Stolt bæjarins Grundarfjarðarkirkja var byggð í tveimur áföngum. Haldið er upp á 50 ára vígsluafmæli á morgun.
Stolt bæjarins Grundarfjarðarkirkja var byggð í tveimur áföngum. Haldið er upp á 50 ára vígsluafmæli á morgun. — Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Grundfirðingar bera mjög góðan hug til kirkjunnar sinnar, eru tryggir henni.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Grundfirðingar bera mjög góðan hug til kirkjunnar sinnar, eru tryggir henni. Kirkjunni hefur alltaf verið vel haldið við og þar er mikið starf,“ segir Ragnheiður Þórarinsdóttir, formaður afmælisnefndar Grundarfjarðarkirkju. Á morgun verða 50 ár liðin frá vígslu kirkjunnar og verður af því tilefni hátíðarguðsþjónusta og opnuð sýningin „Listamaðurinn í kirkjunni“ í Fjölbrautaskóla Snæfellinga.

Skipað var í afmælisnefnd vegna vígsluafmælis Grundarfjarðarkirkju fyrir tveimur árum. „Við vorum fljótt ákveðin í því að hafa viðburði í kirkjunni í hverri viku allt afmælisárið,“ segir Ragnheiður. Byrjað var í byrjun febrúar með sýningu á myndum leikskólabarna. Þau máluðu öll sólarmyndir. Grundfirðingar sjá ekki sólina frá heimilum sínum í tæpa tvo mánuði og fagna því sólinni vel þegar hún birtist aftur undir lok janúar.

Um páskana var sett upp sýning á skírnarkjólum sem notaðir hafa verið við skírnir grundfirskra barna. Ragnheiður segir að mikið hafi borist að og þurft hafi að velja úr.

Í apríl var síðan sýning á myndum grunnskólanema þar sem trú, von og kærleikur voru einkunnarorðin.

Þess á milli hafa verið ýmsir tónlistarviðburðir í kirkjunni.

Varpa ljósi á listafólkið

Hápunktur afmælisársins er á morgun, sunnudag, en þá eru liðin 50 ár frá vígslu kirkjunnar. Biskup Íslands, séra Agnes M. Sigurðardóttir, predikar við hátíðarmessu. Reiknað er með að allir þeir prestar sem þjónað hafa kirkjunni og enn eru á lífi verði viðstaddir og þeir sem tóku þátt í byggingu kirkjunnar, auk heimafólks.

Að lokinni messu verður boðið upp á kaffi í Fjölbrautaskóla Snæfellinga og opnuð sýningin Listamaðurinn í kirkjunni. „Þar erum við að varpa ljósi á þá listamenn sem hafa gert stærstu listaverkin okkar, meðal annars steindu gluggana, altaristöfluna og predikunarstólinn. Einnig buðum við Jóni Þorsteinssyni, sem var prestur hér í sextán ár, að sýna myndlist og leirverk. Þá erum við með kynningu á prestunum sem starfað hafa í Grundarfjarðarkirkju á þessum fimmtíu árum,“ segir Ragnheiður.

Þannig stóð á að um síðustu helgi var haldin bæjarhátíðin „Á góðri stund“ og var ákveðið að hafa sýninguna opna fyrir gesti hennar þótt formleg opnun yrði á vígsluafmælinu.

Líf og fjör alla daga

Mikil samstaða var um byggingu kirkju í Grundarfirði á sínum tíma. Þurfti á því að halda því söfnuðurinn var ekki stór. Grundfirðingar áttu áður sókn að Setbergi. Magnús Guðmundsson prestur stóð fyrir kirkjubyggingunni og dreif Grundfirðinga með sér. Hann fékk einnig liðstyrk frá ungmennasamtökum kirkjunnar. Þess vegna kom fjöldi ungmenna frá mörgum löndum til að aðstoða við bygginguna. Kirkjan var byggð í tveimur áföngum því turninn var reistur síðar.

„Við höfum verið heppin með presta sem tóku við keflinu af séra Magnúsi og hafa ötullega unnið að stækkun á kirkjunni og eflingu safnaðarstarfsins. Mikið ungliðastarf er í kirkjunni og þrír kórar æfa þar. Skátastarfið fer fram í kirkjunni. Það er líf og fjör í kirkjunni alla daga vikunnar. Kirkjan er alltaf opin og þangað kemur ferðafólk, bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn, og á góða stund í fallegu og friðsælu umhverfi,“ segir Ragnheiður.