Snorri Jónsson fæddist 15. maí 1928. Hann lést 30. júní 2016. Útför hans fór fram 12. júlí 2016.

Hinn 12. júlí sl. var Snorri Jónsson, fulltrúi á skrifstofu Flensborgarskólans jarðsettur. Við vorum samstarfsmenn í skólanum í um aldarfjórðung, hann á skrifstofunni en ég ýmist sem áfangastjóri eða venjulegur kennari. Snorri sá um fjölföldun verkefna og annars kennsluefnis. Hann var afar vandvirkur, nákvæmur og stundvís. Áberandi var hve fjölföldunarvélin var alltaf hrein og vel þrifin þegar hann sá um hana sem var ólíkt því þegar almennir kennarar höfðu verið að búa sér til verkefni oftast korter í kennslustund, þá var blek uppi um alla veggi og pappírar um öll borð og gólf þegar frá var gengið.

Snorri var ágætur penni og ritstjóri nokkurra blaða, svo sem Þallar, rits Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, og Borgarans, rits félags óháðra borgara en það var flokkur sem átti bæjarfulltrúa í Hafnarfirði í tvo áratugi. Margar greinar hans í þeim blöðum bera vott um kunnáttu og hæfni hans til að tjá sig á rituðu máli. Snorri var einnig listaskrifari og kenndi m.a. skrautskrift og eru skrautrituð skjöl með hans hendi til víða í bænum. Snorri hafði mikinn áhuga á félagsmálum og sat í nokkrum nefndum bæjarins, svo sem barnaverndarnefnd, auk þess var hann í stjórn Skógræktarfélagsins og víðar.

Snorri var áberandi hnarreistur þegar hann gekk um stræti og torg Hafnarfjarðar eða um ganga skólans, hægt og virðulega og horfði vandlega til beggja átta og stöðvaði til að tala við fólk á mjög formlegan hátt. Hann var svo skýrmæltur að nemendur sögðu að hann hefði lesið ypsilonin og seturnar þegar hann las fyrir stafsetningarprófin sem þá tíðkuðust.

Snorri var uppalinn í Miðfirði, Austur-Húnavatnssýslu og oft ræddum við um þá sveit, sér í lagi hvernig mætti rækta upp sandana við botn fjarðarins, en hann sagðist alltaf muna hvernig það var að bryðja sandinn sem fauk upp í norðanvindinum frá söndunum. Snorri fór í Kennaraskólanum og svo gerðist hann ungur kennari í Hafnarfirði. Þegar ég kom í Hafnarfjörðinn 1974 bjó Snorri á Sunnuveginum en þangað kom ég aðeins eitt skipti og kynntist ekki heimilislífinu þar. Ég átti eftir að kenna nokkrum barna hans sem nú eru löngu orðnar fullorðnar manneskjur og hafa dreifst um víðan völl. Eftir að Snorri flutti í íbúðina á neðri hæð gamla skólahússins fjölgaði heimsóknum mínum heim til hans og ræddum við oft saman í eldhúsinu hjá honum eftir að kennslu var að mestu lokið, en einn og einn kennari öldungadeildar átti eftir að klára og ég þurfti eitthvað að tala við hann og Snorri að loka. Jólaglöggssamkomur voru oft haldnar á níunda og tíunda áratugnum. Þá þurfti að leggja rúsínur, krydd og þess háttar í rauðvín yfir nótt og slíkt mátti ekki innan skólans, en íbúð Snorra var hans prívat. Því bauð hann afnot af eldhúsi og svo þegar kennslu lauk seinasta dag fyrir jól komu kennarar sér fyrir í stofunni hjá honum og gerðu sér glaðan dag. Þá var oft gaman.

Snorri, takk, takk.

Jóhann Guðjónsson.

Rólegur, glettinn, frábær íslenskumaður, hvetjandi. Það var Snorri Jónsson vinur minn.

Mér urðu á þau leiðu mistök að fara dagavíxl á útfarardegi hans og var því ei viðstaddur þegar Snorri var jarðsunginn frá hinu fallega Guðshúsi, Fríkirkjunni í Hafnarfirði, nýlega.

Snorra kynntist ég í gegnum föður minn Árna Gunnlaugsson hrl. en saman störfuðu þeir í hafnfirskum stjórnmálum í langan tíma. Það var í félagi Óháðra borgara sem faðir minn o.fl. stofnuðu upp úr 1960. Þá var Snorri, um tíma, ritstjóri málgagns félagsins, sem hét Borgarinn.

Kynni okkar Snorra hófust af alvöru þegar ég hóf nám í menntaskólanum Flensborg. Vissi það ei þá en faðir minn hafði lagt að Snorra heitnum, að fylgjast með framgangi náms míns, sem um tíma var ei til fyrirmyndar. Hugur minn sótti nefnilega í atvinnuflugmannsnám, hverju ég lauk fyrir stúdentspróf.

Að lokum hafðist menntaskólanámið með ágætum. Ekki síst að þakka aðhaldi Snorra. Skilaboðin voru, með hans hætti, að ég skyldi nú taka mig á, ég vanmæti námið. Skil eðli og mikilvægi þekkingar í dag og hverju slíkt getur komið áleiðis, einstaklingi til gagns og samfélagi til góðs.

Þorði ei annað en að hlýða vini mínum, tók mig á, enda flugnámið, sem þá var að baki, til einskis nýtanlegt nema stúdentspróf væri í höfn. Síðar fylgdist Snorri með mér ljúka laganámi og virtist ánægður með fyrirætlanir mínar.

Það var gott að leita til Snorra á menntaskólaárunum. Vegna áhrifa hans í Flensborg gerði hann mér, og öðrum nemendum, kleift að stofna fyrsta ljósmyndaklúbb skólans og koma upp vinnuaðstöðu; myrkraherbergi með nauðsynlegum tækjum. Kann ég honum ævinlega þakkir fyrir en ljósmyndun hefur átt hug minn og hjarta frá því ég var táningur.

Það var sérstaklega gaman að vinna með Snorra sem ritstjóra Borgarans, ég þá ljósmyndari málgagnsins. Hafði tekið við því hlutverki af föður mínum. Vandvirkni Snorra varð mér fyrirmynd. Agaður í íslenskri tungu, skarpgreindur, einstök rithönd þar að auki. Þó heldur rólegur í umgengni fyrir þann bráðláta og eljusama fisk, sem ég er og telur að flest megi gera á helmingi meiri hraða en flestir hafa tamið sér.

Síðustu samskipti okkar Snorra voru sl. haust á Hrafnistu, Hafnarfirði. Glöggur, sem fyrr, var Snorri og áttum við gott samtal. Ekki bar mikið á því að ellin væri að færast yfir hinn látna. Því kom fráfall hans mér á óvart. Drengur góður, sannur bonus pater, hefur kvatt Hafnarfjörð og Hafnfirðinga.

Eftirlifandi ættingjum vottum við móðir mín, frú María Albertsdóttir, okkar dýpstu samúð.

Árni Stefán,

María Albertsdóttir.