Fugl viskunnar tekur sig ekki á loft, fyrr en rökkva tekur, skrifaði Hegel í Réttarspeki sinni 1821. Hann átti við, að okkur verður sjaldnast ljóst sögulegt gildi og samhengi viðburða, fyrr en nokkuð er um liðið.

Fugl viskunnar tekur sig ekki á loft, fyrr en rökkva tekur, skrifaði Hegel í Réttarspeki sinni 1821. Hann átti við, að okkur verður sjaldnast ljóst sögulegt gildi og samhengi viðburða, fyrr en nokkuð er um liðið. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er lífið þó umfram allt saltfiskur, en ekki draumaringl, mælti Salka Valka í samnefndri skáldsögu Laxness 1932. Hvort sem skáldið var sammála þessari söguhetju sinni eða ekki, hefur sjávarútvegur lengi verið undirstöðuatvinnuvegur Íslendinga. Hér staldra ég við fjögur ártöl, 1876, 1976, 2006 og 2008.

Þótt fáir hafi veitt því athygli, er eitt merkilegasta ár Íslandssögunnar eflaust 1876, því að það var síðasta árið, þegar meira var flutt út af landbúnaðarafurðum en fiski. Eftir það breyttust Íslendingar í fiskveiðiþjóð. Vistarbandið rofnaði, kapítalismi kom til sögunnar með öllum sínum sköpunarkrafti, fólk flykktist á mölina.

Þótt tilviljun sé, var tímamótaár réttri öld seinna, 1976, þegar síðustu bresku togararnir sigldu út af Íslandsmiðum, en fyrsta skráða dæmið um sókn enskra fiskiskipa hingað er úr Nýja annál frá 1412. Fram að útfærslu fiskveiðilögsögunnar lönduðu erlend fiskiskip helmingi aflans af Íslandsmiðum.

Ísland á nokkra granna, Noreg, Bretland, Bandaríkin. En eini raunverulegi nágranninn er sjálfur sjórinn, Ægir konungur. Hann veitti ekki aðeins björg í bú, heldur girti líka af landið. Bjarni Benediktsson, þá utanríkisráðherra, benti hins vegar á það í frægri ræðu 1949, að þessi gamla vernd, fjarlægðin, væri úr sögunni vegna nýrrar tækni. Breski flotinn og bandaríski flugherinn, síðar bandaríski flotinn, komu því í stað Ægis konungs frá því löngu fyrir 1940, þegar Bretar hernámu Ísland, og allt til 2006, þegar Bandaríkjaher hvarf frá Íslandi án þess að kveðja eða þakka fyrir sig.

Nú er Ísland án verndar. En tilveran leggur líkn með þraut. Eitt ánægjulegasta árið í Ægis sögu konungs og Íslendinga er 2008. Það var fyrsta árið, líklega frá öndverðu, þegar ekki fórst neinn íslenskur sjómaður við vinnu sína.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is