Borkjarni Hér má sjá steingerðan koltvísýring í borkjarna sem aflað var á Hellisheiði til að staðfesta bindingu koltvísýrings (CO 2 ) í basalti.
Borkjarni Hér má sjá steingerðan koltvísýring í borkjarna sem aflað var á Hellisheiði til að staðfesta bindingu koltvísýrings (CO 2 ) í basalti. — Ljósmynd/CarbFix
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Vísinda- og tæknimönnum Orkuveitu Reykjavíkur (OR), Háskóla Íslands o.fl. tókst að binda allt að 95% af gróðurhúsalofttegundinni koltvísýringi sem steintegund í basaltberglögunum við Hellisheiðarvirkjun.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Vísinda- og tæknimönnum Orkuveitu Reykjavíkur (OR), Háskóla Íslands o.fl. tókst að binda allt að 95% af gróðurhúsalofttegundinni koltvísýringi sem steintegund í basaltberglögunum við Hellisheiðarvirkjun. Ferlið tók einungis tvö ár en áður var talið að það tæki aldir eða árþúsundir. Frá þessu er greint í vísindaritinu Science í dag. Niðurstöðurnar gefa til kynna að fundið sé öflugt vopn gegn loftslagsvandanum.

Greinin fjallar um CarbFix-loftslagsverkefnið sem unnið hefur verið að við Hellisheiðarvirkjun frá árinu 2007. Jürg Matter, einn margra vísindamanna sem komu að verkefninu, er aðalhöfundur. Verkefnisstjóri CarbFix er dr. Edda Sif Pind Aradóttir, vísindamaður á Þróunarsviði OR. Í fréttatilkynningu OR segir að fyrirtækið hafi verið helsti bakhjarl verkefnisins. Fjöldi vísindamanna auk iðnaðarmanna og tæknifólks OR, og síðar Orku náttúrunnar, komu að verkefninu. Dr. Edda Sif verkefnisstjóri sagði ekki síst merkilegt hvað bindingin í berginu hefði reynst vera hröð.

„Við leystum koltvísýringinn upp í vatni sem dælt var niður í jörðina. Þegar vatnið kemst í snertingu við ungt og hvarfgjarnt basaltið leysist bergið upp og við það losna efni eins og kalsíum, magnesíum og járn út í vatnsmassann. Efnin bindast uppleysta koltvísýringnum og mynda m.a. karbónat-steindir,“ sagði Edda. Ein helsta steindin sem myndast er kalsíumkarbónat en ein tegund þess er silfurberg.

Niðurstöðurnar sem nú eru kynntar eru úr tilraunaniðurdælingu utan jarðhitasvæða. Hraði efnahvarfanna skýrist því ekki af jarðhita. Því hærri sem hitinn er því hraðari verða efnahvörfin.

Gæti nýst víða um heim

Víða um heim hefur koltvísýringi verið dælt niður í jörðina sem lofttegund. Þá taka efnahvörfin miklu lengri tíma. Galdurinn er því annars vegar að blanda koltvísýringnum í vatn svo efnahvörfin fari strax af stað. Hins vegar að velja mjög hvarfgjarnt berg sem inniheldur mikið af efnum sem geta myndað karbónöt.

Edda sagði að aðferðina mætti nýta víða um heim til að eyða gróðurhúsalofti. Niðurdæling vatns tengist ýmsum iðnaði og sá búnaður gæti nýst til að losna við gróðurhúsaloftið.

Koltvísýringnum er blandað í vatn undir þrýstingi og dælt niður á mikið dýpi þar sem er mikill þrýstingur. Væri þrýstingurinn á vökvanum minnkaður myndu loftbólur myndast líkt og þegar flaska með gosdrykk er opnuð.

Edda sagði að samstarfsaðilar verkefnisins hefðu ákveðið að sækja ekki um einkaleyfi á aðferðinni. Búið er að birta aðferðafræðina við niðurdælinguna svo hver sem er getur beitt aðferðinni.

Þessi aðferð við bindingu koltvísýrings er mun ódýrari en aðrar við förgun gróðurhúsalofts. Áætlað er að kostnaður við bindingu hvers tonns af koltvísýringi með þessari aðferð sé um 3.500 krónur. Það er helmingur til fjórðungur af því sem áætlað er að aðrar aðferðir kosti.