Vegagerð Nýr vegur kemur frá Fnjóskárbrú að gangamunnanum. Unnið er í fyllingum undir væntanlegan veg.
Vegagerð Nýr vegur kemur frá Fnjóskárbrú að gangamunnanum. Unnið er í fyllingum undir væntanlegan veg. — Ljósmynd/Valgeir Bergmann
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Starfsmenn Ósafls eru enn að grafa sig í gegnum misgengissprunguna við Fnjóskadalsstafn Vaðlaheiðarganga en þar lekur vatn inn í göngin.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Starfsmenn Ósafls eru enn að grafa sig í gegnum misgengissprunguna við Fnjóskadalsstafn Vaðlaheiðarganga en þar lekur vatn inn í göngin. Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, reiknar með að hægt verði að hefja hefðbundinn gangagröft þeim megin seinni hluta ágústmánaðar.

Vinna í misgenginu

Á meðan gangagröfurinn Eyjafjarðarmegin gengur sinn vanagang er talsvert um að vera Fnjóskadalsmegin. Verktakinn er að vinna sig í gegnum misgengissprunguna sem valdið hefur miklum töfum á gangagreftrinum. Valgeir áætlar að þeir séu búnir með um fimm metra af fimmtán. Lausu efni er mokað í burtu, loft og veggir styrktir með steypu og grind, til varnar því að meira efni komi niður. Þetta er gert varlega af öryggisástæðum.

Þegar starfsmennirnir verða aftur komnir í fast berg verður hægt að taka þráðinn upp frá því sem frá var horfið um miðjan apríl 2014 þegar vatn fór að fossa úr misgengissprungunni. Reiknar hann með því að það verði seinnihluta ágústmánaðar.

Skeringar og fyllingar

Nú vinna verktakar einnig að því að byggja upp nýjan veg frá Fnjóskárbrú að gangamunnanum. Það kallar á heilmiklar skeringar og fyllingar og tilheyrandi tilflutning á efni. Í þessum áfanga verður aðeins unnið við undirlag vegarins, hann verður ekki tengdur við hringveginn að sinni.

Miklir haugar af efni sem ekið hefur verið úr göngunum setja svip á umhverfið. Við það mun vonandi bætast mikið efni þegar gangagröftur kemst aftur á skrið. Valgeir segir að jafnað verði meira úr efninu, meðal annars í hvilft sem er við innkeyrsluna að gamla barnaskólanum á Skógum.

Starfsmenn verktakans sem vinnur að verkefninu í Fnjóskadal eru í löngu fríi um verslunarmannahelgina. Erlenda gangagengið sem borar og sprengir frá Eyjafirði vinnur allan sólarhringinn, eins og verið hefur.