[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristof Terreur HLN Twitter.

Kristof Terreur

HLN

Twitter.com/HLNinEngeland

Enn eru einhverjar sprungur í undirstöðum belgíska liðsins, en landsliðsþjálfarinn Marc Wilmots ætlaði sér ekki að endurskipuleggja vörnina þegar varnarleiðtoginn Vincent Kompany heltist úr lestinni með rifinn lærvöðva.

En eftir slaka frammistöðu miðvarðanna, Jason Denayer og Thomas Vermaelen, í vináttuleiknum gegn Finnum skipti hann um skoðun. „Ég vil hafa Toby Alderweireld sem leiðtoga varnarinnar,“ sagði hann.

Þegar Wilmots tilkynnti hópinn sagðist hann ætla að nota Denayer, óreyndan en hæfileikaríkan miðvörð, í stað fyrirliðans. Wilmots vill helst vera með hægrifótar og vinstrifótar miðvarðapar. Að lokum setti hann Denayer í stöðu hægri bakvarðar, eins og hann hafði spilað með Galatasaray.

Wilmots mun ekki nota Toby Alderweireld og Jan Vertonghen úr Tottenham saman í miðri vörninni, nema meiðsli neyði hann til þess, en þeir voru eitt besta miðvarðapar ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Vandamálið er að Belgía hefur eignast fáa góða bakverði á síðustu fimm árum. Alderweireld eða Denayer ásamt Vertonghen eru skárstu möguleikarnir og þeir síðarnefndu hafa sætt sig við að þeir muni ekki spila í miðri vörninni, nema ef það eru mikil meiðslavandræði. Þeir hafa báðir staðið sig vel í bakvarðarhlutverkinu. Alderweireld var frábær í Brasilíu og lagði upp þrjú mörk í undankeppni EM. Wilmots valdi Thomas Meunier, bakvörð frá Club Brugge, og Jordan Lukaku, bróður Romelu og leikmann Oostende, sem varamenn. Báða skortir reynslu á hæsta stigi og eru tiltölulega slakir í vörn.

Ný vídd með Nainggolan

Wilmots hefur sjaldan breytt 4-2-3-1 leikkerfi sínu síðan hann tók við af Georges Leekens árið 2012. Einnig eru leikmennirnir að mestu leyti þeir sömu og komust í átta liða úrslit í Brasilíu, sem var frumraun þeirra með landsliðinu á stórmóti. Radja Nainggolan úr Roma er eini nýliðinn á miðjunni, en það kom á óvart að hann hefði verið skilinn eftir heima á HM. Hann kemur með nýja vídd í liðið með orku sinni, kraftmiklum tæklingum og reglulegum mörkum úr langskotum. Hann meiddist á kálfa í maí og verður klár rétt í tæka tíð fyrir EM. Þar sem Belgía átti oft í erfiðleikum sökum hægs spils gerði Wilmots örlitlar breytingar. Hann færði Kevin De Bruyne framarlega á miðjuna frá hægri kantinum í október. Hann hefur verið besti og stöðugasti leikmaður þeirra síðan árið 2012, en nú er hann enn betri.

Eden Hazard, sem verður fyrirliðinn í Frakklandi, fær frjálst hlutverk vinstra megin, en liðið er ekki byggt í kringum hann. Wilmots vonast til þess að hann geti boðið upp á viðbótarneista eftir erfitt tímabil. Yannick Carrasco, sem sýndi gæði sín í Atlético, verður örugglega hægra megin.

Lukaku mun byrja mótið sem fremsti maður, en hann þarf að standa sig. Wilmots valdi þrjá aðra framherja, þá Christian Benteke, Divock Origi og Michy Batshuayi, sem eru allir með sinn leikstíl. Framherjinn í landsliðinu er aðallega notaður sem tenging við miðju- og kantmenn, en ekki sem markaskorari, sem fer í taugarnar á sumum þeirra. Það er ein af ástæðunum fyrir því að Marouane Fellaini er enn markahæsti leikmaður þessarar gullkynslóðar.

Líklegt byrjunarlið : Courtois – Denayer, Alderweireld, Vermaelen, Vertonghen – Witsel, Nainggolan – Carrasco, De Bruyne, Hazard – R. Lukaku.