Ingibjörg Jóhannsdóttir fæddist í Einarshöfn á Eyrarbakka 6. september 1924. Hún lést á Sólvöllum, dvalarheimili aldraðra á Eyrarbakka, 2. júní 2016.

Foreldrar hennar voru Þórdís Gunnarsdóttir, húsfreyja, f. 1897, d. 1978, og Jóhann Elí Bjarnason, skipstjóri, f. 1890, d. 1951. Ingibjörg var næstelst fjögurra systkina, elstur var Bjarni Jóhannsson, f. 1922, d. 2014. Næstyngstur er Jóhann Jóhannsson, f. 1927 og yngst er Katrín Jóhannsdóttir, f. 1934.

Ingibjörg ólst upp á ástríku heimili foreldra sinna í Einarshöfn og gekk í Barnaskólann á Eyrarbakka. Hún fór ung til Reykjavíkur og lærði að sauma hjá Rebekku Hjörtþórsdóttur sem var kunn kjólasaumakona á saumastofunni Gullfossi í Aðalstræti 9. Seinna vann hún um tíma í Nærfatagerðinni.

Þann 19.10. 1947 giftist Ingibjörg Þórarni Kristinssyni frá Neistakoti á Eyrarbakka, f. 6.12. 1913, d. 19.6. 1969. Foreldrar hans voru hjónin Kristinn Þórarinsson, f. 1879, d. 1917, og Vigdís Eiríksdóttir, f. 1876, d. 1963. Hann var þriðji yngstur í tíu systkina hópi sem eru öll látin. Ingibjörg og Þórarinn eignuðust fjóra syni, áður átti Þórarinn soninn Kristján Jóhann, f. 1942. Elstur þeirra barna er 1) Jóhann Elí, f. 1948, kvæntur Helgu Hallgrímsdóttur, f. 1952, börn þeirra eru: a) Þórarinn, f. 1972, kvæntur Hildi Bjargmundsdóttur og eiga þau börnin Egil Inga, f. 2002 og Telmu Björgu, f. 2005. Áður átti Þórarinn Jóhann Andra, f. 1993 og Bryndísi Örnu, f. 1996. b) Ingibjörg, f. 1973, sambýlismaður Þorvaldur Barðason og eiga þau börnin Ragnar Má, f. 1995 og Helgu Guðrúnu, f. 2000. c) Hallgrímur, f. 1979, kvæntur Sigríði Hrönn Pálmadóttur og eiga þau börnin Torfa Elí, f. 2013 og Birnu Dröfn, f. 2015. d) Bjarni Gunnar, f. 1985, sambýliskona Halla Rúnarsdóttir og eiga þau dótturina Ingibjörgu, f. 2014. Kristinn f. 6.9. 1949, hann á: Þórdísi f. 1972 sem er gift Gísla Gíslasyni f. 1969. Sonur þeirra er Gísli Rúnar f. 2002. Þórarinn Halldór f. 1973. Hann er kvæntur Ingibjörgu Kristinsdóttur f. 1972. Þau eiga börnin Kristin f. 1996 og Guðrúnu Ástu f. 2000. 2) Ingi Þór, f. 1951, kvæntur Guðrúnu Ísfold Johansen, f. 1955. Áður átti Guðrún soninn Hans Erni, f. 1974, d. 1995. Börn Inga Þórs og Guðrúnar eru: a) Guðni, f. 1985, sambýliskona Dagmar Pálsdóttir, f. 1990. Guðni á soninn Anton Bjarma, f. 2008. Dagmar á soninn Kristin Frey, f. 2011. b) Ósk, f. 1987, gift Sigmari Þór Matthíassyni, f. 1987. Þau eiga Klöru Ísfold, f. 2016. 3) Skúli, f. 1955, kvæntur Normu Einarsdóttur, f. 1955, börn þeirra eru: a) Alma Tynes, f. 1976, maður hennar er Sigurjón Ólafsson, f. 1964. Þau eiga Önju Margréti og Ólaf Skúla, f. 2013. b) Bjarni, f. 1978, kona hans er Marija Dragic, f. 1977, þau eiga börnin Branko Magnús, f. 2004 og Helenu, f. 2008. Áður átti Bjarni soninn Sigtrygg Valgeir, f. 1998. c) Einar Thoroddsen, f. 1986, unnusta hans er Dagný Björk Lúðvíksdóttir, f. 1991. Hún á soninn Axel Þór, f. 2008.

Útför Ingibjargar fer fram frá Eyrarbakkakirkju í dag, 16. júní 2016, klukkan 13.

Ástkær systir mín, Ingibjörg Jóhannsdóttir, er borin til grafar í dag á æskuslóðum sínum á Eyrarbakka. Langri og farsælli ævi er lokið og góðrar konu er sárt saknað.

