Jón Einarsson fæddist á Siglufirði 31. janúar 1926. Hann lést á Spáni 23. maí 2016.
Foreldrar hans voru Einar Ásgrímsson, f. 1896, d. 1979, og Dóróthea Sigurlaug Jónsdóttir, f. 1904, d. 2001.
Systkini Jóns eru: Ásta, f. 1928, Ásgrímur, f. 1929, látinn, Guðlaug, f. 1932, látin, Sólveig, f. 1934, Brynjar Óli, f. 1936, látinn, Stella Minný, f. 1940, og Eysteinn, samfeðra, f. 1923, látinn
Jón kvæntist 31. janúar 1953 eftirlifandi eiginkonu sinni, Guðrúnu Margréti Valberg Hallgrímsdóttur, f. 27. janúar 1934 á Sauðárkróki. Börn Jóns og Guðrúnar eru: Margrét Indíana, f. 1952, í sambúð með Ágústu Pálsdóttur, Hallgrímur Valberg, f. 1954, kvæntur Supanee Runarun, Einar Theódór, f. 1957, kvæntur Bergþóru Ingimarsdóttur, Dóróthea Sigurlaug f. 1961, gift Jóhanni Hjartarsyni, og Hjörtur, f. 1965, kvæntur Þóru Kemp. Afabörn eru tólf, þar af þrjú látin. Langafabörnin eru fimm og langalangaafabörn tvö.
Útför Jóns fer fram frá Hveragerðiskirkju í dag, 10. júní 2016, klukkan 11.
Elsku besti pabbi minn er látinn. Ég veit vel að þetta er lífsins gangur en þetta er samt svo óraunverulegt. Mín elsta minning er af okkur tveimur saman, ég var sennilega fimm ára, við bókalestur fyrir svefninn. Ég man að það var svo notalegt að liggja í fangi þínu og hlusta á sögu. Þessa minningu hef ég tekið með mér í lífið og nýt þess að liggja með börnum mínum og lesa fyrir þau góðar kvöldsögur. Ég harma það að hafa ekki deilt þessari minningu með þér, nú þegar þú ert farinn.
Ég minnist einnig ferða okkar til Sigló að heimsækja ömmu og afa á Grundargötunni. Bílferðin á þessum árum tók um ellefu klukkustundir og ég man að þú varst eins og herforingi við stýrið á einbreiðum veginum og komst okkur heilum á leiðarenda. Þar var oft glatt á hjalla, þó sér í lagi þegar Bóbó bróðir þinn og þú leidduð saman hesta ykkar, þetta voru eins og bestu revíur og var hlegið þar til menn lágu hver um annan þveran. Á fullorðinsárum mínum áttum við margar góðar stundir saman tengdar æskuslóðum þínum enda húsið á Eyrargötunni sem þú hafðir svo miklar mætur á griðastaður allra sem heimsóttu ykkur mömmu á meðan húsrúm leyfði. Í mínum huga verður Eyrargata 28 ávallt hús Nonna Theu og Rúnu.
Ég mun sakna stundanna sem við áttum saman undir það síðasta þegar þú sagðir sögur, jafnvel úr æsku þinni á Sigló, eins ljóslifandi og atburðirnir hefðu gerst í gær.
Takk fyrir allar þær stundir sem við áttum saman í blíðu jafnt sem stríðu.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum)
Hvíl í friði, elsku pabbi minn.
Hjörtur Jónsson.
Um það leyti sem þið mamma flytjið á Ás í Hveragerði fluttist ég til Spánar. Og átti það eftir að verða uppáhaldsstaðurinn þinn, og heimsóttuð þið mig á hverju ári og ferðuðust með mér um landið. Þú varst mjög glaður þegar þið ákváðuð að koma nú í maí sl. eftir eins árs hlé, og náðum við að gera svo margt skemmtilegt. Þú svo sæll og glaður að vera kominn aftur á uppáhaldssvalirnar þínar í sólinni, að betra líf gæti ekki verið til voru þín orð. Þú ákvaðst að enda þetta líf þar og ég er svo viss um í mínu hjarta að þú ert ánægður með það. Enn og aftur, elsku pabbi, takk fyrir allt saman og við sjáumst síðar.
