Hvítt og dauði Þessi fallega mynd er hluti af sýningu Shu Yi og Godds í Galleríi Listamönnum.
Hvítt og dauði Þessi fallega mynd er hluti af sýningu Shu Yi og Godds í Galleríi Listamönnum. — Shu Yi
Börkur Gunnarsson borkur@mbl.

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

„Shu Yi er einn af þessum yndislegu nemendum sem ég hef haft á mínum tuttugu ára ferli þar sem nemandinn verður kennarinn,“ segir Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor í Listaháskóla Íslands, betur þekktur sem Goddur.

Á morgun, laugardaginn 11. júní, verður opnuð ljósmyndasýning þeirra Godds og Shu Yi, í Galleríi Listamönnum, en sýningin kallast Exitus & Islands .

Sofandi eyjar

Ef myndir sem listamennirnir hafa sent frá sér til fjölmiðla eru metnar sem grunnur að sýningunni þá virðist Breiðafjörður vera í miðpunkti tjáningar þeirra. Fréttatilkynningunni fylgir mjög póetískur texti.

Textinn talar um sofandi eyjar og flestar þeirra höfum við yfirgefið. Hvað hugsum við þegar við hugsum um þessar yfirgefnu eyjar?

Það er talað um söfn minninga, töframóment og hálfskaga.

Eyjar, hvað merkja þær? Hálfsokknar eða bara rétt búnar að rísa úr hafinu, við Íslendingar ættum að þekkja það, við búum á einni slíkri risastórri, stærri en allt Tékkland, og með öllum þessum smáeyjum í kring og smáskerjum.

Í fréttatilkynningunni er minnst á að móðurætt Godds er frá Breiðafirði og þannig eru tilfinningatengsl hans skiljanleg. En áhugaverðara verður að sjá túlkun Shu Yi. En hún er einmitt ekki úr Breiðafirði.

Óvenjulegt að sýna með nemanda

„Það er í sjálfu sér óvenjulegt að sýna með einum af nemendum sínum,“ segir Goddur. „En Shu Yi kom í skólann til okkar útskrifuð úr virtum háskóla og þegar orðin þroskaður listamaður, þannig að það er bara gaman þegar það gerist.“

Shu Yi útskrifaðist fyrst úr háskóla í Beijing, en síðan úr London College of Communication áður en hún skráði sig til náms í Listaháskóla Íslands.

Flestar myndirnar sem fylgja fréttatilkynningunni eru af eyjum í Breiðafirði og Goddur segir að það sé meginviðfangsefnið. „Allar myndirnar sem ég er með á sýningunni eru teknar í Breiðafirði,“ segir Goddur. „En hún er einnig með myndir af Reykjanesi.“

Útsýni stækkar íbúðina

Það er reyndar ein mynd þarna sem er einmitt eftir Shu Yi sem mér finnst fallegasta myndin en vera algjörlega á skjön við hinar myndirnar því hún er bara af hvítu herbergi og hvítum stól?

„Nei, hún er ekki á skjön,“ segir Goddur. „Þar er verið að fjalla um rammann. Landslagið út um gluggann.

Það er gluggi í herberginu og þar rétt sést í landslag sem er í takti við tón sýningarinnar.

Ramminn og hvernig landslag er rammað inn skiptir miklu máli í upplifun áhorfandans.

Þannig eru dæmi um að nútíma arkitektar á Íslandi hafi beinlínis byggt falleg hús þar sem er sérstaklega tekið tillit til þess hvernig landslag er rammað inn í hverjum einum og einasta glugga hússins. Þetta skiptir allt máli. Ekki endilega hvað er inni í húsinu eða inni í herberginu í það og það skiptið, heldur hvernig landslagið sést út úr því.“