Ingvar Þorleifsson fæddist 17. mars 1930. Hann lést 8. júlí 2016. Útför hans fór fram 15. júlí 2016.

Elsku pabbi og tengdapabbi.

Við fjölskyldan eigum eftir að sakna þín sárt en við höfum mikið af góðum minningum til að varðveita.

Mér tregt er um orð til að þakka þér,

hvað þú hefur alla tíð verið mér.

Í munann fram myndir streyma.

Hver einasta minning er björt og blíð,

og bros þitt mun fylgja mér alla tíð,

unz hittumst við aftur heima.

Ó, elsku pabbi, ég enn þá er

aðeins barn, sem vill fylgja þér.

Þú heldur í höndina mína.

Til starfanna gekkstu með glaðri lund,

þú gleymdir ei skyldunum eina stund,

að annast um ástvini þína.

Þú farinn ert þangað á undan inn.

Á eftir komum við, pabbi minn.

Það huggar á harmastundum.

Þótt hjörtun titri af trega og þrá,

við trúum, að þig við hittum þá

í alsælu á grónum grundum.

Þú þreyttur varst orðinn og þrekið smátt,

um þrautir og baráttu ræddir fátt

og kveiðst ekki komandi degi.

(Hugrún)

Hjartans þakkir fyrir allt, elsku pabbi.

Þín

Sigurlaug og Árni Ómar.

Flestöllum sumrum á uppvaxtarárum mínum, eða til 16 ára aldurs, var ég svo lánsamur að fá að eyða með afa Ingvari og ömmu Siddý í Sólheimum. Ég var alltaf mættur norður í Sólheima um leið og skóla lauk að vori og fór svo aftur suður rétt áður en skóli hófst aftur að hausti.

Ávallt tóku afi og amma mér vel og fékk ég að taka þátt í öllum þeim verkefnum sem verið var að sinna á hverjum tíma, hvort sem það var heyskapur, girðingavinna, vitja um net eða eitthvað annað. Afi var ávallt að kenna mér eitthvað nýtt, kenndi mér m.a. að keyra bíl, en það var fljótlega eftir að ég náði niður á pedala á traktornum.

Okkur afa kom ávallt mjög vel saman, vorum góðir vinir og minnist ég þess aldrei að hann hafi skammað mig þó eitthvað hafi misfarist eins og gengur og gerist eða ef hlutir voru ekki verið gerðir eins vel og ætlast var til. Eitt skiptið sem við vorum í girðingavinnu þá gleymdi ég að setja traktorinn í handbremsu eftir að afi hafði beðið mig um að henda til sín girðingarstaur. Ég stökk af traktornum og henti staur til afa en ekki vildi það betur til en svo að traktorinn rann af stað niður af veginum og í gegnum girðinguna sem við vorum búnir að vera að vinna við að laga. Ég hélt niðri í mér andanum frá því að ég sá traktorinn byrja að renna af stað og þangað til hann staðnæmdist, bjóst við að verða skammaður en afi hló bara að þessum klaufaskap.

Í sveitinni hjá afa og ömmu var ávallt rólegt og notalegt andrúmsloft, oftast sama rútína alla daga. Yfirleitt fór ég ásamt ömmu í fjósið að mjólka en afi fékk að sofa lengur. Eftir það var komið inn í morgunkaffi, þar var afi að drekka morgunkaffið sitt og ákveðið var hvað ætti að gera í dag. Svo voru unnin verkefni fram að hádegismat. Eftir mat var hlustað á fréttir og veður og svo dottað í smástund, afi í sófanum inni í símaherbergi og ég inni í stofu. Svo var farið út og unnið fram að kaffitíma, haldið áfram að vinna eftir kaffi, mjólkað og borðaður kvöldmatur. Á kvöldin var svo horft á sjónvarpið og dagurinn endaði með smá kvöldkaffi. Skemmtilegast fannst mér samt þegar það voru einhverjir gestir í sveitinni, þá var oft setið langt fram á kvöld og fullorðna fólkið spjallaði um alla heima og geima og hlustaði ég ávallt á samræður afa og gesta með mikilli athygli og hló með.

Ég var alltaf svo stoltur af því að eiga afa sem var hreppstjóri, fannst það flottasti titill sem hægt væri að hafa og fékk ég stundum að sinna embættisverkum með honum eins og að bjóða upp óskilahross.

Mér þykir óendanlega vænt um minningar mínar um afa og sveitina okkar sem er svo yndisleg og stendur alltaf undir nafni í hjarta okkar sem höfum verið svo heppin að eyða tíma þar. Ávallt þegar ég kem norður í sveitina þá finnst mér eins og ég sé að koma heim. Nú er afi kominn á vit forfeðra sinna eftir að hafa legið inni á spítala í talsvert langan tíma. Söknuður okkar er mikill en minningin um góðan mann mun lifa. Þakklæti mitt er mikið að hafa fengið að kynnast honum og að hann hafi verið afi minn.

