Hressir Félagarnir lenda í margvíslegum ævintýrum.
Hressir Félagarnir lenda í margvíslegum ævintýrum.
Á fallegum sumardögum er fátt meiri vitleysa en að eyða tímanum í sjónvarpsgláp. Þess vegna reynir ljósvaki dagsins að horfa eins lítið á sjónvarp og mögulegt er þessi dægrin.

Á fallegum sumardögum er fátt meiri vitleysa en að eyða tímanum í sjónvarpsgláp. Þess vegna reynir ljósvaki dagsins að horfa eins lítið á sjónvarp og mögulegt er þessi dægrin. Þó er einn þáttur sem á hug minn þessa fallegu sumardaga; The Inbetweeners, breskur sjónvarpsþáttur frá árunum 2008-2010 um fjóra unga vini og þeirra daglegu ævintýri. Nýr strákur byrjar í almenningsskóla eftir að hafa verið í einkaskóla og á erfitt með að eignast vini fyrst um sinn. Síðan kynnist hann þremur gaurum sem eru – hvað skal segja – ekki þeir allra svölustu í skólanum. Fylgst er með ævintýrum þeirra, sem snúast að mestu leyti um vandræðalegar stundir í kringum hitt kynið.

Húmorinn er skemmtilega einfaldur og stundum er dansað á línunni. Eitthvað segir mér að sumir brandarar færu illa í fólk núna en það verður bara að hafa það. Til að eyðileggja ekki ánægjuna fyrir þeim sem eiga eftir að horfa, sem ég býst við að séu margir lesendur Morgunblaðsins, þá ætli ég ekki að endursegja brandarana hér. Hins vegar hvet ég fólk eindregið til að kveikja á Netflix, leita að Inbetweeners og njóta. Þeir sem hafa ekki gaman af þáttunum geta sent mér línu.

Jóhann Ólafsson