Yngvi Leifsson sagnfræðingur og doktorsnemi hefur skrifað ævisöguna Með álfum, – sögu Ingiríðar Eiríksdóttur sem Sögufélagið hefur nýlega gefið út.
Yngvi Leifsson sagnfræðingur og doktorsnemi hefur skrifað ævisöguna Með álfum, – sögu Ingiríðar Eiríksdóttur sem Sögufélagið hefur nýlega gefið út. — Morgunblaðið/Ófeigur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ingiríður átti allt undir því að fá þak yfir höfuðið og þurfti því oft að ljúga til um aðstæður sínar, segjast eiga ferðapassa en hafa gleymt honum. Stundum kunnu húsbændurnir ekki að lesa og þá sýndi hún þeim bara einhver bréf.

Ingiríður átti allt undir því að fá þak yfir höfuðið og þurfti því oft að ljúga til um aðstæður sínar, segjast eiga ferðapassa en hafa gleymt honum. Stundum kunnu húsbændurnir ekki að lesa og þá sýndi hún þeim bara einhver bréf. Hún hafði ekki efni á að vera hreinskilin. Guðrún Guðlaugsdóttir gudrunsg@gmail.com

Hún er með ljósbrúnt hár á höfði og ljósar augabrúnir, blá og smágerð augu, stórt og þykkt nef, þykkar varir, langleitt og magurt andlit, stuttan háls, stórar hendur og fætur, 57 ¾ tommur á hæð og 16 ¾ tommur breið yfir herðar.“ Spennandi lýsing ekki satt? Hvaða konu er lýst svo?

Svarið er: Ingiríði Eiríksdóttur frá Haga í Þingeyjarsýslu. Hún hafði stöðu flakkara eða flóttakonu og margt líkt með henni og þeim sem nú eru á flakki um heiminn. Slóðirnar sem hún flakkaði um eru bara mun miklu smærri í sniðum. En hún var oft og tíðum passalaus og henni var líkt og nútíma flökkufólki víða úthýst, sem og hún átti í langvarandi útistöðum við yfirvöld. Mál hennar var aftur og aftur tekið fyrir og hún yfirheyrð rækilega og hlaut dóma.

Yngvi Leifsson sagnfræðingur og doktorsnemi hefur skrifað ævisöguna Með álfum, – sögu Ingiríðar Eiríksdóttur sem Sögufélagið hefur nýlega gefið út. Ingiríður fæddist utan hjónabands árið 1777 og dó 1857. Hún lifði hræðilegustu tíma Íslandssögunnar – Móðuharðindin.

– Yngvi, hvað var það sem dró þig með slíku afli að Ingiríði að þú ákvaðst að skrifa ævisögu hennar?

„Þetta átti sér nokkuð langan aðdraganda. Ég ætlaði að skrifa BA-ritgerð í sagnfræði um hvernig sýslumenn tóku á dómum í héraði. Þegar ég fór að skoða héraðsdómana poppaði nafn Ingiríðar Eiríksdóttur upp aftur og aftur. Þessar upplýsingar voru svo ítarlegar að það endaði með því að BA-ritgerðin fjallaði um ævi Ingiríðar og þau afbrot sem hún var saksótt fyrir í Þingeyjarsýslu á árabilinu 1809 til 1826.“

– Hvernig var uppvöxtur Ingiríðar?

„Hann einkenndist af rótleysi. Hún kom undir í lausaleik og foreldrar hennar voru aldrei saman og henni var fljótlega komið fyrir, fyrst hjá ættingjum og síðar hér og þar hjá hinum og þessum bændum, mest í Ljósavatnshreppi í Þingeyjarsýslu. Hún var hjá föðurforeldrum sínum fyrstu sex árin, hjá pabba sínum, sem nefndur var Drykkju-Eiríkur, í eitt ár og hjá móður sinni Hildi í rösklega tvö ár. Hinn tímann hjá vandalausum.“

– Átti Ingiríður einhvern tíma möguleika á að menntast?