Snorri Freyr Árnason.

Elsku afi.

Takk fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman. Við vitum að nú ertu kominn á góðan stað og þú svífur án efa um í Sólheimum, sveitinni þinni sem þú unnir svo vel og vildir helst ekki yfirgefa.

Ég á eina minning, sem mér er kær:

Í morgundýrð vafinn okkar bær

og á stéttinni stendur hann hljóður,

hann horfir til austurs þar ársól rís,

nú er mín sveit eins og Paradís.

Ó, hvað þú, Guð, ert góður.

Ég á þessa minning, hún er mér kær.

Og ennþá er vor og þekjan grær

og ilmar á leiðinu lága.

Ég veit að hjá honum er blítt og bjart

og bærinn hans færður í vorsins skart

í eilífðar himninum bláa.

(Oddný Kristjánsdóttir)

Við kveðjum þig nú í bili, elsku afi, megi guð geyma þig.

Þínar afastelpur,

Tinna og Thelma.

Sem hluti af námi mínu við Bændaskólann á Hvanneyri var að fara í verknám á einhvern bóndabæ. Það kom í hlut Ingvars og Sigríðar á Sólheimum að taka mig í verknám og láta mig spreyta mig við hin ýmsu verk til sveita.

Verknámið varði í 90 daga og í mínu tilfelli hefði það alveg mátt vara lengur, því í Sólheimum leið mér vel.

Fyrsta minningin um Ingvar er í forstofudyrunum. Stór og þrekinn, dökkur á að líta og með fallegt og satt bros þegar hann bauð mig velkominn.

Á Sólheimum var kúabú og fjósið varð mín kennslustofa. Þau voru líka með angórukanínur, en það var einmitt áhugi minn á þeim sem leiddi mig að Sóheimum.

Þessir 90 dagar voru ekki lengi að líða, frá páskum og fram til um 10. júlí.

Mér er mjög minnisstætt eitt atvik þegar Siddý hafði brugðið sér af bæ í nokkra daga, að Ingvar tók sig til og eldaði grjónagraut. Þegar ég kom inn í bæinn til hádegisverðar lagði megna brunastækju um húsið. Hafði karl þá einhverra hluta vegna dormað við eldamennskuna eftir að mjólkin hafði verið sett í og grauturinn allur brunninn. Við reyndum að borða þetta, en urðum að sætta okkur við súrmjólk, því þó að við reyndum að ímynda okkur að brunaagnirnar væru rúsínur þá dugði það ekki til.

Þegar Siddý var í þessari ferð ákvað Ingvar að koma henni á óvart og byrja að grafa fyrir litlum sólskála framan við stofuna. Kom einhver á gröfu og gróf, en við Ingvar ókum uppmokstrinum burtu. Sagði hann að það væri mikilvægt að gera eitthvað óvænt sem myndi gleðja konuna þegar hún kæmi heim og varð Siddý hin ánægðasta. Hef ég tamið mér þetta í mínum hjúskap, með mismikilli ánægju þó.

Þetta vor voru sveitarstjórnarkosningar. Ingvar var hreppstjóri og bað hann mig um að gegna hlutverki dyravarðar. Sagði hann hvernig ég ætti að bera mig að og forðast að eiga í orðaskiptum við kjósendur, í mesta lagi að taka undir kveðju, til að kosningarnar myndu ganga hratt fyrir sig og fólk þyrfti ekki að bíða lengi eftir að komast í kjörklefann. Þetta má segja að hafi verið fyrsta opinbera samfélagslega verk sem ég tók mér fyrir hendur.

Ingvar kenndi mér að keyra bíl. Ég hafði nú ekið traktorum, en aldrei bíl. Það var Austin Gipsy, sem notaður var fyrir slóðadragann. Ók ég honum um tún og grundir eins og herforingi. Dag einn var verið að vinna við tún á öðrum bæ. Ég var á dráttarvél og hann kom síðan til að skipta við mig og ég átti að fara heim í Sólheima. Átti ég þá að aka gipsyinum heim eftir þjóðveginum, ekki orðinn 17 ára og því próflaus. Hafði ég áhyggjur af þessu en Ingvar sagði brosandi að hann væri yfirvald í þessum hreppi og skipaði mér að aka heim, sem ég og gerði.

Já, þessi tími á Sólheimum varð mér eftirminnilegur og dýrmætur sem innlegg í mína eigin framtíð sem bóndi. Það var gott að vera hjá þeim hjónum og því miður hefur það orðið þannig að samverustundir okkar eftir að þessum tíma lauk hafa ekki verið margar.

Ég vil þakka fyrir að hafa fengið að kynnast Ingvari og njóta leiðsagnar hans og votta fjölskyldunni innilega samúð.

Þorgrímur E. Guðbjartsson, Erpsstöðum.