastigi og hafa að mati sjóðsstjórnar náð framúrskarandi árangri á sínu sviði. Fyrsta verðlaunaveitingin fór fram 2004, og er þetta í 11. sinn sem veitt eru verðlaun úr sjóðnum.