Stjórnvöld í Ísrael afturkölluðu í gær ferðaheimildir yfir 80.000 Palestínumanna á Vesturbakkanum og bjuggu sig undir að senda þangað hundruð hermanna eftir að tveir palestínskir byssumenn skutu fjóra Ísraela til bana og særðu fimm í kaffihúsi í Tel Aviv.
Á myndum úr eftirlitsvélum sáust árásarmennirnir ganga rólega inn í kaffihúsið áður en þeir tóku upp byssurnar og hófu skothríð. Flestir gesta veitingastaðarins hlupu burt í ofboði en nokkrir veittu árásarmönnunum mótspyrnu.
Ríkisstjórn Ísraels sagðist hafa afturkallað ferðaleyfi um 83.000 Palestínumanna í föstumánuði múslíma og talið er að það auki spennuna sem hefur verið á Vesturbakkanum síðustu mánuði, að sögn fréttaveitunnar AFP . Vinnuleyfi 204 ættingja árásarmannanna í Ísrael voru einnig afturkölluð. Stjórnin sagði að öryggissveitir landsins myndi grípa til frekari aðgerða til að koma í veg fyrir fleiri árásir. Talsmaður Hamas, samtaka íslamista sem eru við völd á Gaza-svæðinu, fagnaði árásinni og lýsti henni sem „hetjudáð“.