Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands, var eftirlitsmaður UEFA á úrslitaleik Wolfsburgh og Lyon í Meistaradeild kvenna á dögunum, á Stadio Città del Tricolore vellinum í Reggio á Ítalíu.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands, var eftirlitsmaður UEFA á úrslitaleik Wolfsburgh og Lyon í Meistaradeild kvenna á dögunum, á Stadio Città del Tricolore vellinum í Reggio á Ítalíu.

Ábyrgðin er mikill heiður fyrir Klöru og íslenska knattspyrnu. Hún er fyrsti Íslendingurinn sem fær þetta mikilvæga verkefni, en forystumenn í KSÍ hafa reyndar margsinnis verið eftirlitsmenn á leikjum á vegum UEFA og FIFA. Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, hefur fengið mestu vegsemdina en hann var eftirlitsmaður á úrslitaleik Meistaradeildar karla, þegar Manchester United og Barcelona léku á Wembley í Lundúnum 2011.

Ellert B. Schram, fyrrverandi formaður KSÍ, var meðal annars eftirlitsmaður á úrslitaleik Frakklands og Ítalíu í Evrópukeppni landsliða árið 2000. Leikurinn fór fram á velli Feyenoord í Rotterdam í Hollandi.

Eggert Magnússon, fyrrverandi formaður KSÍ, var eftirlitsmaður á úrslitaleik Evrópukeppni bikarhafa, þegar Chelsea og Stuttgart léku í Stokkhólmi 1998, en keppnin var lögð niður árið eftir. Þegar Eggert var síðar í stjórn UEFA var hann sérstakur sendifulltrúi forseta sambandsins í tengslum við stórleiki.

Víkverji rifjar þetta upp vegna þess að Evrópukeppni landsliða í Frakklandi hefst í dag og þar verða Íslendingar heldur betur í sviðsljósinu. Íslenska liðið tekur þátt í úrslitakeppni stórmóts í fyrsta sinn og fær góðan stuðning mörg þúsund Íslendinga, sem stóðu þétt við bakið á því í riðlakeppninni. Nokkrir Íslendingar starfa auk þess í tengslum við leikina, til dæmis verður Páll Sævar Guðjónsson vallarþulur á leikjum Íslands.