Kristján Hörður Ingólfsson fæddist 9. maí 1931. Hann lést 7. júlí 2016. Útför hans var gerð 15. júlí 2016.

Tengdafaðir minn til rétt tæpra 25 ára er látinn eftir erfið veikindi. Þó dauðinn sé alltaf sár þegar hann kemur þá getur hann líka verið líkn þeim veiku og þjáðu.

Kristján tók mér opnum örmum þegar yngsti sonur hans kynnti okkur haustið 1988 og tók hann mér alla tíð fagnandi og reyndist mér vel á allan hátt. Hann var höfðingi heim að sækja og var alltaf mjög umhugað um að láta manni líða vel auk þess sem hann var alltaf tilbúinn að rétta fram hjálparhönd.

Kristján kom mér fyrir sjónir sem glaður maður og léttur í lund, hlýr og umhyggjusamur. Hann var kvikur og léttur í hreyfingum og sífellt að stússa eitthvað. Alltaf var stutt í grínið á milli okkar og hann hafði mikið gaman af því að slá á létta strengi. Kristján var lítið fyrir að flíka sínum tilfinningum eða afrekum. Líklega ber hann keim af því umhverfi sem hann kom úr, fæddur og uppalinn á Hólsfjöllum, á Víðirhóli, tíundi í röðinni af fimmtán systkinum. Hann þurfti snemma að standa á eigin fótum, vinna sér inn fyrir náminu sínu og berjast fyrir því að komast áfram. Hann hafði til að bera mikla sjálfsbjargarviðleitni og hann var meira fyrir að gefa en þiggja. Hann var greindur og víðlesinn og mikill tungumálamaður. Þegar þýska var annars vegar þá var hann á heimavelli enda lærði hann tannlækningar í Þýskalandi. Mikinn áhuga hafði hann á tónlist og þá sérstaklega klassískri en hann og Þórey sóttu reglulega sinfóníutónleika um langt árabil.

Kristján var ótrúlega duglegur maður. Honum féll sjaldan verk úr hendi og hann var mjög handlaginn, kannski eins gott fyrir tannlækni. Heimili hans og Þóreyjar hafa alltaf borið snyrtimennsku og natni þeirra beggja merki. Það var ekkert verið að sitja með hendur í skauti. Auk þess var hann ótrúlega virkur í íþróttum, stundaði badminton á yngri árum, skíði, fór í fjallgöngur um allt land og síðar fór hann að spila golf.

Þegar Kristján hætti að starfa sem tannlæknir þá var dæmigert að hann fann sér ný verkefni og eitt af því var að starfa við golfvöllinn í Grafarvogi á sumrin við ýmsa umsjón. Undir það síðasta sem hann starfaði þar fann maður að vinnan var farin að taka í. Það voru oft langar vaktir þegar golfmót voru í gangi en ekki var verið að barma sér frekar en fyrri daginn. Hann fór heldur snemma í háttinn til að safna orku fyrir næsta dag og mæta aftur á golfvöllinn.

Það má segja að Kristján hafi alltaf verið til í tuskið ef eitthvað spennandi var í gangi og það lýsti honum vel að þrátt fyrir mikil veikindi síðasta sumar þá dreif hann sig austur í Hvolhrepp með Þórey þegar hann frétti að við hjónin hefðum fest kaup á sumarhúsi. Ég er þakklát eftir á að hann hafi ekki látið veikindin stoppa sig í að koma þar sem þetta var í fyrsta og eina skiptið sem hann kom.

Börnin okkar hjóna voru mjög hænd að afa sínum og hann bar hag þeirra og velferð fyrir brjósti og fylgdist vel með þeim alla tíð.

Ég sendi Þórey og öllum aðstandendum mínar innilegustu samúðarkveðjur. Minningin um góðan mann lifir.

Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Ingibjörg Birna

Ólafsdóttir.

Það er erfitt að trúa því að elsku afi okkar sé búinn að kveðja þennan heim. Á stundum sem þessum er huggandi að hugsa til allra þeirra skemmtilegu minninga og samverustunda sem við áttum með afa. Minningar okkar voru flestar um hann kampakátan og léttan í lund.

Í gegnum árin höfum við systkinin átt ljúfar minningar úr heimsóknum til afa. Við fengum oft að gista hjá afa og ömmu Diddu og var ávallt vel búið um mann og vel hlúð að okkur. Þau voru með stóran skáp af leikföngum og spilum sem við lékum okkur með þegar við vorum yngri, það þurfti sko engum að leiðast sem kom í heimsókn til þeirra. Við spiluðum þá ósjaldan skák við afa og taldist það mikið afrek að ná að sigra hann í þeirri íþrótt. Afi eftirlét okkur gömlu skáktölvuna sína eftir sinn dag og verður okkur ávallt hugsað til hans þegar við spilum í framtíðinni.

Við munum einnig eftir því að hafa fengið að horfa á myndbandsspólur heima hjá afa og koma í skemmtileg matarboð. Við systkinin eigum margar minningar um ljúfar matarhefðir afa og ömmu Diddu. Ristað brauð á morgnana og kex með kaffinu kemur strax upp í hugann ásamt besta lambahrygg og purusteik í heimi og ósjaldan var ís í eftirrétt hjá honum og ömmu Diddu.

Afi fylgdist vel með okkur barnabörnunum. Hann hafði ávallt mikinn áhuga á því sem við vorum að gera, hvort sem það var í námi, leik eða starfi. Afi mætti á íþrótta- og tónlistarviðburði, hvort sem um var að ræða fótbolta, karate, píanótónleika eða gítarspil. Hann hrósaði okkur óspart og var stoltur yfir því sem við höfum tekið okkur fyrir hendur á lífsleiðinni. Afi hafði mikinn áhuga á golfi og hvatti okkur til þess að koma með sér að spila golf. Því munum við einnig eftir afa á golfvellinum að pútta í Árskógunum.

Afi var alltaf svo glaður að sjá okkur og munum við sérstaklega eftir brosinu sem blasti við okkur þegar við opnuðum dyrnar þegar hann kom í heimsókn. Hann hélt oft um höndina okkar þegar hann talaði við okkur um daginn og veginn og það stendur upp úr hvað afi var alltaf hlýr og góður. Þegar afi varð veikur síðasta árið var hann þó duglegur að fylgjast með því sem við vorum að gera og hvað væri að frétta af okkur. Hann bar mikla umhyggju fyrir okkur og við fyrir honum.

Við biðjum algóðan Guð að geyma elskulega afa okkar og varðveita. Minning hans lifir og mun verða með okkur um ókomna tíð.

Þín barnabörn,

Katrín Birna, Fannar

og Sindri Snær.