Jónas R. og Bandið Scott McLemore trommuleikari, Hjörtur Ingvi Jóhannsson hljómborðsleikari, Gunnar Hrafnsson bassaleikari, Gunnar Þórðarson gítarleikari og söngvararnir Jónas R. Jónsson, Fanný Kristín Tryggvadóttir, Þóra Gísladóttir og Gísli Magni Sigríðarson.
Jónas R. og Bandið Scott McLemore trommuleikari, Hjörtur Ingvi Jóhannsson hljómborðsleikari, Gunnar Hrafnsson bassaleikari, Gunnar Þórðarson gítarleikari og söngvararnir Jónas R. Jónsson, Fanný Kristín Tryggvadóttir, Þóra Gísladóttir og Gísli Magni Sigríðarson. — Ljósmynd/Finnbogi Helgason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Söngvarinn Jónas R. Jónsson skaust upp á stjörnuhimininn með sveitinni Flowers fyrir um hálfri öld. Hann hefur engu gleymt og kemur fram með Bandinu á tónleikum á Café Rosenberg um helgina.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Söngvarinn Jónas R. Jónsson skaust upp á stjörnuhimininn með sveitinni Flowers fyrir um hálfri öld. Hann hefur engu gleymt og kemur fram með Bandinu á tónleikum á Café Rosenberg um helgina. Uppselt er í kvöld og örfáir miðar eftir á aukatónleikana annað kvöld.

„Það er ekki öll vitleysan eins,“ segir Jónas um komandi gigg og segir að hugmyndin hafi orðið til í matarboði með Gunnari Þórðarsyni og Agli Eðvarðssyni fyrir tveimur til þremur árum. „Við vorum að syngja gömlu amerísku söngbókina og þá segir Gunni: „Eigum við ekki að gera eitthvað, stofna band?“ Þetta hljómaði vel og hér erum við með Bandið.“

Jónas segir að þeir hafi byrjað á því að kalla á Gunnar Hrafnsson bassaleikara, Scott McLemore trommara og Hjört Ingva Jóhannsson hljómborðsleikara. Eftir að hafa rennt í nokkur lög hafi þeir viljað bregða út af vananum og fara meira út í rokkið. Þeir hafi kastað á milli sín hugmyndum og þegar lögin hafi verið ákveðin hafi Gunni skrifað þau út. Síðan hafi bakraddasöngvurunum Gísla Magna Sigríðarsyni, sem var Salóme innan handar í Eurovision, Þóru Gísladóttur og Fanný Kristínu Tryggvadóttur verið bætt í hópinn. Æfingar hafa gengið vel og meðal annars var rennsli kl. átta til tíu í fyrradag. „Ég hef aldrei byrjað að syngja klukkan átta að morgni fyrr,“ segir Jónas.

Söngvari alla ævi

Jónas hefur sungið frá því hann man eftir sér. „Við vorum þrír strákar í kórnum í Breiðagerðisskóla,“ rifjar hann upp. Bætir við að á unglingsárunum hafi leiðin legið í bílskúrsband og eitt hafi leitt af öðru, en Jónas var meðal annars í 5 Pens, Toxic, Flowers, Náttúru og Brimkló. „Ég var heppinn að vera á réttum aldri á uppgangsárum Bítlanna, því tónlistin skipaði svo ríkan sess í lífi ungmenna, allir voru á sömu bylgju,“ segir söngvarinn.

Jónas segir að þetta hafi verið skemmtilegir tímar og erfitt að gera upp á milli banda og viðburða. „Upptakan í London á fjögurra laga plötu með laginu „Slappaðu af“ er eftirminnileg, því það var svo mikið ævintýri,“ segir hann. „Annars var bæjarlífið svo frjótt, margar hljómsveitir og stanslaust fjör, meira að segja böll á milli klukkan þrjú og fimm í Lídó.“

Þótt langt sé um liðið síðan Jónas söng fyrsta lagið segir hann mikilvægt að halda í barnið í sér og njóta sín sem best. „Auðvitað er maður að ögra sjálfum sér en þetta er spurning um að verða ekki gamall fyrir aldur fram,“ segir hann. „Það er mikilvægt að hætta ekki að leika sér.“ Í því sambandi bendir hann á að nýlega hafi verið boðaður kaffifundur hjá bekkjarfélögunum og átti að hittast klukkan fjögur á miðvikudegi, enda flestir hættir að vinna vegna aldurs. „Ég sendi póst og sagðist því miður ekki komast því ég væri á æfingu á sama tíma,“ segir hann og áréttar að fólk megi ekki láta stjórnast af aldrinum. „Never be too old to Rock and Roll, eins og segir í laginu.“

Dagskráin á tónleikunum er ólík því sem fólk átti að venjast hjá Flowers og Náttúru. „Þetta er sitt lítið af hverju, bræðingur, rólegt, djassað og rokkað, blanda af lögum, sem okkur finnst hafa staðist tímans tönn, þótt þau séu ekki endilega gömul,“ segir Jónas. „Í raun á þetta ekkert skylt við gamla tímann.“