Michal Petrák
iSport
twitter.com/michalpetrak
Framúrskarandi eiginleikar sem Pavel Vrba hefur fært landsliðinu í kjölfarið á frábærum árangri sínum með lið Plzen eru lykillinn að velgengni Tékka. Hvað varðar gæði einstaklinga geta hvorki Plzen né Tékkland jafnast á við Atlético Madrid, Napoli eða Holland en menn Vrba gátu unnið þau lið.
Landsliðsþjálfarinn, sem er fyrrverandi miðvörður, nýtur þess að sækja og spilar 4-2-3-1 leikerfið með skapandi leikmenn inni á miðjunni og fljóta leikmenn á köntunum. Hann kann vel við það að gera kantmenn eða sóknarsinnaða miðjumenn að bakvörðum og nota hraða þeirra og tilhneigingu til að sækja. Það á við um þá Pavel Kaderábek eða Theodor Gebre Selassie á hægri kantinum og David Limberský eða Daniel Pudil á þeim vinstri.
Kantmenn sækja inn á miðju
Undanfarið hefur hann valið kantmenn sem hafa þá tilhneigingu að sækja líka inn á miðjuna, leikmenn eins og Jirí Skalák, Borek Dockal eða Josef Sural sem vilja fara af kantinum og komast í skotstöðu, og búa til pláss fyrir leikmennina sem eru fyrir aftan til að fara framar á völlinn.Liðið er mjög vel skipulagt og getur pressað andstæðinginn langt fram á völlinn eða farið í skotgrafirnar. Með Spánverjum, Króötum og Tyrkjum í riðli eru Tékkar líklegri til að velja síðari kostinn – önnur ástæða er skortur á hraða í miðju varnarinnar, sem þýðir að þegar liðið pressar fara miðverðirnir ekki framar eins og þeir ættu að gera og skilja þar með eftir hættulegt pláss á milli sín og miðjumannanna.
Tékkneska liðið er líka hættulegt í föstum leikatriðum. Það er með nokkra góða spyrnumenn sem geta skapað hættu og svo eru líka margir góðir skallamenn í liðinu. Vrba er hrifinn af því að búa til ný afbrigði og einn af aðstoðarmönnum hans, Karel Brückner, er snillingur í því.
Cech mætir með gullhanskann
Markvörðurinn Petr Cech er lykilmaður, reynsla hans er ómetanleg. Með gullhanskann sem hann fékk í verðlaun fyrir að halda marki sínu oftast hreinu í ensku úrvalsdeildinni mætir hann á EM með gott sjálfstraust og í góðu formi.Annar mikilvægur hlekkur í liðinu er Tomás Rosický. Það jafnast enginn á við sköpunargáfu hans þó svo að hann hafi átt í erfiðleikum vegna meiðsla. Liðið þarf að læra að vera án hans. Fyrirliðinn lék helminginn af 10 leikjum liðsins í undankeppninni. Það vann þrjá þeirra, gerði eitt jafntefli og tapaði einum og það hrundi ekki þrátt fyrir fjarveru hans því án hans vann það fjóra leiki og tapaði einum.
Án Rosický eru Tékkar í vandræðum með að opna lið sem verjast aftarlega og vitnisburður um það er 1:0 tap á móti Skotum í vináttuleik í mars. En það mun ekki mæta slíkum andstæðingum í riðlakeppninni á Evrópumótinu.
Svo við hverju má búast af Tékkum? Á móti Spáni og Króatíu, liðum sem kjósa að halda boltanum – þá eru þeir líklegri til að liggja aftarlega og nota hraðann á köntunum fyrir skyndisóknir. Í síðasta leiknum í riðlinum, á móti Tyrkjum, þar sem þeir þurfa kannski að berjast um að komast í 16 liða úrslitin, munu þeir hafa meira frumkvæði. Að komast upp úr riðlinum er klárlega ekki útilokað.
Líklegt byrjunarlið : Cech – Kaderábek, Sivok, Kadlec, Limberský – Darida, Plasil – Dockal, Rosický, Krejcí – Necid.