Ingibjörg Sveinsdóttir fæddist á Ósabakka á Skeiðum 6. ágúst 1933. Hún lést á Landakoti 3. júní 2016.

Foreldrar hennar voru hjónin Auðbjörg Káradóttir frá Ósabakka á Skeiðum, f. 20. júní 1899, d. 1988, og Sveinn Gestsson frá Húsatóftum á Skeiðum, f. 31. ágúst 1890, d 1964.

Ingibjörg átti tíu systkini og eru þau Lilja Sveinsdóttir, f. 20.3. 1922, d. 21.8. 1943, Guðmundur Sveinsson, f. 12.2. 1923, d. 3.4. 2011, Kristín Sveinsdóttir, f. 14.2. 1924, d. 12.2. 2015, Kári Sveinsson, f. 14.7. 1925, d. 12.5. 1997, Helgi Sveinsson, f. 18.2. 1928, d. 8.9. 2015, Valgerður Sveinsdóttir, f. 12.7. 1929, d. 27.8. 2003, Guðrún Sveinsdóttir, f. 6.3. 1931, Skarphéðinn Sveinsson, f. 5.10. 1934, Bjarni Sveinsson, f. 29.11. 1939, d. 8.4. 2016, og Hafliði Sveinsson, f. 20.6. 1944.

Ingibjörg giftist Arngrími Marteinssyni þann 9. apríl 1960. Eignuðust þau eftirtalin börn:

Kári Arngrímsson, f. 3.1. 1960, kvæntur Birnu Káradóttur, f. 16.7. 1961. Þau eiga þrjú börn, Írisi Káradóttur, f. 10.4. 1989, Hörpu Káradóttur, f. 9.11. 1991, og Birki Kárason, f. 7.10. 1995. Birna á Óskar Gísla Sveinsson, f. 15.3. 1981, úr fyrra sambandi.

Reynir Arngrímsson, f. 15.3. 1961, kvæntur Nönnu Maju Norðdahl, f. 3.7. 1968.

Reynir á þrjú börn, Arnar Inga Reynisson, f. 20.9. 1986, Hauk Hannes Reynisson, f. 27.9. 1990, og Helenu Reynisdóttur, f. 9.3. 1994.

Kara Arngrímsdóttir, f. 26.9. 1964, gift Stefáni Guðleifssyni, f. 5.7. 1963. Þau eiga tvö börn, Reyni Stefánsson, f. 5.6. 1998, og Arngrím Stefánsson, f. 16.5. 2003. Sveinn Arngrímsson, f. 18.1. 1969, kvæntur Elísabetu Ingu Marteinsdóttur, f. 21.1. 1979.

Sveinn á tvö börn frá fyrra hjónabandi, Stefni Sveinsson, f. 31.1. 1994, og Areyju Ingibjörgu Sveinsdóttur, f. 12.11. 2003, og með Elísabetu Martein Elí Sveinsson, f. 16.3. 2011. Elísabet á Gyðu Stefaníu Halldórsdóttur, f. 6.5. 2002, úr fyrra sambandi. Auðbjörg Arngrímsdóttir, f. 31.7. 1970. Auðbjörg á Köru Guðmundsdóttur, f. 6.4. 1993.

Ingibjörg ólst upp á Ósabakka á Skeiðum. Hún gekk fyrst í Brautarholtsskóla á Skeiðum, en svo fór hún í gagnfræðanám við Laugarvatnsskóla. Að loknu náminu fluttist hún til Reykjavíkur og vann þar á saumastofu. Einnig bjó hún um skeið í Danmörku og vann við sömu iðn þar. Eftir að heim var komið vann hún við ört stækkandi heimili sitt í Reykjavík meðan börnin uxu úr grasi. Um nokkurra ára skeið vann hún við skrifstofustörf hjá RARIK. Hún hafði gaman af handiðn og málaði sem og skar út fallega muni. Útför hennar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 10. júní 2016, klukkan 15.

Stundum kynnist maður fólki í lífinu sem gerir mann að betri manneskju. Fyrir 29 árum kynntist ég Ingibjörgu Sveinsdóttur, tengdamóður minni. Þá var ég einstæð móðir sem var svo heppin að hitta Kára son hennar. Ingibjörg tók mér opnum örmum og urðum við strax perluvinkonur, í okkar tilfelli skipti aldur ekki máli. Þegar Kári fór utan í nám komum við Óskar reglulega í heimsókn til vinkonu minnar og tengdamóður og var okkur oft boðið að borða með þeim slátur. Óskari þótti slátur það besta sem hann fékk og Ingibjörg passaði alltaf upp á að eiga uppáhaldsmatinn hans. Ingibjörg var hógvær og nægjusöm kona og alltaf stutt í brosið. Það þurfti svo lítið til að elskuleg tengdamóðir mín ljómaði af gleði, bara að láta sjá sig. Við sátum oft lengi að spjalli um börnin hennar sem hún var svo stolt af, sveitina hennar sem var henni svo kær, húsið hennar og garðinn sem hún var svo ánægð með eða baráttu kvenna fyrir jafnrétti, sem var hennar hjartans mál. Ingibjörg talaði mikið um hvað henni þótti sárt að hafa ekki getað menntað sig svo hún lagði sig alla fram við að börnin hennar fengju tækifæri til menntunar.

Það var hennar stolt og gleði þegar það gekk upp hjá þeim öllum. Það skemmtilegasta sem Ingibjörg gerði var að dansa og henni þótti ekki slæmt að dætur hennar fóru í þá átt. Það má eiginlega segja að fjölskyldan hafi verið dansfjölskylda og þó að hæfileikarnir væru mismunandi á milli systkina fannst öllum gaman í dansi og eins og tengdafaðir minn sagði oft. Dansinn er líkamsrækt og dansinn lengir lífið. Ingibjörg og Arngrímur fóru eins oft og þau gátu austur fyrir fjall í sveitina hennar á Ósabakka á Skeiðum. Þar átti hún hlut í sælureit í risinu þar sem hún ólst upp og gat hitt fjölskyldu og vini í sveitinni kæru. Ingibjörg og Arngrímur voru líka í hljómsveit sem heitir Vinabandið. Þegar það vantaði trommara í Vinabandið hélt Ingibjörg nú að hún gæti spilað á trommur, konur geta allt sem þær vilja sagði hún alltaf, þær verða bara að fá tækifæri. Arngrímur spilaði á harmonikku og Ingibjörg spilaði á trommurnar.

Þau voru ófá skiptin sem þau hresstu upp á lífið fyrir eldri borgara í Fríðuhúsi og fleiri stöðum eins og á Landakoti, þar sem Ingibjörg dvaldi síðustu dagana sína. Þegar Ingibjörg var sextug tók fjölskyldan sig saman og gaf henni trommusett í afmælisgjöf. Á þetta trommusett spilaði Ingibjörg þar til rétt áður en hún féll frá.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa kynnst Ingibjörgu því að betri og yndislegri manneskja er vandfundin. Þakklát fyrir tímann sem við öll áttum með henni og þakklát fyrir að hún gerði okkur öll að betri manneskjum af því að hún var eins og hún var.

Birna Óskarsdóttir.