Síðasta laugardagsgáta var sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Á ferðalagi fékk ég það. Fann það áðan greypt í svörð. Sá ég skunda ský með hrað. Skipi róið yfir fjörð.

Síðasta laugardagsgáta var sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Á ferðalagi fékk ég það.

Fann það áðan greypt í svörð.

Sá ég skunda ský með hrað.

Skipi róið yfir fjörð.

Guðrún Bjarnadóttir svarar „farið um landið“ og bætir við:

Sem puttalingur fékk ég far,

á Fitjum merkti leir með skó.

Far á skýjum skondið var,

á Skjálfanda á fari spjó.

Hér er lausn Helga R. Einarssonar:

Upp á borði ekkert var

og ekkert rak á fjörurnar,

svo læddist að mér lítið svar.

Líklega er hér átt við far.

Helgi Seljan svaraði með bestu kveðju í bæinn:

Löngum var ágætt far að fá,

farið í mold er eftir skó.

Far á skýjunum flott ég sá,

fari er róið vítt um sjó.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Með norðurleiðum fékk ég far,

far í svörðinn greypt ég sá.

Skýja þar of skrautlegt var

skjótt mun farið landi ná.

Og bætir við limru:

Vísum flíkar Valdimar.

Vinsæll og dáður alstaðar

sá indælis piltur

er ofurstilltur

en óeirðarmaður um kvennafar.

Segist síðan hafa bangað saman gátu um morguninn:

Í viðmóti hlýja og vinsemd er.

Velgengni líka stundum.

Ástin, sem býr í brjósti þér.

Blæjalognið á sundum.

Á laugardag fyrir viku heilsaði Páll Imsland hinu þögla Leirliði í dumbungsupphafi helgarinnar:

Nú er Leirinn í lamannna sessi.

Þar lifandi hnígur ei vessi.

Þetta ástand er leitt

og orkar ei neitt.

En Fjandinn er í sínu essi.

Dagbjartur Dagbjartsson segir á Boðnarmiði að hann hafi rekist á þessa vísu undir afdráttarhætti „í gömlu góssi“.

Semja ljóðin fljóðin fljót

flétta hróður löngum.

Ásmundur Orri Guðmundsson fann einn afdrátt eftir Eggert Loftsson:

Svalur geltir, drjúpa dropar.

Drósir hvarma bleyta.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is