„Langur biðtími getur haft veruleg áhrif á lífsgæði fólks“

Biðlistar eftir aðgerðum hafa verið allt of langir í íslensku heilbrigðiskerfi. Í mars var loks lýst yfir því að ráðist yrði í að stytta biðlistana og samkvæmt nýjum tölum frá Landlækni hefur tekist að ganga verulega á þá.

Landlæknisembættið hefur um árabil fylgst með biðlistum eftir ýmsum aðgerðum. Hefur árangur meðal annars náðst í að stytta bið eftir aðgerðum við brjósklosi, augasteina- og liðskiptum og aðgerðum vegna kviðslits.

Í frétt í Morgunblaðinu í gær kemur fram að nú þegar hafi verið gerðar 226 hnéaðgerðir. Allt árið 2014 voru aðeins gerðar 227 slíkar aðgerðir. Í fyrra voru aðgerðirnar aðeins 191 og var það vegna verkfalla lækna og annarra heilbrigðisstétta.

Stytting biðlistanna er allra hagur. Þeir kunna að hafa orðið til vegna þess að það átti að spara, en frestun á lækningu er líklegri til þess að leiða til aukins kostnaðar fyrir þjóðfélagið en sparnaðar þegar upp er staðið. Sjúklingurinn þarf iðulega aðhlynningu meðan hann bíður eftir aðgerð, endurhæfing er líklegri til að vera dýrari og biðin getur getur að auki leitt til vinnutaps.

Þá má ekki gleyma sjúklingunum sjálfum. „Langur biðtími getur haft veruleg áhrif á lífsgæði fólks,“ segir Laura Scheving Thorsteinsson, verkefnisstjóri hjá Landlæknisembættinu, í fréttinni í Morgunblaðinu í gær. „Margir þjást af verkjum og geta ekki unnið á meðan þeir bíða.“

Þótt árangur hafi náðst í að stytta biðlistana er langt frá því að settu marki hafi verið náð. Þótt hlutfall þeirra, sem þurfa að bíða 30 daga eða lengur eftir aðgerð, hafi minnkað er það enn of hátt.

Athyglisvert er að árangur átaksins er ekki aðeins að þakka auknum fjárveitingum. Helga Kristín Einarsdóttir, fyrrverandi deildarstjóri skurðstofa Landspítalans í Fossvogi og núverandi verkefnastjóri yfir átakinu í aðgerðum á hnjám og mjöðmum, segir í fréttinni að dugnaður starfsfólks hafi skipt mestu máli. „Allir tóku þátt í átakinu, alveg frá framkvæmdastjórn niður í skúringafólk,“ segir hún.

Takist að halda þessum krafti í að stytta biðlistana þannig að allir sjúklingar komist í aðgerðir innan viðunandi tímamarka verður stigið stórt skref í að leysa vanda heilbrigðiskerfisins. Fyrir nokkrum mánuðum hefði það hljómað eins og óskhyggja.