Boðað var til alþingiskosninga laugardaginn 25. apríl 2009 eftir bankahrun og búsáhaldabyltingu. Sprengju var kastað í kosningabaráttuna 7.

Boðað var til alþingiskosninga laugardaginn 25. apríl 2009 eftir bankahrun og búsáhaldabyltingu. Sprengju var kastað í kosningabaráttuna 7. apríl þegar Stöð tvö birti frétt um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði árið 2006 þegið 30 milljóna króna styrk frá FL-Group, sem þá var undir stjórn Hannesar Smárasonar, en Jón Ásgeir Jóhannesson tók þar síðar við búsforráðum. Uppnám varð í Sjálfstæðisflokknum og framkvæmdastjóri flokksins vék.

Í öllu írafárinu spurði enginn hver hefði lekið. Sá varð að hafa séð skjöl FL-Group, eftir að nýir stjórnendur tóku við, eiga aðgang að Stöð tvö og vilja í þriðja lagi greiða Sjálfstæðisflokknum þungt högg og hugsanlega um leið koma sér í mjúkinn hjá nýjum valdhöfum.

Sjálfstæðisflokkurinn flýtti sér að upplýsa að árið 2006 hefðu þau framlög frá fyrirtækjum, sem hærri voru en ein milljón, samtals numið 81 milljón króna. Í Morgunblaðinu 11. apríl sagðist Samfylkingin hafa árið 2006 fengið samtals 36 milljónir frá fyrirtækjum.

Með þessar upplýsingar gengu menn inn í kjörklefana og veittu Sjálfstæðisflokknum að vonum ærlega ráðningu. Ríkisendurskoðun krafði síðan flokkana um gögn, sem birt voru á heimasíðu stofnunarinnar í janúar 2010, og þá kom í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn hafði árið 2006 fengið samtals 104 milljónir frá fyrirtækjum. Þessi tala rímar við hina fyrri, því að 23 milljónir kunna að hafa verið samtals smærri framlög en ein milljón. En þá kom líka í ljós að árið 2006 hafði Samfylkingin fengið 102 milljónir samtals frá fyrirtækjum, ekki 36 milljónir, eins og sagt hafði verið fyrir kosningar. Var fjórðungurinn, 24,5 milljónir, frá fyrirtækjum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

Nú voru kosningar hins vegar löngu liðnar og Samfylkingin í stjórn eftir vænan kosningasigur. Fáir veittu þessu athygli, og enginn vék úr starfi. Formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar frá mars 2009 fram í febrúar 2013 var Margrét S. Björnsdóttir, sem skipulagt hefur framhaldsnám í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands. Hún hefur nóg að kenna nemendum þar um klækjastjórnmál.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is