Þór Steinberg Pálsson fæddist á Ljósstöðum í þorpinu á Akureyri 30. ágúst 1933. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 29. júní 2016.

Foreldrar hans voru Páll Friðfinnsson, f. 9.9. 1906, d. 22.8. 2000, og Anna Ólafsdóttir, f. 25.10. 1912, d. 21.6. 2003. Systkini Steinbergs voru fimm; Björgvin, Ólöf, Tryggvi, Bragi, og Friðfinnur.

Árið 1955 giftist Steinberg Hrefnu Sigursteinsdóttur og eiga þau saman börnin Sigurstein, Ástu og Björgvin. Barnabörnin urðu átta og barnabarnabörnin eru orðin sautján.

Steinberg fór ungur að vinna við smíðar hjá föður sínum. Hann fór í gamla Iðnskólann á Akureyri og útskrifaðist þaðan sem byggingameistari. Hann vann alla sína tíð í byggingarvinnu og stofnaði og rak m.a. byggingafélagið Smárann hf. með nokkrum félögum sínum. Eitt af verkum Steinbergs var bygging á Kringlumýri 21 þar sem hann bjó með fjölskyldu sinni frá árinu 1960 til dauðadags. Á eldri árum sinnti Steinberg áhugamálum sínum af miklu kappi. Ber þar helst að nefna störf hans fyrir Harmonikkufélag Eyjafjarðar.

Útför Steinbergs hefur farið fram.

Það er sárt að hugsa til þess að geta ekki spjallað við afa framar þegar ég kem við í Kringlumýrinni. Afi var málglaður maður og hafði gaman af því að segja frá því sem hann hafði upplifað um ævina. Hann var afskaplega stoltur af því að vera uppalinn þorpari og var því mjög ánægður í Kringlumýrinni, þaðan sem hann sá yfir bæði fæðingarstað sinn, Ljósstaði og Sólvelli, þar sem hann ólst upp.

Afi var líka stoltur af því að vera Þórsari þrátt fyrir að hafa ekki mikið mætt á völlinn, en hann var skírður í höfuðið á Íþróttafélaginu Þór og hafði gaman af að segja frá því. Honum þótti því ánægjulegt þegar börnin mín fóru að spila fótbolta með Þór. Fræddi þau um að hann hefði einnig spilað með Þór og að völlurinn hefði þá verið þar sem súkkulaðiverksmiðjan Linda var seinna byggð. Afi var alltaf mjög ánægður með sitt og sína og sýndi afkomendum sínum mikinn áhuga. Hann vildi upplýsingar um ganginn í boltanum, tónlistarnámið og allt sem hver og einn var að bralla þá stundina.

Áhugamálin hans afa voru mörg og var eitt þeirra að ferðast um landið á húsbílnum sínum sem hann útbjó sjálfur. Ég á margar góðar minningar úr slíkum ferðalögum með afa, en hann var mjög duglegur að ferðast með okkur, barnabörn sín. Hann var mjög fróður um landið og fór yfir hvern krók og kima með okkur við undirspil harmonikkutónlistar af kassettu. Hugsanlega er ástæða þess að ég man svona vel eftir þessum ferðum sú að afi nýtti hvert tækifæri til þess að draga fram myndavélina, en hann var líka mikill ljósmyndaáhugamaður. Það er því til mikill myndafjársjóður í Kringlumýrinni sem er gaman að fletta í gegnum og eru ófáar myndirnar úr þessum eftirminnilegu ferðalögum.

Afi var yndislegur maður sem gaf mikið af sér og hugsaði vel um sitt fólk. Hann var maðurinn sem var alltaf tilbúinn til þess að redda málunum og aðstoða. Þrátt fyrir að hafa þurft að glíma við veikindi í mörg ár var hann alltaf ákveðinn, orkumikill og tók þetta á jákvæðninni. Ég var því nánast farin að trúa því að hann yrði eilífur. Mér finnst þessi jákvæðni og baráttuvilji virðingarverður og tek þetta með mér út í lífið ásamt mörgu öðru góðu frá honum afa mínum.

Takk fyrir allt, afi minn, við sjáumst síðar.

Anna María Ingþórsdóttir.