[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gosha Chernov Sport Express Twitter.com/G_o_s_h_a Leonid Slutskij tók við Rússlandi síðasta sumar eftir að þolinmæði gagnvart Fabio Capello var þrotin.

Gosha Chernov

Sport Express

Twitter.com/G_o_s_h_a

Leonid Slutskij tók við Rússlandi síðasta sumar eftir að þolinmæði gagnvart Fabio Capello var þrotin. Hann hélt þó áfram sem þjálfari CSKA Moskvu og hefur ekki haft tíma til að hanna nýtt leikkerfi fyrir landsliðið. Í raun virðist Slutskij hafa tekið það sem hefur virkað best með félagsliði sínu og reynt að beita því með landsliðinu.

Í fyrsta lagi hélt Slutskij sig við sömu uppstillinguna. Capello átti það til að nota ýmiss konar leikkerfi en nýi þjálfarinn valdi sama 4-2-3-1 leikkerfið og CSKA notar. Það reiðir sig á tvo varnarsinnaða miðjumenn og hefði annar þeirra verið Alan Dzagoev, leikstjórnandi CSKA, ef hann hefði ekki fótbrotnað fyrir mót. Denis Glushakov úr Spartak mun að öllum líkindum leysa hann af og leika sem alhliða miðjumaður.

Veikir hlekkir í vörninni

Meiðsli Dzagoevs eru þungt högg en hann er ekki eini ósnertanlegi leikmaður landsliðsins. Igor Akinfeev, Sergei Ignashevich og Vasili Berezutski hafa verið fastamenn nánast alla þessa öld og þeir síðarnefndu, sem verða miðvarðapar liðsins, eru veikustu hlekkir þess. Ignashevich er 36 ára gamall og Berezutski mun fagna 34 ára afmæli sínu þegar liðið mætir Wales 20. júní í lokaleik riðilsins. Engum leikmönnum hefur tekist að fylla í skarð þeirra almennilega.

Sóknarsinnaðir bakverðir

Bakvarðarmöguleikarnir eru mun fleiri. Slutskij vill sóknarsinnaða leikmenn í þessum stöðum og mun Igor Smolnikov, leikmaður Zenit frá Pétursborg, henta hægra megin en Dmitri Kombarov frá Spartak Moskva vinstra megin og þeir verða væntanlega í byrjunarliðinu gegn Englandi 11. júní.

Slutskij er ekki hrifinn af því að pressa framarlega á vellinum og þess vegna notar hann yfirleitt bara einn afturliggjandi miðjumann, venjulega Igor Denisov eða Denis Glushakov. Fyrirliðinn Roman Shirokov getur einnig leikið í stöðunni.

Enginn skortur er á kantmönnum. Oleg Shatov úr Zenit er fastamaður vinstra megin og Aleksandr Kokorin verður eflaust hægra megin, eða kannski í stöðu næstfremsta manns. Helsti vandi liðsins er í stöðu ,,tíunnar“ vegna þess að Shirokov, sem lék sem sóknarsinnaður miðjumaður lengst af í undankeppninni, er varla í nógu góðu formi til þess að geta hlotnast byrjunarliðssæti í Frakklandi.

Ef honum tekst ekki að ná sér á strik munu annaðhvort Oleg Ivanov úr Terek Grozni eða Pavel Mamaev, leikmaður Krasnodar, að öllum líkindum taka sæti hans.

Vill lágvaxinn og snöggan framherja

Með CSKA vill Slutskij nota lágvaxinn og snöggan leikmann eins og Seydou Doumbia eða Ahmed Musa í stöðu fremsta manns. Reynsluboltinn Aleksandr Kerzhakov hefði getað fallið í svipað mót með landsliðinu, en ferill hans hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga sem lánsmaður hjá Zürich frá Zenit. Hann er hinsvegar ekki í hópnum og Slutskij mun velja á milli tveggja yngri leikmanna, þeirra Artjom Dziuba úr Zenit og Fjodor Smolov úr Krasnodar, sem hafa báðir verið í fínu formi á tímabilinu.

Líklegt byrjunarlið : Akinfeev – Smolnikov, V. Berezutski, Ignashevich, Zhirkov – Denisov, Glushakov – Kokorin, Mamaev, Shatov – Dziuba.