Í hnút Kennarar felldu samning.
Í hnút Kennarar felldu samning. — Morgunblaðið/Golli
Benedikt Bóas Lára Halla Sigurðardóttir „Kennarar felldu samninginn og því erum við komin aftur á byrjunarreit, það er ljóst,“ segir Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar sveitarfélaga, en kennarar felldu í gær nýjan kjarasamning.

Benedikt Bóas

Lára Halla Sigurðardóttir

„Kennarar felldu samninginn og því erum við komin aftur á byrjunarreit, það er ljóst,“ segir Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar sveitarfélaga, en kennarar felldu í gær nýjan kjarasamning.

Á kjörskrá voru 4.453, en 65,84% þátttaka var í atkvæðagreiðslunni. Já við samningunum sagði 741, eða 25,27%, en nei sögðu 2.118 manns, eða 72,24%. Auðir seðlar voru 73 talsins, eða 2,49%. Formaður Félags grunnskólakennara, Ólafur Loftsson, telur vantraust grunnskólakennara í garð sveitarfélaganna helstu ástæðu þess að kjarasamningar stéttarinnar voru felldir. Ekki hafi verið staðið nógu vel að útfærslu ákveðinna atriða í núgildandi samningi og því hafi kosningin farið á þennan veg.

Spurð um gagnrýni Ólafs segist Inga Rún vera að heyra hana í fyrsta sinn. „Ég hef ekki heyrt það áður. Ég get ekki svarað fyrir kennara í þeim efnum. Nú förum við yfir þessi mál með þeim og við ætlum að gera það.“

Óskýr texti

Spurður hvort niðurstaðan hafi komið á óvart segir Ólafur svo ekki vera. Eftir að samningurinn hafi verið kynntur hafi hann verið ræddur meðal kennara og þar hafi óánægjan skinið í gegn.

„Árið 2014 sömdum við um nokkur atriði er lutu að breytingu á vinnuumhverfi, gæslumálum, breyttri viðveru og öðru slíku. Á þeim tíma fóru sveitarfélögin mjög illa að ráði sínu hvað varðar framkvæmdina á kjarasamningnum og þetta hefur verið mjög erfiður vetur. Sum sveitarfélög hreinlega misnotuðu ákvæði um gæsluna,“ segir Ólafur. Hann segir að í samningnum sem grunnskólakennarar höfnuðu sé kveðið á um launahækkanir en einhverjir hafi talið að þær væru ekki nógu miklar. „Síðast en ekki síst fannst mönnum textinn varðandi vinnuumhverfið ekki nógu skýr. Þegar menn upplifðu það ofan í þetta vantraust fór bara sem fór,“ segir Ólafur.

Deilendur munu hittast í dag til að fara yfir stöðuna. „Við þurfum, eðli málsins samkvæmt, að halda áfram að ræða saman. Nú er boltinn svolítið hjá sveitarfélögunum,“ segir Ólafur. Inga Rún segir að samningsaðilar muni hittast með opnum huga. Spurð hvort stefni í kennaraverkfall segir hún: „Ég get ekki svarað fyrir kennara. Þeir hafa verkfallsrétt en vonandi náum við að leysa úr þessu.“