Þórhallur Heimisson
Þórhallur Heimisson
Eftir Þórhall Heimisson: "Áfram lá leiðin í gegnum borg hinna dauðu þar til við komum loks að hvelfingu við undirstöður grafhýsanna fyrir ofan okkur."

Einhvern veginn hafa örlögin hagað því þannig að Róm er orðin mín borg. Þangað hef ég komið oft og mörgum sinnum í gegnum árin. Sem fararstjóri hef ég haft ánægjuna af að leiða fróðleiksþyrsta Íslendinga um borgina. Og sjálfur hef ég átt þar óteljandi ógleymanlegar stundir. Til Rómar liggja leiðirnar bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu því áhrif borgarinnar eru ekki nærri alltaf augljós en koma upp á yfirborðið víða þegar betur er að gáð. Um leið er Róm lifandi og yndisleg borg og sá sem einu sinni hefur orðið ástfanginn af henni á ekki auðvelt með að gleyma þeirri ást, hún fylgir honum alla tíð eins og ljúf endurminning.

Einn sérstæðasti staður Rómarborgar er Necropolis – borg hinna dauðu, sem finna má undir Péturskirkjunni. Sú Péturskirkja sem nú stendur var vígð árið 1626. Hún er reist á grunni eldri kirkju frá tímum Konstantínusar keisara á 4. öld, en kirkja Konstantínusar var aftur byggð á fornum grafreit og helgistað. Kirkjunni var valinn staður þarna vegna þess að heimildir sögðu að þar væri að finna gröf Péturs postula. Fornleifafræðingar hafa í áratugi unnið að því að grafa sig í gegnum hin mörgu lög undir núverandi Péturskirkju. Í ljós hefur komið einstök borg sem kölluð er borg hinna dauðu, eða Necropolis, undir gólfi miðaldakirkjunnar. Í borg hinna dauðu er að finna stórkostlega skreytt grafhýsi og götur sem hægt er að ganga um eftir að hreinsuð hefur verið frá mold og jarðvegur aldanna. Og þarna, á 12 metra dýpi undir miðaldakirkjunni, fundu fornleifafræðingarnir gröf sem talin er geyma jarðneskar leifar Péturs postula. Þær eru enn geymdar þar en kapella hefur verið byggð ofan á hina fornu gröf á gólfi miðaldakirkjunnar.

Allt hefur þetta magnaða völundarhús undirheima kirkjunnar verið endurreist og innsiglað. Það er ekki opið almenningi heldur þarf að sækja um sérstakt leyfi hjá Vatíkaninu til að heimsækja það. Milljónir sækja víst um leyfi á hverju ári en aðeins 100 manns á dag í 10 manna hópum fá að fara niður í undirdjúp Vatíkansins í fylgd leiðsögumanns. Slíkur leiðangur er heldur ekki fyrir hvern sem er því þrengslin eru mikil og loftið þungt og engin leið að snúa við sé ferðin á annað borð hafin. Vatíkanið, eða Páfaríkið, stendur á bökkum Tíberfljótsins í miðri Rómarborg og er eitt minnsta sjálfstæða ríki heimsins. Péturskirkjan er ein þekktasta kirkja kristninnar. Hvolfþak hennar var teiknað af sjálfum Michelangelo og gnæfir það tignarlega yfir borginni. En í Vatíkansafninu er að finna sixtínsku kapelluna, sem er einkakapella páfa og hefur að geyma hinar frægu freskur Michelangelos af sköpun heimsins og dómsdegi. Péturskirkjan er reist á þeim stað þar sem talið er að Pétur postuli hafi verið jarðsettur, en hann lét að öllum líkindum lífið í ofsókn sem Neró keisari í Róm stóð fyrir gegn kristnum mönnum þar í borg árið 67. Áður stóð þar mikil kirkja í basilikustíl sem Konstantín keisari lét byggja, en hún var vígð árið 326. Óteljandi listamenn komu að gerð kirkjunnar. Sjálfur hef ég tvisvar komið að gröf Péturs í Necropolis ásamt íslenskum ferðalöngum. Til að komast þangað mættum við hjá svissnesku vörðunum við hlið Vatíkanshallargarðsins. Þaðan vorum við leidd að skrifstofu fornleifarannsóknarinnar þar sem leiðsögumaður tók við okkur og fór með okkur inn í hvelfingarnar undir Péturskirkjunni. Hófst nú hin mesta ævintýraför. Í einfaldri röð gengum við Íslendingarnir inn í göng sem liggja undir kirkjuna. Þaðan var síðan gengið æ dýpra. Þarna í undirdjúpunum gengum við um götur fyrri alda og sáum hvernig fólk á fyrri tíð hafði útbúið grafir forfeðra sinna. Mikil listaverk, lágmyndir og styttur prýða marga grafreitina sem fyrir augu ber þarna, sumir eru þó einfaldari og á enn öðrum eru aðeins legsteinar með minningarorðum um látna ástvini. Og listaverkin eru bæði frá kristnum tíma og tímanum fyrir kristni. Þar má sjá egypsku guðina Hórus, Ísis og Ósíris í bland við gríska og rómverska guði og kristna dýrlinga. Áfram lá leiðin í gegnum borg hinna dauðu þar til við komum loks að hvelfingu við undirstöður grafhýsanna fyrir ofan okkur. Þá staðnæmdist leiðsögumaðurinn og benti okkur á lítið op í marmaranum þar sem greina mátti horn af fornum kistli, skríni því sem talið er að Pétur postuli hafi verið jarðsettur í. Fannst það beint undir hinni fornu Péturskapellu, en kapelluna höfðu menn reist yfir legstæði Péturs. Okkur setti hljóð á þessum forna og helga stað og erfitt er að lýsa þeim hugsunum sem að ferðalangi frá Íslandi sóttu. Eftir stutta stund opnuðust dyr hvelfingarinnar á ný og við héldum frá Pétri postula, upp gegnum jarðlög og forn kirkjugólf þar til við aftur vorum komin í hvelfingarnar sem eru kjallarar núverandi Péturskirkju. Þar eru miklar kapellur gulli og dýrum gripum prýddar og listaverkum aldanna. Loks opnaði leiðsögumaðurinn dyr og við gengum út úr þessum mikla, forna og helga heimi og inn í nútímann. Ferðin í undirdjúp Vatíkansins að gröf Péturs var á enda. Og úti beið ítalska sólskinið, bjart sem aldrei fyrr.

Höfundur er prestur og leiðsögumaður um Rómaborg.