Gleðisveit FM Belfast er með fjörugri tónleikasveitum landsins og kemur fram á Sumarmölinni. Hér sést hún á Iceland Airwaves í fyrra.
Gleðisveit FM Belfast er með fjörugri tónleikasveitum landsins og kemur fram á Sumarmölinni. Hér sést hún á Iceland Airwaves í fyrra. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Tónlistarhátíðin Sumarmölin verður haldin á Drangsnesi á morgun en sú nýbreytni verður á hátíðinni í ár að hún hefst með uppistandi í kvöld kl. 21 á Malarkaffi.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Tónlistarhátíðin Sumarmölin verður haldin á Drangsnesi á morgun en sú nýbreytni verður á hátíðinni í ár að hún hefst með uppistandi í kvöld kl. 21 á Malarkaffi. Saga Garðarsdóttir og Hugleikur Dagsson munu kitla hláturtaugar gesta og hita þá upp fyrir tónleikana sem haldnir verða í samkomuhúsinu Baldri á morgun og hefjast kl. 19.30. Húsið verður opnað hálftíma fyrir tónleika. Á Sumarmölinni koma fram að þessu sinni fram FM Belfast, Lay Low, Karó, Kippi Kaninus, Rúna Esra, Snorri Helgason og Úlfur Úlfur. Eftir tónleikana mun DJ Hermigervill þeyta skífum á Malarkaffi fyrir þá sem vilja meiri tónlist og stuð. Miðaverð er 5.900 kr. en ókeypis er fyrir 12 ára og yngri.

Vildi halda stærri tónleika

Hátíðin er haldin í fjórða sinn og að henni stendur sem fyrr Björn Kristjánsson, betur þekktur sem tónlistarmaðurinn Borko. Hann bjó og starfaði sem kennari á Drangsnesi í nokkur ár og stóð þá fyrir tónleikaröðinni Mölinni og síðar Sumarmölinni. Björn segir að á Mölinni hafi verið haldnir litlir, kósí tónleikar á veitingastað þorpsins en hann hafi langað til að halda stærri tónleika og því komið Sumarmölinni á koppinn í samkomuhúsinu. „Þegar ég byrjaði með Mölina var hugmyndin að gefa eitthvað til baka í þorpið, búa til meira líf þar. Sumarmölin var rökrétt framhald á því, mig langaði að halda umfangsmeiri tónleika með stærri hljómsveitum en rúmast á litlum veitingastað.“

Þekktir sem minna þekktir

-Hvernig velurðu hljómsveitir og tónlistarmenn á Sumarmölina, hringirðu bara í vini þína?

Björn hlær. „Þegar maður er búinn að vera viðloðandi þennan bransa í næstum því 20 ár eru þetta náttúrlega orðnir mikið til vinir manns og kunningjar. Ég hef reynt að hafa kynjablöndu, bæði karla og konur og sem næst til jafns. Ég hef líka reynt að hafa listamenn sem annaðhvort eru frá Vestfjarðasvæðinu eða hafa einhver tengsl þangað. Svo hef ég líka reynt að hafa blöndu af þekktari og meira „mainstream“-böndum í bland við eitthvað minna þekkt og aðeins skrítnara og meira indí.“

Og talandi um þekkta og lítt þekkta þá kannast blaðamaður ekki við Karó og Rúnu Esra. Hann fær þær upplýsingar frá Birni að Karó hafi farið með sigur af hólmi í Söngkeppni framhaldsskólanna í fyrra, gefið út tvö lög í samstarfi við Loga Pedro og flytji vandaða popptónlist. Rúna Esra er eiginkona Mugison og segir Björn að hún sé skúffutónskáld og muni á Sumarmölinni opna skúffurnar.