Jóhann J. Ólafsson
Jóhann J. Ólafsson
Eftir Jóhann J. Ólafsson: "Í gegnum moðreykinn grillir í ótta við að fá gott fordæmi inn í landið."

Umræður um spítala í Mosfellsbæ eru dæmigerðar um ofsaviðbrögð og sleggjudómsáráttu okkar Íslendinga þegar nýbreytni ber á góma.

Áður en menn vita um hvað þessi hugmynd snýst eru menn risnir upp á afturfæturnar til að bölsótast, ráðast á hugmyndina og finna henni allt til foráttu.

Persónuárásir eru ekki langt undan. Skjóta á frumkvöðulinn svefnþorni og flytja hann nauðugan á Grænlandsjökul til að bíða þar örlaga sinna.

Í gegnum moðreykinn grillir í ótta við að fá gott fordæmi inn í landið. Það myndi rústa íslensku velferðarkerfi. Hesthús væri betra. Væri ekki betra að menn drægju andann í gegnum nefið og athuguðu málið rólega.

Nýr stór spítali fjármagnaður af erlendu fé gæti stórbætt okkar heilbrigðiskerfi ef rétt er á málum haldið. Fyrstu spítalarnir á Íslandi voru erlendir, franskir spítalar og Landakotsspítali. Ný þekking myndi flytjast inn í landið, stækka þyrfti læknadeildir háskólanna og efla hjúkrunarmenntun. Setja þyrfti meira fjármagn í heilbrigðiskerfið, sem löngu er orðið ljóst. Menn hafa tala um 11% af þjóðarframleiðslu í því sambandi.

Í einu dagblaðanna stendur eitthvað á þessa leið: Og við viljum ekki sjá sérstaka spítala, þar sem hægt er að greiða fyrir bestu þjónustu meðan lakari þjónusta er í boði hjá sjúkrahúsum í opinberri eigu. Einmitt. Svona sjúkrahús mega ekki sjást hér á landi. Hesthús. Allt annað mál.

Upplýst hefur verið að Íslendingar geta fengið þjónustu spítalans ef þeir borga fyrir hana. Þetta telja menn að muni rústa íslensku velferðarkerfi og jöfnuði þess.

Þetta er auðvitað mikill misskilningur. Flestir sjúklingar spítalans verða erlendir og þurfum við því ekki að hafa áhyggjur af því hvernig þeirra lækning er fjármögnuð. Þurfi Íslendingar að leggjast inn á þennan spítala verður kostnaðurinn greiddur af Tryggingastofnun ríkisins og jöfnuður okkar þjóðfélags haldinn í heiðri. Það er Tryggingastofnun sem á að tryggja jafnræði á milli landsmanna í velferðarkerfinu, ekki spítalarnir. Tryggingastofnun greiðir kostnað sjúklinga sem þarf að senda á erlenda spítala (jafnvel dýra ameríska spítala í einkaeigu). Er nokkuð verra að þessi erlendi spítali sé uppi í Mosfellsbæ?

Það sem menn óttast er að yfirvöld geti ekki fjársvelt útlendingaspítalann eins og íslenskar heilbrigðisstofnanir og komið í veg fyrir að hann borgi starfsfólki sínu laun, sem eru samkeppnisfær við laun í nágrannalöndum okkar, en án þess á íslenskt velferðarkerfi ekki nægilega framtíð fyrir sér og verður í sífelldu basli. Þetta telja menn að muni rústa íslensku heilbrigðiskerfi, en gæti raunin ekki orðið alveg þveröfug?

Gleymum hesthúsunum í bili.

Höfundur er stórkaupmaður.