Blíða Bjartviðri hefur verið í Reykjavík og Nauthólsvíkin alltaf vinsæl.
Blíða Bjartviðri hefur verið í Reykjavík og Nauthólsvíkin alltaf vinsæl. — Morgunblaðið/Eggert
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Meðal loftþrýstingur fyrstu átta daga júnímánaðar hefur aðeins einu sinni verið sjónarmun hærri en nú í Reykjavík. Það var árið 1897.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Meðal loftþrýstingur fyrstu átta daga júnímánaðar hefur aðeins einu sinni verið sjónarmun hærri en nú í Reykjavík. Það var árið 1897. Loftþrýstingur var nærri því eins hár og nú sömu júnídaga árin 1931, 1971 og 2009, að sögn Trausta Jónssonar veðurfræðings. Hann segir að eitthvað muni meðaltalið síga næstu daga, en það gerði loftþrýstingurinn í hinum árunum líka – nema árið 1971.

Óvenju langvarandi þurrkatíð hefur verið á Suðausturlandi í vor og sumar. Trausti sagði að á Suðausturlandi þyrfti líklega að fara aftur til vorsins 2005 til að finna ámóta þurrviðrakafla og þar fyrir aftan til voranna 1979 og 1958.

„Segja má að þurrkurinn nú hafi staðið frá því viku af apríl í Hornafirði og austur í Breiðdal. Í Neskaupstað og á Seyðisfirði hefur lítið rignt í mánuð. Í Mýrdal og þar fyrir vestan rigndi nokkuð í síðustu viku maí, eins og hér í Reykjavík, en úrkoma hefur í allt vor samt verið mjög lítil þar miðað við það sem venjulegt er á þeim slóðum,“ sagði Trausti.

Hann sagði að ekki væri spáð mikilli úrkomu næstu tíu daga, mestri þó vestast á landinu.