Eyðilegging Myndin er sögð tekin skömmu eftir árásina og sýnir m.a. skemmdir á sjúkrahúsinu og fólk þar við.
Eyðilegging Myndin er sögð tekin skömmu eftir árásina og sýnir m.a. skemmdir á sjúkrahúsinu og fólk þar við. — AFP
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is „Þetta er eina sjúkrahúsið sem sérhæfir sig í fæðingum og umönnun barna í norðvesturhluta Idlib. Tilkynnt hefur verið um mannfall og bíðum við eftir staðfestum tölum.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Þetta er eina sjúkrahúsið sem sérhæfir sig í fæðingum og umönnun barna í norðvesturhluta Idlib. Tilkynnt hefur verið um mannfall og bíðum við eftir staðfestum tölum.“

Svona hljómar tilkynning Barnaheilla þar sem greint er frá loftárás sem gerð var á sjúkrahús í Sýrlandi í gær. Fregnir af mannfalli voru mjög óljósar í gær, en minnst tveir voru þá sagðir látnir og nokkrir særðir. Fréttaveita AFP segir sjúkrahúsbygginguna vera mikið skemmda.

Mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights segja sjúkrahúsið, sem er í bænum Kafar Takharim, vart starfhæft eftir ódæðið, en bærinn er í höndum uppreisnarmanna.

Vígamaður mögulegt skotmark

AFP greinir frá því, og vitnar til heimildarmanns sem ekki vildi koma fram undir nafni, að skotmark loftárásarinnar hafi verið vígamaður í íslamistahreyfingunni Jabhat Fateh al-Sham. Er sá sagður hafa verið að heimsækja konu sína og nýfætt barn þeirra á sjúkrahúsið.

„Það var hann sem var skotmarkið. Hann var að hitta konuna sína, sem var nýbúin að eignast barn, þegar sprengjurnar féllu,“ segir áðurnefndur heimildarmaður við AFP .

Fram til þessa hafa starfsmenn sjúkrahússins veitt íbúum á svæðinu mikilvæga þjónustu, en í hverjum mánuði hafa komið þangað um 1.300 konur og fæðast þar um 300 börn.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem sjúkrahús verður fyrir sprengjuregni í Sýrlandi. Þannig skemmdust t.a.m. fjögur minni sjúkrahús og blóðbanki á einum sólarhring í borginni Aleppo, stærstu borg landsins.

Vígamenn Ríkis íslams lögðu nýverið undir sig þorpið Buyir í norðurhluta Sýrlands. Voru í kjölfarið minnst 24 almennir borgarar þar teknir af lífi. Buyir er um 10 kílómetra norðvestur af borginni Manbij, sem hefur verið á valdi Ríkis íslams undanfarin ár. Borgin er nú umkringd sýrlenskum hersveitum og geisa þar harðir bardagar.