„Hún lærði að lesa fyrir ferminguna en hún var ekki fermd fyrr en á átjánda ári. En presturinn gaf henni þann vitnisburð að hún hefði ágætan lesskilning og hefði þokkalegan skilning á ýmsu úr ritningunni. Prestar sem höfðu afskipti af henni töldu hana ekki ógreinda og hún hafði verksvit.

Hún minnist aldrei á hvar hún lærði vinnubrögð en á flakki sínu gekk hún í flest störf, svo sem handavinnu, barnagæslu og hjúkrun. Auk þess var hún í heyvinnu, sláturverkum fleiru slíku. En hún átti enga möguleika á formlegri menntun.“

Laug því að hún væri gift

– Fékk hún einhvern tíma bónorð?

„Nei. Í það minnsta í þau fimm skipti sem hún varð ólétt og átti barn þá minntist hún aldrei á að barnsfaðir hefði lofað giftingu né heldur trúlofun. En hún laug því einu sinni að hún hefði gifst. Þegar hún var sett í tugthúsið við Arnarhól þá laug hún því að hún væri ófrísk og gift sínum barnsföður. Þegar upp komst um lygina hefur hún eflaust þurft að þola slög af kaðli, slíkar refsingar voru algengar meðal fanga á þeim tíma.“

– Hvers vegna voru yfirvöld alltaf að eltast við Ingiríði?

„Passalögin svonefndu voru sett 1781 en í febrúar 1783 var lausamennska bönnuð. Í ævisögunni segi ég: „Með passalögunum 1781 var nánast búið að útiloka alla þá ferðamennsku sem yfirvöld töldu óþarfa en smiðshöggið var rekið með algjöru banni við lausamennsku 1783.“ En svo tóku Lakagígar að gjósa um vorið 1783 og þá var stoðum kippt undan þessu banni við lausa- og farandmennsku.

Þegar Ingiríður fór á flakk um tvítugt þá voru þessi passa- og lausamennskulög lítt virk en í nóvember 1809 var rykið dustað af þeim þegar Magnús Stephensen fór að reyna að koma skikk á stjórnsýsluna í siglingabanninu sem hlaust af Napóleonsstyrjöldunum. Þá lagði hann aukna ábyrgð á hreppstjóra með erindisbréfi til þeirra. Afleiðingin var að fólk var handtekið víðs vegar um land sem hafði flakkað um árum saman en var nú allt í einu orðið mjög tortryggilegt.“

Eignaðist fimm börn með fimm mönnum

– Hvert flakkaði Ingiríður?

„Hún fór yfir í Eyjafjörð um tvítugt og bjó þar á sama bænum, Litla-Dal, í um sex ár, hún bjó hvorki fyrr né síðar svo lengi á neinum stað. Svo tók hún sig upp af óþekktum ástæðum og fór vestur í Húnavatnssýslu. Hún var að flakka fram og til baka um Húnavatns-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslu. En þegar hún kom að sýslumörkum Þingeyjarsýslu þá sneri hún jafnan við. Mér hefur dottið í hug að hún hafi ekki haft þar gott orð á sér. Þar var fljótt talað um hana sem óstýriláta og lygna stúlku. Líklega hefur hún talið að hún ætti meiri möguleika annars staðar. Hún bjó í Þingeyjarsýslu meðan á móðuharðindunum stóð og þá fóru margir vestur með landinu, hún hefur líklega heyrt í sínum uppvexti að þar væri tíð betri. Dóttir hennar Málfríður, sú elsta sem lifði, hún var alin upp að hluta með móður sinni á flakki en sinn fæðingarhrepp átti Málfríður í Húnavatnssýslu, þetta hefur ábyggilega haft eitthvað með ákvarðanir Ingiríðar að gera síðar. Hin börnin þrjú hétu Sigríður, Gamalíel og Guðrún og voru sett í fóstur sem ungbörn. Sigríður varð níræð en hálfsystir hennar samnefnd dó á fyrsta ári. Ingiríður á vafalaust afkomendur en það hef ég ekki kannað, vonandi gerir það einhver.“

– Hvernig gekk að afla heimilda?

