Alma Ásbjarnardóttir fæddist 10. mars 1926 í Reykjavík. Hún lést 18. júlí 2016 á Hrafnistu í Reykjavík, 90 ára að aldri.

Foreldrar hennar voru: Ásbjörn Ó. Jónsson, málarameistari í Reykjavík, f. 20. júlí 1901 í Innri-Njarðvík, d. 23. apríl 1967, og Petrína Guðmundsdóttir, húsfreyja, f. 13. júní 1908 í Reykjavík, d. 14. maí 1938. Alma var elst fjögurra systkina, þau eru: Bragi, f. 2. maí 1929, Þorbjörg Helga, f. 25. maí 1932, d. 15. janúar 2002, og Gyða, f. 8. desember 1935. Hálfsystir samfeðra er Helga Jóna, f. 27. júlí 1943.

31. maí 1947 giftist Alma Páli Magnússyni, flugmanni í Reykjavík, f. 27. september 1924 í Vestmannaeyjum, fórst í flugslysi í Englandi 12. apríl 1951. Börn þeirra: 1) Herdís Petrína, fv. ritari, f. 10. nóvember 1947, gift Braga Bjarnasyni, fv. bifreiðarstjóra. Þeirra börn: Páll, Bjarni, Alma Birna og Magnús Björn. Barnabörnin eru níu. 2) Magnús, húsasmíðameistari, f. 2. ágúst 1949. Var giftur Ingibjörgu Guðmundsdóttur, fv. skólameistara. Þau skildu. Þeirra synir: Guðmundur Páll og Guðjón, barnabörnin eru fimm.

Þann 8. desember 1951 giftist Alma seinni manni sínum, Sveinbirni Sveinbjörnssyni, presti og prófasti í Hruna, f. 9. desember 1916 á Ysta-Skála, V.- Eyjafjallahr., d. 22. nóvember 1996 í Reykjavík. Synir þeirra: 1) Sveinbjörn, lögmaður, f. 5. október 1952, giftur Rögnu Guðmundsdóttur, bókasafnsfræðingi. Þeirra börn: Sveinbjörn, Arndís og Jón Rúnar. Barnabörnin eru fimm. 2) Páll, húsasmíðameistari, f. 24. apríl 1955. Var giftur Erlu Ferdinandsdóttur. Þau skildu. Þeirra börn: Alma, Erna Helga, Smári og Birgir. Barnabörnin eru fjögur. Seinni kona Páls er Kristín Soffía Baldursdóttir, hjúkrunarfræðingur.

Alma stundaði nám í Verslunarskóla Íslands. Þá vann hún ýmis skrifstofustörf á Hótel Borg, Hótel Valhöll á Þingvöllum og í Háskóla Íslands allt þar til hún gerðist húsmóðir í Hruna.

Útför hennar hefur farið fram í kyrrþey.

Kallið er komið,

min er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(V. Briem)

Það var fallegur dagurinn sem hún Alma tengdamóðir mín valdi til að kveðja þetta líf. Hásumar, landið okkar og gróðurinn skartaði sínu fegursta, en það kunni hún svo vel að meta, borgarstúlkan sem varð húsmóðir á stóru prestssetri í einni fegurstu sveit landsins. Alma varð ung ekkja með tvö ung börn er fyrri maður hennar, Páll Magnússon, fórst í flugslysi. Seinni maður Ölmu var Sveinbjörn, tengdafaðir minn, og eignuðust þau tvo syni saman. Bjuggu þau myndarbúi að Hruna í Hrunamannahreppi þar sem Sveinbjörn var prestur og prófastur alla sína starfsævi. Alma tók mér einstaklega vel frá fyrstu kynnum. Minnist ég þess þegar ég kom fyrst heim að Hruna að þau hjónin stóðu á tröppunum ferðbúin á leiðinni á prestastefnu norður í land. Ölmu var nokkuð brugðið að sjá unga stúlku komna heim með syninum og var að vonum forvitin, en Sveinbjörn gaf henni það ekkert eftir og stoppaði ekki fyrr en á Húsavík, þar sem hún gat hringt í Dísu dóttur sína til að spyrja hverra manna þessi stúlka væri. Þarna kom ættfræðiáhugi Ölmu, sem var mikill, í ljós og var aldrei komið að tómum kofunum hjá henni í þeim efnum. Stundum fannst mér sem hún þekkti flestalla presta og lækna landsins, enda fylgdist hún vel með.