Þín dóttir
Margrét (Magga).
Okkar samskipti voru ekki löng í árum talið en góð og skemmtileg. Ég rifja upp allar sögurnar sem ég fékk að heyra hjá þér og spanna lífshlaupið þitt. Ég dáðist svo að þessu ótrúlega minni þínu sem þú hafðir fram á síðasta dag, sama hvort um manna- eða staðarnöfn eða ártöl var að ræða. Heimsóknir þínar til okkar á Spán eru eftirminnilegar því þú naust þeirra svo vel og hafðir gaman af. Síðasta ferðin þín er sú sem verður mér minnisstæðust því þú, kominn á þennan aldur, hafðir enn svo gaman að því sem við gerðum. Ferð okkar saman í stóru verslunarkeðjuna þar sem ég fékk þig til að kíkja með mér í allar skóbúðir svæðisins, kíkja inn í stærstu byggingarvöruverslun og matvöruverslun sem þú hafðir séð og hafðir gaman af. Ferð okkar saman til spánska rakarans sem talaði meira en hann klippti og við hlógum mikið að. Þú varst kominn með fullt af nýjum sögum sem þú ætlaðir að segja á Ási, en vinur, það bíður betri tíma. Þakka þér fyrir stutta en góða samfylgd.
Ágústa.
Jón og konan hans, Guðrún Valberg, Rúna, voru í ferðahóp sem þeir félagar í hópnum kölluðu Útlaga. Einhverju sinni gátu ekki nokkrir félagar tekið þátt í ferð sem var áætluð um sumarið og bauð hann þá mér og konu minni að koma með. Þetta varð til þess að við vorum tekin í hópinn og ferðuðumst með þeim í mörg sumur. Ferðahópurinn hafði á stefnuskrá sinni að fara helst á þá staði sem við höfðum ekki komið á áður. Það má segja að hópurinn hafi borið nafn með rentu því við lögðumst hreinlega út í tjöld í nokkra daga. Oftast fengum við rútu frá Vestfjarðaleið með sama bílstjórann, Jón M. Jóhannsson, öðlingsmann, sem kom svo síðar í hópinn ásamt konu sinni. Þessar ferðir opnuðu okkur nýja sýn á landið sem við búum að alla ævi. Jón var hrókur alls faganaðar í þessum ferðum, brandararnir og tilsvör sem komu frá honum eru eftirminnileg og þurfti oft að þerra hvarma þegar hann var í essinu sínu.
Jón kom glaður til mín einu sinni í vinnunni og sagðist vera búinn að kaupa gamalt og lítið hús á Siglufirði sem þyrfti að vísu smálagfæringar. Við hjónin komum oft til þeirra á Siglufjörð, er þau Rúna dvöldu þar og voru að lagfæra húsið og umhverfi þess. Nú hafa börn þeirra tekið við húsinu, endyrnýjað og stækkað lítið eitt og lítur það glæsilega út í dag.
Jón og Rúna komu oft til okkar Vénýjar í sumarhýsið okkar á Ólafsfirði, sérstaklega eftir opnun Héðinsfjarðarganga. Bar þá oft á góma fyrrverandi vinnustað okkar í Straumsvík og framvindu mála þar.
Mikið áhugamál Jóns var að safna pennum, bæði meðan hann var að vinna og eftir að hann var kominn á eftirlaun.
Pennarnir skiptu þúsundum og var þeim komið fyrir í þar til gerðum möppum og allt skrásett í tölvu. Þegar maður hitti hann á góðri stundu og var með penna í vasanum þurfti hann að skoða og vita hvort hann ætti eins penna. Það var ótrúlegt hvað hann var naskur að vita hvaða tegund af pennum hann ætti. Ef ég fór til útlanda þá hafði ég alltaf í huga að færa honum penna sem ég vonaði að hann ætti ekki.
Við Véný sendum fjölskyldu Jóns innilegar samúðarkveðjur.
Sveinbjörn Sigurðsson.