„Það gekk bara vel. Ég er búinn að vinna í mörg ár fyrir Þjóðskjalasafn Íslands og hafði góðan grun um hvar heimildir væri að finna. Saga Ingiríðar er mikið byggð á yfirheyrslum yfir henni hjá sýslumönnum. Leiðbeinandi minn við gerð BA-ritgerðarinnar um ævi Ingiríðar var Anna Agnarsdóttir sagnfræðingur en Már Jónsson sagnfræðingur var leiðbeinandi minn við gerð MA-ritgerðar minnar. Þau reyndust mér bæði vel. MA-ritgerðin fjallar um flökkufólk, þar segi ég sögur af fimmtán slíkum manneskjum sem handsamaðar voru á Norðurlandi á tímabilinu 1783 til 1816. Ingiríður okkar er ein af þeim.

Nú stunda ég doktorsnám í Salamanca á Spáni, við háskólann þar. Efni þeirrar ritgerðar er saga vændiskvenna í Salamanca á átjándu öld. Þar eru sagðar sögur um vændiskonur á svipaðan máta og ég segi frá flökkufólkinu í MA-ritgerðinni, aðferðafræðin er svipuð.“

– Heldur þú að Ingiríður Eiríksdóttir hafi verið þjófgefin að upplagi?

„Nei, hún beinlínis stal til að hafa í sig og á. Ég man bara eftir einu tilviki þar sem hún stal einhverju sem ekki var lífsnauðsynlegt. Það var blár hálsklútur. Það sagðist hún hafa gert af því að húsbóndinn hefði sagt að hún fengi ekkert kaup.“

– Hefur þú sjálfur farið um þær slóðir sem Ingiríður flakkaði um?

„Já, ég gekk um níutíu kílómetra af hennar leið, frá Krókárgerði í Norðurárdal að Hólabæ í Langadal. Ég var fjóra daga í þessu ferðalagi og svaf úti eins og Ingiríður, var að reyna að koma mér í tengingu við lífshætti hennar. Þetta var ótrúleg lífsreynsla. Maður fékk aðra sýn á hvað lífið getur verið hverfult, þegar maður er einn á gangi. Það er svo margt sem getur komið upp á, svo sem meiðsl, vatnsskortur og kuldi.“

Ætlaði fyrst að semja skáldsögu en hætti við

– Hvað var það skemmtilega sem einkenndi Ingiríði?

„Hvað hún var útsjónarsöm og hvernig hún náði að halda sér á lífi í áttatíu ár þrátt fyrir öll þau harðindi sem gengu yfir landið og öll þau vandarhögg sem hún þurfti að þola. Hún átti allt undir því að fá þak yfir höfuðið og þurfti því oft að ljúga til um aðstæður sínar, segjast eiga ferðapassa en hafa gleymt honum. Stundum kunnu húsbændurnir ekki að lesa og þá sýndi hún þeim bara einhver bréf. Hún hafði ekki efni á að vera hreinskilin.“

– Átti hún sér málsvara?

„Já, á unglingsárum. Þá voru það tvö til þrjú býli sem tóku hana inn. Til að mynda Halldór á Krossi í Ljósavatnshreppi, hann sá um að hún var fermd og lánaði henni bækur.“

– Vorkenndir þú Ingiríði þegar þú fréttir meira af lífi hennar?

„Já, það er ekki annað hægt. Sérstaklega hvað varðar börn hennar. Fátæktin var almenn og Ingiríður var oft sett niður á bæi þar sem fólk átti varla til hnífs og skeiðar, sérstaklega í móðunni, þegar fólk borðaði söl og þang til að lifa af.“

– Var erfitt að skrifa þessa sögu?