Í Hruna var gestkvæmt og gestrisni hjónanna mikil. Alma var með myndarlegri húsmæðrum og var hún alltaf að. Vaknaði fyrst allra og sofnaði síðust, iðulega endaði hún daginn í þvottahúsinu á að þvo stígvél feðganna eftir dagsverkin. Alma var valkyrja til verka, bakaði og saumaði og allt lék í höndunum á henni. Þegar við Bjössi byrjuðum að búa komu iðulega sendingar úr sveitinni fyrstu búskaparárin, rúmföt, lopapeysur, heimagerð kæfa, kökur og alls konar góðgæti, ekkert var of gott fyrir hennar fólk. Alma bar hag barna sinna og afkomenda mjög fyrir brjósti og hafði mikinn áhuga á og ánægju af að fylgjast með barnabörnunum og síðar langömmubörnunum. Eftir að þau hjónin fluttu frá Hruna til Reykjavíkur byggði fjölskyldan sér sumarbústað á Flúðum og þar undu þau vel hag sínum við gróðursetningu, sem gaf þeim mikið. Hin síðari ár dvaldi Alma á Hrafnistu, þar sem hún naut góðrar umönnunar starfsfólks og fjölskyldu sinnar. Heilsu hennar fór hrakandi síðustu tvö árin, en hún var alltaf jafn þakklát fyrir heimsóknir og umhyggju fólksins síns.

Alma var viljasterk kona og vildi hafa stjórn á hlutunum, eins og kom í ljós eftir andlátið þegar bréf skrifað fyrir tæpum 20 árum fannst í fórum hennar um tilhögun jarðarfarar hennar og var í öllu farið að þeim óskum. Að leiðarlokum vil ég þakka Ölmu samfylgdina í nær 40 ár og er afar þakklát fyrir tryggðina og umhyggjuna sem hún hefur sýnt okkur fjölskyldunni alla tíð. Megi hún hvíla í friði.

Ragna Guðmundsdóttir.

Þegar við systkinin settumst niður til að skrifa nokkur orð um ömmu okkar þá voru margar góðar minningar sem komu upp í hugann. Þær fyrstu eru úr Hruna, svo Stóragerði og síðar Brúnavegi. Amma vildi okkur sem og öllum alltaf vel, hún þreyttist ekki á því að spyrja hvort við værum svöng eða þyrst og þegar við höfðum borðað yfir okkur af kræsingunum hennar og gátum ekki meira, þá spurði hún oftar en ekki: „Er þetta vont“ Pönnukökurnar hennar ömmu voru í sérflokki, hvort sem var með sykri eða rjóma og ekki voru smákökurnar síðri. Hún hugsaði vel um sitt fólk og var með allt á hreinu sem í gangi var hverju sinni hjá okkur öllum.

Amma var mikill dýravinur og voru hún og Gutti sérstaklega góðir vinir, enda settist hann alltaf hjá ömmu við matarborðið. Einnig var hún mjög forvitin, sem kom vel fram í ættfræðinni sem átti hug hennar og voru tengingarnar á milli manna ófáar. Á síðustu árunum þegar fæturnir á ömmu voru ekki upp á sitt besta kom áhuginn á okkur systkinunum sér einnig vel, þar sem amma komst upp hina erfiðustu stiga í því eina skyni að líta á efri hæðirnar á heimilum okkar.

Elsku amma, þó það sé einstaklega sárt að kveðja þig erum við þó afar þakklát fyrir þann tíma sem við áttum með þér. Nú ertu loksins búin að hitta afa á ný og munum við varðveita allar góðu minningarnar um ykkur.

Sveinbjörn, Arndís og

Jón Rúnar.

Þá hefur hún Alma systir kvatt þessa jarðvist. Vist sem varð henni þungbær síðustu árin. Þá var gott að eiga góða að þar sem börnin hennar fjögur svo og aðrir afkomendur og tengdabörn komu til aðstoðar. Ung að árum varð hún að axla ábyrgð sem 12 ára börn eiga ekki að þurfa að ganga í gegnum. Að missa móður sína sem féll frá úr lungnabólgu 29 ára, og eftir stóðu fjögur börn og eiginmaður í sárum. Alma 12 ára, Bragi níu ára, Obba sex ára og ég tveggja ára. Þá þurfti þessi unga og samviskusama telpa að fullorðnast hratt. Hún tók mig mikið til að sér um tíma og var ég farin að kalla hana mömmu, sem hefur verið sorglegt útífrá að heyra.

Varð hún hægri hönd föður okkar um sinn. Þessi erfiða reynsla setti mark sitt á líf hennar. Svo önnur fáeinum árum seinna þegar hún missti fyrri manninn sinn í flugslysi frá tveimur ungum börnum. Ég svaf hjá henni og börnunum þann tíma sem leitað var að vélinni, en það voru sex erfiðir dagar.