Á stundum sem þessum leitar hugurinn til æskuáranna í Einarshöfn á Eyrarbakka. Systir mín ólst upp við leik og störf á Eyrarbakka eins og þá tíðkaðist, í stórum frændgarði, falleg og góð og með afburðum myndarleg til allra verka. Hún var yndisleg stóra systir sem bar hag litlu systur fyrir brjósti og leiðbeindi henni og kenndi á öllum sviðum. Það var svo ljúft og gott og mikill styrkur að eiga að þessi eldri systkini, Imbu, Bjarna og Jóa.

Imba systir var alla tíð órjúfanlegur partur af minni fjölskyldu svo og synir hennar og fjölskyldur þeirra. Margar minningar koma upp í hugann, allar góðar og kærleiksríkar. Samveran á Ránargötu 3 er ofarlega í huga mínum, heimili hennar alltaf opið og umhyggjusemi og elska alltaf til staðar. Hjálpsemi hennar þegar ég stofnaði mína eigin fjölskyldu og börnin mín fæddust er minnisstæð, þá var gott að hafa stóru systur nálæga. Ég minnist heimsóknar hennar til okkar í Svíþjóð, þar sem við nutum þess öll að vera saman og ferðast um og skoða bæi og borgir. Börnin mín og barnabörn voru henni náin og fengu alla tíð að njóta gestrisni hennar og barngæsku.

Það sem einkenndi Imbu systur var æðruleysi hennar í þeim verkefnum sem lífið færði henni. Einnig var það áhugi hennar á samferðamönnum sínum svo og ættrækni. Hún hafði sérstakan áhuga á ættfræði og gat rakið ættir með ártölum og afmælisdögum svo um munaði. Hún hafði alltaf áhuga á því sem var að gerast hjá sínum nánustu og lét sig ekki vanta ef eitthvað var um að vera, alltaf jákvæð og hlý.

Ránargata 3, húsið hennar Ingibjargar föðursystur okkar, var fjölskylduhúsið okkar. Það var okkar annað heimili, allrar fjölskyldunnar, og þar treystum við fjölskylduböndin, börn, barnabörn og barnabarnabörn Jóhanns Elí Bjarnasonar og Þórdísar Gunnarsdóttur, og bróðurfjölskylda Ingibjargar Bjarnadóttur, húsráðanda. Mörg áttum við því láni að fagna að fá að búa í því húsi í skemmri eða lengri tíma og Imba systir bjó þar í fimmtíu ár og var stoð og stytta Ingibjargar, föðursystur okkar, og þær hvor annarrar. Margar eru minningarnar þaðan, skemmtilegar og innilegar.

Nú er dagur að kveldi kominn og ekki get ég lengur hringt í systur mína eða hún í mig eins og var nánast dagleg venja. Það verður erfitt að venjast því.

Á kveðjustund vil ég þakka elskulegri systur minni samfylgdina í lífinu og fyrir allt sem hún var mér og fjölskyldu minni og færi sonum hennar og fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur.

Ég kveð þig, hugann heillar

minning blíð,

hjartans þakkir fyrir liðna tíð,

lifðu sæl á ljóssins friðar strönd,

leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.

(Guðrún Jóhannsdóttir)

Katrín Jóhannsdóttir.

Elskuleg tengdamóðir mín er látin á 92. aldursári. Ingibjörg var elskuleg kona, hæglát og prúð og urðum við fljótt góðar vinkonur eftir að ég giftist Skúla yngsta syni hennar. Hún var glæsileg, gekk hnarreist og bar sig vel. Það var gott að koma á fallegt heimili hennar að Ránargötu 3 í Reykjavík en þegar ég kom inn í fjölskylduna bjó Þórdís móðir hennar hjá henni og hafði gert í nokkur ár. Hún leigði hjá föðursystur sinni, Ingibjörgu Bjarnadóttur, sem bjó líka í húsinu og var samheldnin mikil í þessari fjölskyldu. Þessar þrjár konur tóku mér opnum örmum og hefði ég ekki getað fengið betri tengdafjölskyldu.

Ingibjörg hafði misst Þórarin, manninn sinn, þegar hún var aðeins 45 ára en hann lést eftir erfið veikindi og hjúkraði hún honum af alúð. Hún fór að vinna úti eftir það og vann bæði í Belgjagerðinni og í Prjónastofunni Peysunni. Hannyrðir af öllu tagi voru helsta áhugamál hennar en hún var líka góður ljósmyndari og tók margar góðar myndir sem gaman er að skoða og ylja sér við minningarnar. Eftir að við Skúli eignuðumst börnin okkar var gaman að koma með þau í heimsókn til hennar og hún var óþreytandi að lesa fyrir þau og spila á spil. Barnabörnin okkar Skúla voru líka dugleg að koma og heimsækja langömmu á Sólvelli en þangað flutti hún fyrir tæpum átta árum. Hún lést þar 2. júní eftir stutta sjúkralegu og er starfsfólki Sólvalla þakkað kærlega fyrir hlýlegt viðmót ekki aðeins við hana heldur við okkur fjölskylduna í veikindum hennar.

Ég og fjölskylda mín þökkum Ingibjörgu samfylgdina og biðjum guð að blessa hana.

Norma Einarsdóttir.