„Nei, það var ekki erfitt. Þegar formið var komið rann þetta allt saman mjög vel. Ég ætlaði fyrst að gera ævi Ingiríðar að skáldsögu en hætti við. Áttaði mig á að með því að skálda í eyðurnar væri ég að gera lítið úr mikilvægi þess sem í raun gerðist.“

– Hvers vegna valdir þú að segja ævisögu flökkukonu í stað þess að segja frá lífi einhverrar yfirstéttarkonu? Eru áherslur í sagnfræði að breytast í þá átt að segja meira frá alþýðufólki en áður var?

„Segja má að með tilkomu dómabókagrunns Þjóðskjalasafns hafi áhugi kviknað á að nota þann grunn við sagnfræðirannsóknir. Það sést meðal annars á því hve margar BA-ritgerðir byggjast á heimildum sem finna má í þessum grunni. Þar koma fram upplýsingar um alþýðufólk sem erfitt er að finna annars staðar.“

– Er líf Ingiríðar góð heimild um líf fátæks fólks í lok 18. aldar og í upphafi þeirra nítjándu?

„Hún er ótrúlega góð heimild um líf fátækrar flökkukonu, hún lýsir aðstæðum sínum ítarlega og mjög lýsandi. Vistarbandið var mjög sterkt og raunar aldrei eins strangt og á þessum tíma og koma áhrif þess mjög greinilega fram í bókinni. Vistarbandið var raun aðferð til að auðvelda bændum að fá ódýrt vinnuafl. Það kom í veg fyrir að fólk seldi vinnu sína hæstbjóðanda tíma og tíma. Fólk varð að vera vistráðið í heilt ár en mátti skipta um vist í maí á ári hverju, svokölluðum fardögum.“

– Hefur nútíminn meiri áhuga á alþýðufólki fyrri tíma en áður?

„Íslendingar hafa alltaf haft áhuga á sögum alþýðufólks. Það sýna allar ævisögurnar sem enn eru skrifaðar og lesnar. Ef lesin eru til dæmis héraðsrit þá má í þeim oft finna sögur af alþýðufólki ekki síður en höfðingjum.“

– Hvernig er að vera í doktorsnámi á Spáni?

„Það er ótrúlega spennandi og áhugavert. Þarna er skjalasafn í dómkirkjunni í Salamanca, átta hundruð ára, sem afskaplega gaman er að rannsaka. Það er gaman að rannsaka sagnfræði í svona gamalli og sögufrægri borg. Ég fór fyrst til Salamanca í skiptinám og kynntist þá kennurum. Þegar kom að því að ég fór í doktorsnám þá hafði ég samband við þá og er að vinna þar að doktorsritgerðinni sem ég stefni á að ljúka við eftir ár.“

– Hvaðan kemur þér sagnfræðiáhuginn?

„Forvitni og ánægja af því að lesa. Ég er frá Húsavík og var alltaf í verkamannavinnu á sumrin frá tólf ára aldri. Svo fór ég að vinna á bókasafninu á Húsavík þegar ég var nítján ára gamall og þá spratt áhuginn á sagnfræðinni fram með öllum þeim bókum sem ég kynntist í því starfi. Ég er stúdent frá framhaldsskólanum á Húsavík og tók sagnfræði við Háskóla Íslands.“

– Hver verða þín næstu skref í fræðunum?

„Það sem mér finnst skemmtilegast er að rannsaka og skrifa og vonandi gefst mér tækifæri til að gefa út fleiri rit um sögu Íslands og Spánar sem eru mínir helstu heimavellir. Ég hef mjög gaman af að segja sögur af fólki og leyfa þeim sögum að útskýra og lýsa hugtökum út frá aðstæðum þess, svo sem flökkufólks eða vændiskvenna. Þetta eru gildishlaðin hugtök, sveipuðu allskyns sögnum sem spennandi er að rannsaka, útskýra og að skilja sagnir frá því sem raunverulega gerðist.“