Lilja Oddsdóttir
Lilja Oddsdóttir
Eftir Lilju Oddsdóttur: "Bæði jörðin og maðurinn eru í heilsukreppu vegna lággæðafæðis. Það er tími til að horfa á aðrar lausnir. Að kenna fólki að lifa heilbrigðara lífi."

Bæði jörðin og maðurinn eru í heilsukreppu og nýjustu sjúkdómsfaraldrar, samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, eru lífsstílssjúkdómar. Útfrá sjónarhóli náttúrulækninga og græðara má glögglega sjá að einn aðalorsakavaldurinn er lággæðafæði sem allsnægtaþjóðfélagið býður upp á. Það er tilbúin, næringarsnauð og ónáttúruleg fæða, oftar en ekki hlaðin aukaefnum. Annar lífsstílsvandi er áhersla á lausnir með dýrum lækningum og dýrum lyfjum.

Dæmi um lággæðafæðuna er morgunkorn af ýmsum gerðum, unnar mjólkurvörur, brauð, kex og drykkir í flöskum eða fernum. Í slíkri fæðu er viðbættur sykur í margskonar útgáfum með misjöfnum heitum, sem ruglar fólk í ríminu sem vill reyna að skoða og skilja innihald þess sem það borðar. En þó svo upplýsingar um óhollustuna megi sjá víða, meðal annars á síðu Landlæknis, þá virðist almenningur oft og tíðum týndur í upplýsingaflæðinu. Framboðið á lággæðavöru er þar að auki svo mikið og aðgengilegt. Næringarsnauða og efnaviðbætta fæðið er oft ódýrara og hægt að fá meira magn af pakkamat en af grænmeti og ávöxtum, fyrir sama pening. Unga fólkið er í sérstakri áhættu með að falla fyrir lággæðafæðinu vegna verðlagsins og bragðsins.

Taugasérfræðingurinn Gomez-Pinilla birti samantekt úr tugum rannsókna sem sýndu fram á neikvæð áhrif af lélegu fæði á taugakerfið, meðal annars á heilastarfsemi, og mikilvægi góðrar næringar. Fram kom að fitusýrur komi í veg fyrir einbeitingarskort og styrktu minni auk þess að draga úr líkum á þunglyndi og öðrum geðrænum vandamálum. Neytendur lággæðafæðu og skyndibita eiga á hættu að fá ekki næga næringu. Þó þú fyllir magann og seðjir bragðlaukana þá uppfyllir þú ekki næringarþörfina og líkaminn kallar eftir meira magni af fæðu en áður.

Dr. Aseem Malhotra, hjartalæknir, hélt nýlega fyrirlestur hér á landi og fjallaði um skaðsemi sykurs og ábyrgð stjórnvalda. Sykurinn er hinn mesti skaðvaldur fyrir hjarta og æðakerfi en ekki hörð fita eins og lengi hefur verið haldið fram. Í máli hans kom fram að á meðan hundrað krónum er varið til forvarna er um fimm hundruð þúsund krónum eytt í að kynna og auglýsa sykurinn og ruslfæðið. Dr. Aseem vann að því að fá yfirvöld í Bretlandi til að leggja aukinn skatt á sykur til að draga úr neyslunni. Á Íslandi hafa skattar á sykur og sykraðar vörur verið lækkaðir. Sívaxandi heilsuleysi og sjúkdómar eru afleiðing af lífsstíl og stjórnarháttum og þjóðfélagi sem tekur þátt í, og samþykkir, að fæðan sem er í boði sé samansett efnasúpa, hlaðin sykri, sætuefnum og aukefnum – þjóðfélag sem styður að verslanir séu uppfullar af eftirlíkingum af mat. Það eru líka sjálfsalar með sælgæti og gosdrykkjum á sjúkrahúsum þar sem afleiðingar lággæðafæðunnar blasa við okkur. Að halda að sífellt meira fé í leit að nýjum lyfjum og meiri lyfjum sé lausn, eru ranghugmyndir. Lyf við lífsstílssjúkdómum eru mjög skammsýn lausn. Lyfjaiðnaður er einn eftirsóttasti iðnaður nú til dags vegna gróðans sem hann gefur. Það virðist vera auðvelt með hjálp vísindanna að selja heilbrigðisyfirvöldum þá hugmynd að hin og þessi lyf séu nauðsynleg til að bjarga heilsunni.

Það er löngu kominn tími til að horfa á aðrar lausnir, einfaldar lausnir og ódýrar, án eiturefna: Að kenna fólki að lifa heilbrigðara lífi. Þannig getum við sparað þjóðfélaginu dýra læknisþjónustu. Stjórnvöld gætu einnig hjálpað almenningi með því að minnka framboð og aðgengi að lággæðafæðu, alveg eins og gert er við tóbak. Sykurinn er nýjasta fíknin, hann veikir börnin okkar, unglinga og fullorðna og fólk verður ekki aðeins líkamlega veikt af sykri og lággæðafæði, heldur einnig andlega. Auknar skattatekjur af sykri og ruslfæði mætti nota til að efla fræðslu og forvarnir.

Höfundur er skólastjórnandi Heilsumeistaraskólans og skráður græðari.