En öll él styttir upp um síðir og giftist hún öðru sinni og bjó í sveit ein 35 ár. Þá kom sér vel að vera dugleg og skipulögð í prestsfrúarstörfunum sem urðu margvísleg, auk þess að sinna barnauppeldinu og búskapnum. Eitt áhugamál hafði hún sem var ættfræði og kom ósjaldan fyrir að hún spyrði hverra manna viðkomandi væri. Oft var gaman hvað hún gat rakið ættir langt aftur. Börnin hennar hafa erft dugnað hennar og ýmsa hæfileika. Ég vil að lokum þakka henni systur minni samfylgdina og mun ég geyma vel bréfin sem hún sendi mér ungri sveitastelpu, þar sem hún leggur mér lífsreglurnar með móðurlegri umhyggju sem ég hef vonandi nýtt mér vel í lífsins ólgusjó.

Takk, systir mín, og farðu í guðs friði.

Gyða.

Nú þegar amma okkar er látin koma margar minningar upp í hugann. Amma lifði tímana tvenna, var elst fjögurra systkina en missti móður sína þegar hún var einungis 12 ára gömul. Móður hennar hafði dreymt fyrir andláti sínu og bað hún ömmu um að hugsa vel um systkini sín og tók hún strax mikla ábyrgð. Amma giftist fyrri manni sínum, Páli, afa okkar, 1947 en missti hann í flugslysi fjórum árum síðar, þá með tvö lítil börn, mömmu og Magga. Það var gæfa að hún kynntist afa Sveinbirni og flutti að Hruna, þar sem hann var prestur, og gekk hann börnunum í föðurstað. Amma og afi eignuðust síðan tvo syni, Bjössa og Palla.

Þegar við eldri systkinin vorum lítil var farið mjög oft í sveitina hvort sem var í sauðburð, heyskap, réttir, sláturgerð eða bara í heimsókn. Það var ýmislegt hægt að bralla í sveitinni, farið í gönguferð, gefa krumma afganga, kíkja á fallega leiðið í kirkjugarðinum, klifra í trjánum og þegar hægt var að hafa eitthvað gagn af okkur þá hjálpuðum við til. Það var ósjaldan að við vorum kölluð að eldhúsglugganum eða hreinlega runnum á lyktina utan af hlaði og okkur voru réttar heitar nýbakaðar pönnukökur út um gluggann. Svo var eftirsóknarvert að fá að fara með í verslunarferð að Grund á Flúðum því það var nánast öruggt að afi og amma buðu okkur krökkunum upp á ískalt gos og súkkulaði meðan þau fóru inn að versla og spjalla við sveitungana. Amma var hörku kokkur og bakari og átti oft birgðir af jólasmákökum í köldu kjallarageymslunni langt fram á sumar, sem kom sér vel fyrir okkur, því það var freistandi að laumast í kökurnar t.d. áður en farið var um túnið til að líta eftir kindunum í sauðburðinum. Það skipti engu máli hve vel amma faldi kökurnar, þær fundust alltaf að lokum. Um leið og farið var í geymsluna var ekki hægt að sleppa því að taka hressilega á gömlu rjómaskilvindunni og skilja hana svo eftir á fullum snúningi svo innréttingin nötraði.

Eftir að amma og afi fluttu í bæinn voru ófáar ferðirnar í Stóragerðið þar sem þau áttu heima. Amma átti nær undantekningarlaust eitthvað sætt fyrir okkur barnabörnin og síðar barnbarnabörnin og var það henni mikið kappsmál að enginn færi svangur frá henni. „Má ekki bjóða þér eitthvað?“ var hún vön að segja. Meðan hún hafði heilsu til þá átti hún pönnukökur og þegar hún gat ekki lengur bakað vildi hún alltaf eiga einhvers konar sætindi.

Amma var ákveðin kona af gamla skólanum. Hún hafði mikinn áhuga á ættfræði og spurði nær alltaf hverra manna fólk var og oftar en ekki þá gat hún rakið ættir viðkomandi eða fundið tengingu. Það gat verið beinlínis tafsamt að kynna hana nýju fólki því hún þurfti svo mikið að fá að vita um bakgrunn þess.

Jæja, amma, nú þegar þú ert komin til afa, sem er búinn að bíða í 20 ár, vonum við að þú sért komin með fulla sjón og hafir það sem allra best. Sjáumst síðar!

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Góða nótt.

Páll, Bjarni, Alma Birna og Magnús Björn.