[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Olof Lundh fotbollskanalen.se twitter.com/oloflundh Þegar Svíþjóð vann Danmörku í umspilinu um sæti á EM 2016 var almennt talið að þjálfarinn, Erik Hamrén, hefði snúið aftur til tímabils Lars Lagerbäck með því að leggja mun meiri áherslu á heildina.

Olof Lundh

fotbollskanalen.se

twitter.com/oloflundh

Þegar Svíþjóð vann Danmörku í umspilinu um sæti á EM 2016 var almennt talið að þjálfarinn, Erik Hamrén, hefði snúið aftur til tímabils Lars Lagerbäck með því að leggja mun meiri áherslu á heildina. Meira að segja Zlatan Ibrahimovic lagði sig fram við að loka svæðum, vinna bolta og að pressa á Danina, til viðbótar við þrjú mörk sem hann gerði í leikjunum tveimur.

Til dæmis sagði Ståle Solbakken, hinn norski þjálfari FC Köbenhavn: ,,Ef þú litir á bestu leiki Svía síðustu ár myndi ég segja að þeir léku á svipaðan hátt og Noregur undir stjórn Egils Olsen. Þeir héldu hlutunum einföldum, gerðu Zlatan að fyrsta varnarmanni og spiluðu algjöra svæðisvörn sem virkaði í umspilinu. Þetta var mun meiri Lagerbäck-frammistaða í þessum tveimur leikjum en fólk þorir að játa.“

Þegar Erik Hamrén tók við af Lars Lagerbäck árið 2009 lofaði hann mun sókndjarfara landsliði. Lagerbäck var vanur að stilla liðinu upp í öruggt 4-4-2 leikkerfi en almenningur var orðinn leiður á varfærnum leikstíl liðsins, þrátt fyrir að það hefði komist á fimm stórmót af sex.

Skellurinn gegn Hollandi

Sænska knattspyrnusambandið taldi að Hamrén væri rétti maðurinn til þess að koma Svíþjóð á næsta stig og hann kom sterkur til leiks þar til Svíum var skellt 4:1 af Hollendingum í undankeppni EM 2012. Eftir þann leik þraut dirfskuna, og hefur mikil tilraunastarfsemi átt sér stað frá þeim tíma.

Svíþjóð datt út í riðlakeppni EM 2012 eftir barnalega ósigra á móti Úkraínu og Englandi. Í undankeppni HM 2014 voru hæðir, til dæmis 4:4 jafntefli við Þýskaland í Berlín, en nóg var um lægðir, eins og 0:0 jafntefli við Írland og tap gegn Austurríki í Vín.

Að lokum biðu Svíar lægri hlut gegn Cristiano Ronaldo, afsakið, Portúgal, í umspilinu.

Nú virðist hringrásin fullkomnuð. Segja má að Hamrén hafi tekist að halda starfinu í nokkra mánuði með því að beita aðferðum Lagerbäcks í umspilinu, en hann mun segja af sér eftir EM hvort sem er eftir aðra slaka undankeppni þar sem Svíar sigruðu aðeins Moldóvu, Liechtenstein og Svartfjallaland. Nú er bara að vona að Svíþjóð geti verið stöðugt varnarlega, vinnusamt og reitt sig á galdrakarlinn Zlatan í framlínunni. Það, ásamt nýfundinni orku U21-árs leikmannanna, gæti verið nóg til að komast upp úr riðlinum.

Líklegt byrjunarlið : Isaksson – Lustig, Granqvist, Johansson, Olsson – Durmaz, Källström, Lewicki, Forsberg – Ibrahimovic, Berg.