Guðmundur Guðmundsson
Guðmundur Guðmundsson
Eftir Guðmund Guðmundsson: "Bólusetningar eru einhver mesti sigur vísindanna yfir mörgum hræðilegustu sjúkdómum mannkynsins."
Morgunblaðið birti þann 29. júní sl. (bls. 20-21) grein gegn bólusetningum eftir helstu samsæriskenningasmiði landsins á þeim vettvangi. Það er mikill ábyrgðarhluti að birta þá glórulausu þvælu sem þar er borin á borð og á ekki við nokkur rök að styðjast. Það væri e.t.v. réttast að vekja ekki frekari athygli á þessum þvættingi, en það gengur ekki að láta svona rugl óátalið. Það er ekki nokkur leið að hrekja allt það sem staðhæft er í greininni vegna plássleysis, en allt sem í henni er byggist ýmist á hrapallegum misskilningi eða hreinum og klárum lygum. Hér verða aðeins teknar fyrir nokkrar staðhæfingar af handahófi, en jafnframt minnt á að annað en það sem hér er talið úr greininni er undir sömu sökina selt.

Staðleysa nr. 1

Því er haldið fram að heilbrigðisyfirvöld hérlendis feli beinlínis upplýsingar um innihald og aukaverkanir bóluefna. Hið sanna er að á t.d. vefsíðu Lyfjastofnunar og fjölda annarra íslenskra vefsíðna er að finna innihaldslista allra lyfja sem eru löglega seld á Íslandi, þ.m.t. bóluefna. Jafnframt geta allir fengið upplýsingar um innihald, verkun og mögulegar aukaverkanir bóluefna hjá heilbrigðisstarfsfólki, sé eftir því leitað, þegar farið er í bólusetningu.

Staðleysa nr. 2

Reynt er að gera HPV (e. Human Papiloma Virus) bóluefni tortryggileg með hreinum lygum og hræðsluáróðri. Staðhæft er að í þessum bóluefnum sé sæðisdrepandi efni (Octoxynol-10) sem valdi ófrjósemi. Hið rétta er að í HPV-bóluefnunum er ekkert Octoxynol-10, en væri það til staðar væri það í svo litlu magni að það er útilokað að það hefði minnstu áhrif á frjósemi. Einnig er nefnt hið hryllilega efni squalen, sem er ekki heldur í þessum bóluefnum og ruglað saman alls óskyldum efnum. Squalen er hins vegar hin mesta heilsubót og finnst m.a. í hákarlalýsi sem Íslendingar hafa drukkið öldum saman sér til heilsueflingar og ekki orðið meint af svo vitað sé.

Staðleysa nr. 3

Staðhæft er að áhætta á að fá insúlínháða sykursýki (sykursýki 1) sé 88% hærri eftir MMR-bólusetningu (bóluefni gegn hettusótt, mislingum og rauðum hundum). Þessu til stuðnings er vitnað í grein í „læknatímariti“, en heimildarinnar ekki getið að öðru leyti en því að gefa heiti tímaritsins ( Open Pediatr. Med. J. ). Ég gróf upp þessa heimild ( Open Pediatr. Med. J . (2008); 2:1-6) og þar kemur í ljós að höfundur hennar, John Barthelow Classen, er þekktur andstæðingur bólusetninga og rugludallur. Hann byggir allan sinn málflutning á rottutilraunum sem hann gerði árið 1996, en aldrei hefur nokkrum manni tekist að endurtaka tilraunir hans. Hér slá því afneitunarsinnarnir fram staðhæfingu, sem er tómt bull, í nafni læknavísindanna.

Staðleysa nr. 4

Enn á ný er dregin fram sú margafsannaða staðhæfing að MMR-bólusetning valdi einhverfu. Þetta hefur verið hrakið svo oft og svo rækilega að óyggjandi telst. Uppruna þessarar þráhyggju má rekja til ársins 1998 þegar breski iðralæknirinn Andrew J. Wakefield birti falsaðar rannsóknaniðurstöður í einu helsta læknisfræðitímariti heims, The Lancet. Greinin sú var dregin til baka og Wakefield sviptur læknisleyfinu, enda leikurinn hjá honum gerður til þess að hagnast á málaferlum gegn bóluefnaframleiðendum.

Staðleysa nr. 5

Spurt er: „Hefur þú aldrei furðað þig á því hvernig standi á því að svona mörg börn séu með hnetuofnæmi?“ Ekki stendur á svarinu – það er jarðhnetuolía í bóluefnum! Hið sanna er að jarðhnetuolía hefur aldrei verið notuð í bóluefni. Á 6. áratug liðinnar aldar voru hins vegar gerðar rannsóknir á því hvort mögulegt væri að nota olíuna til þess arna. Í ljós kom að svo var ekki en það kemur þó ekki í veg fyrir að slíku sé haldið á lofti til að hræða og afvegaleiða fólk.

Bólusetningar bjarga

Bólusetningar eru einhver mesti sigur vísindanna yfir mörgum hræðilegustu sjúkdómum sem hrjáð hafa mannkyn frá örófi alda. Fyrir tíma bólusetninga létust milljónir á milljónir ofan af sjúkdómum sem við þekkjum nánast orðið bara af afspurn. Það er skelfilegt til þess að hugsa að samsæriskenningasmiðir og illa upplýstir einstaklingar haldi því á lofti að eitthvað sé athugavert við bólusetningar. Auðvitað geta aukaverkanir fylgt bólusetningum rétt eins og öðrum læknisaðgerðum og ekki skal gert lítið úr því. Lausnin felst samt ekki í því að hætta bólusetningum heldur að afla frekari vitneskju og þróa og bæta bóluefnin. Lygaþvættingur og hálfsannleikur hjálpar engum í þeirri vegferð.

Höfundur er sameindalíffræðingur, PhD.