Sindri Sverrisson
Morgunblaðið
twitter.com/SindriSverris
Allt frá því að Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson tóku við íslenska landsliðinu árið 2012 hefur liðið notast við 4-4-2 leikkerfi. Mikið er lagt upp úr því að allir leikmenn liðsins taki þátt í varnarvinnunni sem er þaulskipulögð. Það skilaði góðum árangri í undankeppni EM gegn sterkum andstæðingum, enda hélt liðið marki sínu hreinu í báðum leikjunum gegn Hollandi, svo dæmi sé tekið. Liðið freistar þess að sækja hratt og refsa þegar andstæðingurinn missir boltann, en er líka með gæðaleikmenn sem geta brotið upp þéttar varnir andstæðinganna.
Lykilatriði í því hve vel skipulag íslenska liðsins hefur gengið upp er samvinna Arons Einars Gunnarssonar fyrirliða og Gylfa Þórs Sigurðssonar á miðjunni. Lagerbäck og Heimir virtust ekki vissir um í fyrstu hvar best væri að staðsetja Gylfa í 4-4-2 leikkerfinu, enda hefur uppáhaldsstaða Gylfa verið sem fremsti miðjumaður í 4-3-3 kerfi. Hann lék úti á kanti eða sem aftari framherji, þar til í seinni hálfleik í ævintýralegu 4:4-jafntefli við Sviss í undankeppni HM. Ísland var 3:1 undir í hálfleik en eftir hlé var Aroni og Gylfa stillt upp saman á miðjunni, og þar hafa þeir blómstrað líkt og í yngri landsliðum – Aron sem sá varnarsinnaðri en Gylfi lykilmaðurinn sem sóknarleikurinn fer í gegnum. Allir þekkja spyrnuhæfileika Gylfa en fólk ætti líka að veita varnarvinnu hans athygli. Að sama skapi hefur sýnt sig að Ísland má illa við því að vera án annars þeirra.
Ásamt Gylfa og Aroni þá er Birkir Bjarnason einn fyrsti maður á blað þegar byrjunarlið Íslands er myndað. Í honum kristallast dugnaðurinn og vinnusemin sem þjálfararnir sækjast eftir, en hann er líka hæfileikaríkur með boltann og er góður í að skapa mörk. Þannig fiskaði hann dýrmæta vítaspyrnu í báðum sigrunum á Hollandi. Birkir mun leika á öðrum kantinum en sennilega mun Jóhann Berg Guðmundsson, með sinn eitraða vinstri fót, fylla hina kantstöðuna, eða þá Emil Hallfreðsson sem átti stórkostlega leiki í upphafi undankeppni EM.
Kolbeinn Sigþórsson nýtur sín best í landsliðsbúningnum og skorar að meðaltali í öðrum hverjum leik. Honum gekk illa í Frakklandi í vetur og hefur átt við meiðsli að stríða, en þeir Jón Daði Böðvarsson gerðu vel í undankeppninni í að búa til færi og trufla andstæðingana með dugnaði sínum og færni með boltann. Kolbeinn er afar sterkur skallamaður og það getur íslenska liðið alltaf nýtt sér með löngum sendingum úr vörninni. Alfreð Finnbogason hefur ekki spilað marga mótsleiki í byrjunarliði Íslands hjá þeim Lagerbäck og Heimi, en hefur gert allt rétt með sínu félagsliði á þessu ári og staðið sig frábærlega í Þýskalandi.
Ragnar Sigurðsson og Kári Árnason hafa myndað miðvarðapar Íslands alla stjórnartíð núverandi þjálfara, og náð afskaplega vel saman. Ragnar hefur sérstaklega þótt standa sig vel; ávallt yfirvegaður og les leikinn vel. Ari Freyr Skúlason er einn af lægstu mönnum mótsins en með eitt stærsta hjartað, og frábæran vinstri fót. Birkir Már Sævarsson hefur oftast leyst stöðu hægri bakvarðar og verið áreiðanlegur. Hannes Þór Halldórsson er orðinn einn lykilmanna liðsins, steig ekki feilspor alla undankeppnina, og ef axlarmeiðslin sem hann varð fyrir síðasta haust trufla hann ekkert gæti hann heillað marga á EM.
Líklegt byrjunarlið : Hannes – Birkir Már, Kári, Ragnar, Ari – Jóhann, Aron, Gylfi, Birkir – Alfreð, Kolbeinn.