Myndlist Listakonan Guðrún Tryggvadóttir heiðrar formæður sínar.
Myndlist Listakonan Guðrún Tryggvadóttir heiðrar formæður sínar.
Guðrún Tryggvadóttir myndlistarkona opnar sýningu sína Dalablóð í Ólafsdal í dag klukkan 14:00. Á sýningunni „Dalablóð“ fjallar Guðrún um formæður sínar í beinan kvenlegg, þær sem fæddust og bjuggu í Dalasýslu og hinar sem fluttust suður.

Guðrún Tryggvadóttir myndlistarkona opnar sýningu sína Dalablóð í Ólafsdal í dag klukkan 14:00. Á sýningunni „Dalablóð“ fjallar Guðrún um formæður sínar í beinan kvenlegg, þær sem fæddust og bjuggu í Dalasýslu og hinar sem fluttust suður. Samtals ellefu kynslóðir. Markmið Guðrúnar er að tengjast formæðrum sínum, endurskapa þær með því að mála þær og gefa þeim þannig möguleika á að hittast án þess að tíminn geti skilið þær að. Leyfa þeim að horfast í augu og skoða hvað þær eiga sameiginlegt og hvað jarðneskt líf snýst raunverulega um.

„Á undanförnum mánuðum og árum hef ég unnið að verkum sem fjalla um fjórðu víddina, tímann, birtingarmynd hans, tölfræðilegar staðreyndir í endurnýjun kynslóðanna og þau mynstur sem þær framkalla,“ segir Guðrún í tilkynningu sem hún sendi frá sér fyrir sýninguna. Þá segist hún hafa þurft að leita leiða til að sjá tímann á nýjan hátt, tengja hann sjálfri sér og þar með öllu mannkyni. Um leið er hún að rannsaka innbyrðis tengsl kynslóðanna, þynningu erfðamengisins og minningar sem við berum í okkur frá einni kynslóð til annarrar og hugsanleg áhrif þeirra á okkar líf.

Afrakstur þessa tímaflakks verður að sjá í sex herbergjum á 2. hæð skólahússins í Ólafsdal.