Þeistareykir Fjármögnun hönnunar og byggingar kemur frá EIB.
Þeistareykir Fjármögnun hönnunar og byggingar kemur frá EIB. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Landsvirkjun hefur samið við Evrópska fjárfestingabankann(EIB) um lán að fjárhæð 125 milljónir evra, sem jafngildir nær 17,5 milljörðum króna. Lánið er án ríkisábyrgðar.

Landsvirkjun hefur samið við Evrópska fjárfestingabankann(EIB) um lán að fjárhæð 125 milljónir evra, sem jafngildir nær 17,5 milljörðum króna. Lánið er án ríkisábyrgðar. Er fjárhæðinni ætlað að mæta kostnaði við hönnun, byggingu og rekstur 90 MW jarðvarmavirkjunar Landsvirkjunar á Þeistareykjum. Þegar hafa verið boraðar og prófaðar níu vinnsluholur á Þeistareykjum, sem eru 30 kílómetra suðaustur af Húsavík.

Fyrsta verkefnið hér í fimm ár

Þetta er fyrsta verkefni Evrópska fjárfestingabankans hérlendis frá árinu 2011 en þá lánaði bankinn 70 milljónir evra, jafngildi tæpra 10 milljarða á núverandi gengi, til byggingar Búðarhálsvirkjunar.

„Það er bankanum mikil ánægja að geta stutt við þetta mikilvæga orkuverkefni, sem er gott dæmi um stuðning bankans við orkugeirann um alla Evrópu,“ segir Cristian Popa, framkvæmdastjóri og yfirmaður verkefna fjárfestingabankans í ríkjum EFTA, í tilkynningu um lántökuna. Hann segir þekkingu Íslendinga á þessu sviði vera í fremstu röð og framkvæmdir á Íslandi séu fyrirmynd jarðvarmaverkefna um heim allan.

Stofnað var til Evrópska fjárfestingabankans árið 1958 og lánar hann til verkefna sem styðja markmið Evrópusambandsins. Með samningum við EFTA árið 1994, hefur honum verið heimilt að lána til verkefna hér á landi.

jonth@mbl.is