Möggubrá Margrét Frímannsdóttir fyrir framan svokallaða Möggubrá sem er glæsilegt sumarblóm. Nú er tíma sumarblóma að ljúka og við tekur tími runna og trjáa sem Margrét og Gróðrarstöðin vita allt um.
Möggubrá Margrét Frímannsdóttir fyrir framan svokallaða Möggubrá sem er glæsilegt sumarblóm. Nú er tíma sumarblóma að ljúka og við tekur tími runna og trjáa sem Margrét og Gróðrarstöðin vita allt um. — Morgunblaðið/Þórður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Benedikt Bóas benedikt@mbl.is Margrét Frímannsdóttir, fv. þingkona og forstöðumaður Litla-Hrauns og Sogns, byrjaði að vinna hjá Gróðrarstöðinni Storð í Kópavogi í mars síðastliðnum.

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

Margrét Frímannsdóttir, fv. þingkona og forstöðumaður Litla-Hrauns og Sogns, byrjaði að vinna hjá Gróðrarstöðinni Storð í Kópavogi í mars síðastliðnum. Margrét er kunn fyrir áhuga sinn á garðyrkju og fór stundum þegar hún var á þingi til vinnu hjá Gróðrarstöð Ingibjargar í Hveragerði til að kúpla sig út, eins og hún segir sjálf.

„Þetta er allt annað en það sem ég hef verið að gera. Ég var búin að vera í stjórnmálum og stjórnunarstöðum í yfir 30 ár og mér fannst kominn tími á að hætta og gera eitthvað annað. Horfa öðruvísi á lífið og ég sé ekki eftir því. Þótt það hafi verið frábært að vinna bæði á Litla-Hrauni og Sogni, með því frábæra starfsfólki sem er þar, þá taka þau störf sinn toll,“ segir hún.

Margrét er ekki menntuð í garðyrkju en það þarf ekki að tala lengi við hana um plöntur, garða eða runna til að heyra að hún veit hvað hún syngur. „Hún veit oft miklu meira en við garðyrkjufræðingarnir,“ segir samstarfskona hennar sem gengur inn í kaffistofu Storðs.

Sé alltaf eitthvað nýtt

„Ef ég væri aðeins yngri myndi ég skella mér í Garðyrkjuskólann þó að það sé mjög góður skóli að vinna hér,“ segir Margrét. „Hér fær maður góða leiðsögn. Eftir vinnu fer ég heim í garðinn minn.

Ég sé alltaf eitthvað nýtt á hverju sumri sem hægt er að prófa eða gera. Maður er alltaf að búa til pláss, færa til og grúska. Svo skoða ég mikið, eins og í Lystigarðinum á Akureyri eða hér á höfuðborgarsvæðinu, og einnig frælista og jafnvel panta að utan. Það er alltaf jafnspennandi að sjá hvað lifir á vorin og hvernig hefur til tekist.“

Notaleg tilfinning

Margrét segist hlakka til að mæta til vinnu á hverjum degi og vakna upp með bros á vör. Áhugamálið sé orðið að vinnu og ábyrgðin sé minni en áður. Þá sé tíminn sem hún geti nú nýtt með fjölskyldunni dýrmætur. „Þetta er ofboðslega notaleg tilfinning. Ég ræð mér sjálf og get núna sinnt börnum og barnabörnum og fjölskyldunni mun meira en áður.“

Leggja metnað sinn í vöruna

„Við erum heppin með það að íslenskir garðyrkjubændur eru frábærir. Þeir rækta góðar plöntur og eru ekki að selja fólki neitt rusl. Yfir höfuð þá eru garðyrkjubændur mjög vandaðir og leggja metnað sinn í vöruna. Ég þekki vel til og það er metnaður að skila frá sér fyrsta flokks vinnu, það er enginn afsláttur af því,“ segir Margrét sem líkar vel að vinna í Gróðrarstöðinni Storð. „Hér er gott að vinna og ég held að gróðrarstöð sé góður vinnustaður. Það eru engin illindi hér. Það er tilhlökkun að mæta til vinnu á hverjum degi og ég er að gera núna það sem mér finnst skemmtilegast. Það er heilmikil líkamsrækt að vinna í gróðrarstöð því það er alltaf eitthvað að gera, hvort sem það er að hlaupa um eða bera þung tré. Það er alltaf hægt að finna sér eitthvað að gera.“