Myndbandið við lögin „Enginn Mórall“ og „Grunaður“ hefur verið skoðað rúmlega 118 þúsund sinnum á YouTube.
Myndbandið við lögin „Enginn Mórall“ og „Grunaður“ hefur verið skoðað rúmlega 118 þúsund sinnum á YouTube.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikið hefur borið á hinum sextán ára Aroni Can upp á síðkastið en rapparinn gaf nýverið út plötuna Þekkir stráginn auk þess sem hann kemur fram á Secret Solstice-hátíðinni um helgina.

Mikið hefur borið á hinum sextán ára Aroni Can upp á síðkastið en rapparinn gaf nýverið út plötuna Þekkir stráginn auk þess sem hann kemur fram á Secret Solstice-hátíðinni um helgina. Hann segir að vinsældirnar hafi haft nokkur áhrif á líf sitt en hjartað sé þó alltaf í Grafarvoginum. Davíð Már Stefánsson davidmar@mbl.is

Það er geðveikt að koma inn í þetta á þessum tímapunkti. Það er svo mikið í gangi í rappsenunni hérna heima,“ segir Grafarvogsbúinn Aron Can sem hefur komið eins og stormsveipur inn í íslensku rappsenuna síðustu mánuði. Plata hans Þekkir stráginn hefur notið mikilla vinsælda og myndband við lögin „Enginn Mórall“ og „Grunaður“ til að mynda verið skoðað rúmlega 118 þúsund sinnum á vefsíðunni YouTube. Hann kveður jafnframt uppganginn í rappsenunni aðeins vera að byrja og að nóg sé til af ungum og efnilegum röppurum sem margir hverjir eru einmitt að fara að troða upp ásamt Aroni á Secret Solstice-hátíðinni sem stendur yfir í Laugardalnum um helgina.

Ekkert nema ást

Aron Can er aðeins sextán ára gamall og því kímið að leiða hugann að því að það séu fjögur ár þar til hann verður sjálfur löglegur inni á skemmtistöðunum þar sem hann treður gjarnan upp. Tónlistin hefur þó lengi verið uppi á pallborðinu hjá rapparanum en hann kveðst hafa byrjað að semja lög þegar hann var tíu ára.

„Síðan tók ég þátt í Samfés og Rímnaflæði og þessum pakka. Það voru fyrstu skiptin sem ég rappaði fyrir framan fólk. Síðan hefur maður verið að fara í stúdíó og alltaf tekið þetta lengra og lengra,“ segir hann en greinilegt er að Aron ber mikla ást í brjósti til hverfisins síns, Grafarvogsins.

„Gaur, þetta er bara sjittið. Grafarvogurinn er fyrir þig ef þú ert í fótbolta og hann er líka fyrir þig ef þú ert rappari. Ég hangi mikið þar þó maður sé farinn að spila úti um allan bæ. Ég er ekki mikið að tsjilla með öðrum röppurum, ég er bara mest með mínum hómís í hverfinu. Það eru samt allir fokking næs sem maður hefur hitt, ekkert nema ást í þessu,“ segir Aron um rappsenuna í heild sinni. Hann segir vinsældirnar hafa haft nokkur áhrif á líf sitt.

„Ég er að spila nánast hverja einustu helgi og fá borgað fyrir að gera það sem ég elska að gera. Þetta er samt alveg ennþá svolítið bara við strákarnir að taka upp og leika okkur,“ segir hann en þess má geta að nýju plötuna má nálgast á Spotify, YouTube og heimasíðunni aroncan.com.

Nýtt myndband á döfinni

Eins og áður segir hefur verið mikill uppgangur í íslenska rappinu upp á síðkastið en Aron segir það enga tilviljun.

„Það liggur við að það eina sem mín kynslóð hlusti á sé hip-hop. Síðan hafa upp á síðkastið verið að koma fram á sjónarsviðið margir nýir íslenskir rapparar og þá hlustar maður auðvitað á þá. Það er svo ógeðslega mikið að gerast á Íslandi. Það er alltaf verið að gefa út eitthvað nýtt og ferskt,“ segir hann og gefur jafnframt rapparanum Gísla Pálma svolítið kredit fyrir þá rappbylgju sem hefur riðið yfir Ísland. Aron Can er þó ekki einn á báti í sínum lagasmíðum en þeir Aron Rafn Gissurarson og Jón Bjarni Þórðarson hafa verið að semja taktana fyrir rapparann og er dagskráin framundan þétt hjá tríóinu.

„Við erum að vinna í nýju lagi núna sem við munum gefa út í sumar ásamt myndbandi. Við erum að leggja áherslu á að búa til nýtt og ferskt efni,“ segir hann en Aron leikstýrði einmitt sjálfur myndbandinu við lögin „Enginn Mórall“ og „Grunaður“.

Beint í 112 að hátíð lokinni

Þá segir hann það mjög misjafnt hvað hann rappi um og að andagiftin sé að mestu fengin úr eigin reynsluheimi.

„Stíllinn minn er ekki þekktur sem eitthvað dópistatal. Ég held allavega ekki. Maður minnist að sjálfsögðu á slíkt af og til en þá bara í ákveðnu samhengi. Ég rappa bara um minn eigin raunveruleika,“ segir Aron en hann kemur fram á Secret Solstice-hátíðinni í Laugardalnum um helgina.

„Hátíðin leggst ógeðslega vel í mig. Þetta verður ógeðslega gaman. Það eru meira en þúsund búnir að segjast ætla að kíkja á okkur á þessu Secret Solstice-appi. Ég er að elska þetta sjitt. Ég gæti ekki ímyndað mér að vera að njóta mín eitthvað betur. Ég er sextán ára og ég er að gera eitthvað sem margir láta sig aðeins dreyma um,“ segir Aron og kveðst að öllum líkindum fara beint upp í hverfi númer 112 þegar hátíðinni líkur. Hann segir hugsa talsvert til framtíðarinnar og metnaðurinn er greinilega fyrir hendi.

„Ég er búinn að hugsa þetta allt of langt maður. Maður vill auðvitað alltaf reyna að koma sér eitthvert út en það er bara svo mikið af spennandi hlutum að gerast hérna heima. Það að vera að drífa sig eitthvert út er kannski það síðasta sem maður á að vera að pæla í. Það sem við erum að gera núna gengur mjög vel og við erum að njóta okkar fáránlega vel. Það er geðveikt gaman að vera hluti af íslensku senunni í dag,“ segir Aron að lokum.