Jean-Claude Juncker
Jean-Claude Juncker
Brexit hefur ekki haft mikil áhrif í Bretlandi þrátt fyrir hávaða heimsendaspámannanna, en það er ekki þar með sagt að það hafi engin áhrif haft innan Evrópusambandsins.

Brexit hefur ekki haft mikil áhrif í Bretlandi þrátt fyrir hávaða heimsendaspámannanna, en það er ekki þar með sagt að það hafi engin áhrif haft innan Evrópusambandsins. Framkvæmdastjórn þess hefur nú ákveðið að láta ekki verða af því að refsa Portúgal og Spáni fyrir að hafa ítrekað rekið ríkissjóð með halla umfram 3% af landsframleiðslu.

Skýringuna gaf Pierre Moscovici, fjármálaráðherra sambandsins, sem sagði efasemdir Evrópubúa um ESB þýða að sambandið þurfi að stíga varlega til jarðar.

En þetta er svo sem ekki í eina skiptið sem ESB brýtur eigin reglur. Fyrr á árinu var til dæmis slakað á gagnvart Ítalíu og Frakklandi, enda vandi ESB ekki nýr af nálinni og víðtækari en Brexit.

Ástæðan fyrir því að Frakkland slapp undan reglunum var þó ekki vandi ESB heldur það viðhorf að reglurnar gilda ekki um forysturíkin. Þannig gaf Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnarinnar, eftirfarandi skýringu í maí sl. þegar Frakkland var losað undan reglunum: „Af því að það er Frakkland.“

Allir vita sem vilja að aðrar reglur gilda um áhrifaríki sambandsins en önnur, en það er sjaldgæft að það sé viðurkennt með svo afdráttarlausum hætti.

Og það er athyglisvert að nú sé nánast búið að aftengja reglurnar alfarið af ótta við upplausn sambandsins.