Jafnrétti kynjanna krefst þess, að við endurskoðum fortíðina. Eitt dæmi er nafngiftir á Íslendinga sögum. Ég hef áður sagt, að Laxdæla ætti að heita Guðrúnar saga Ósvífursdóttur, því að sagan hverfist um hana, er um heitar ástir og grimm örlög.

Jafnrétti kynjanna krefst þess, að við endurskoðum fortíðina. Eitt dæmi er nafngiftir á Íslendinga sögum. Ég hef áður sagt, að Laxdæla ætti að heita Guðrúnar saga Ósvífursdóttur, því að sagan hverfist um hana, er um heitar ástir og grimm örlög. Af hverju skírðu einhverjir fauskar á seytjándu öld sögur aðeins eftir körlum eða stöðum? Annað dæmi eru Eiríks saga rauða og Grænlendinga saga. Þær ættu að heita einu nafni Guðríðar saga Þorbjarnardóttur, enda bersýnilega skráðar eftir munnmælum, sem varðveittust með afkomendum hennar, eins og fræðimenn hafa bent á. Guðríði Þorbjarnardóttur er svo lýst, að hún hafi verið sköruleg kona að sjá, vitur og kunnað vel að vera með ókunnum mönnum. Hún var fædd um 980 og var föðurafi hennar írskur leysingi. Guðríður átti fyrst norskan mann, Þóri. Í verslunarferð frá Noregi til Grænlands árið 1000 strandaði skip þeirra, og bjargaði Leifur Eiríksson skipverjum af skeri einu, og hafði Leifur þá nýfundið Vesturálfu. Þórir andaðist skömmu eftir komuna til Grænlands, og gekk Guðríður þá að eiga bróður Leifs, Þorstein. Hann féll líka frá eftir stutta sambúð, og giftist Guðríður þá íslenskum farmanni, Skagfirðingnum Þorfinni Karlsefni Þórðarsyni, og ákváðu þau með hópi manna að halda vestur um haf.

Þau Þorfinnur bjuggu í þrjú ár í Vesturheimi, líklega lengst af í Leifsbúðum, sem fundist hafa á Nýfundnalandi (L'Anse aux Meadows), en könnuðu líka lönd í suðri, ef til vill á Manhattan-eyju. Sonur þeirra, Snorri, fæddist árið 1004. En ófriður var af frumbyggjum, svo að þau hættu við landnám. Þau brugðu sér fyrst í verslunarferð til Noregs og settust síðan að í Glaumbæ í Skagafirði. Eftir að Þorfinnur lést fór Guðríður í pílagrímsferð til Rómar, og hefur líklega verið þar árið 1027, þegar ítalski aðalsmaðurinn Jóhannes XIX. (Romano di Tusculo) var páfi. Hafi hún hitt páfa að máli, eins og margir pílagrímar gerðu, þá hefur þessi víðförlasta kona heims haft frá mörgu að segja. Á efri dögum gerðist Guðríður einsetukona og lést á Íslandi um 1050. Væri ekki ráð að endurskíra sögurnar tvær eftir henni?

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is