Helgi Seljan
Helgi Seljan
Eftir Helga Seljan: "Ég varð hrifinn af þessum ljóðum og ljóðaþýðingum."

Út er komin bókin: Úr lausblaðabók ljóðævi. Höfundur er Ingvar Gíslason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra. Ingvar varð góðkunningi minn ágætur, virtur þingmaður, kurteis maður en einarður, ljúfmenni um leið.

Ég veit ekki hvort umsögn af þessu tagi hlýtur náð enda engin bókmenntafræði á bak við, aðeins einlæg tilfinningin. Ég varð blátt áfram það hrifinn af þessum ljóðum og ljóðaþýðingum að ég setti á blað fáeinar línur með tilvitnunum í bókina þar sem stíllinn er oft knappur en segir mikið samt.

Hamingja

Langt niðrá hafsbotni

í lokaðri skel

liggur hamingja þín

engum til aðgöngu

öðrum en þér

formuð sem fágæt perla.

Öll frekari orð óþörf eða þá smáljóðið um örlög þorpsins, örlög sem við þekkjum svo vel.

Þorpið

Lætur sig þrauka þorpið

og þröngt milli fjalla

í giljóttu brattlendi.

Útmálað í ábúðarmiklum

skáldsögum

bíómyndum upp á síðkastið

ættlaust

áfangi farenda

á leið suður.

Og svo hugsar Ingvar til Páls Ólafssonar í stökunni: Á Hallfreðarstöðum.

Þegar aftur vaknar vor

verður líf um Blána.

Stæltum fótum stíga spor

Stjarna, Löpp og Grána.

Að lokum í stuttri grein, hreimfagurt og vermandi:

Hörpuljóð

Um dalaból af velli fönnin víkur,

og vakna í fölu túni grænar nálar,

er vorið hallann hörpulitum málar

og hendi mjúkri golan landið strýkur.

Í daufum sálum doðamyrkri lýkur

og dáðir vakna þær sem áður sváfu,

því vorsól eflir dug og gleðigáfu,

hún gjöfum deilir mild og engan svíkur.

En laus af garða ærin jarmar ör,

hún á sér draum um frelsi upp til heiða

að annast lömb og lifa góða vist.

Svo ólm til fjalla álftin þreytir för,

þar óskalöndin fanga hana´ og seiða.

Og senn mun nóttin sólarvörum kysst.

Hugumhlýjar þakkir hljóttu, Ingvar. Megi sem flestir nema og njóta.

Höfundur er fv. alþingismaður.